Í skrifum mínum beini ég stundum athyglinni að matvælum og dreg fram í sviðsljósið þá staðreynd að margar matvörur eru næringarsnauðar og ekki heilnæmar. Oft á tíðum þarf maður að skilja, í þessu samhengi, hvað maður vill ekki, til að skilja hvað það er sem maður vill. Þegar ég spyr fólk hvað það vill þá vefst því oft tunga um tönn. En ef ég spyr hvað það vill ekki, þá stendur ekki á svörum.
Ég vil ekki verja of miklum tíma og athygli í að dæma. Ég vil vera með athygli mína og áherslur á heilnæmri fæðu, frekar en að dæma fæðu sem er minna heilnæm eða næringarsnauð. Það er ekki ásetningur minn að dæma matvæli, en það er einlægur ásetningur minn að benda á að orkugjafar, hvort sem það er matur eða bensín, eru mjög misjafnir að gæðum. Og vilji maður næra velsæld er mjög skýrt hvers konar næringu maður á að velja.
Ég kynni því ekki til sögunnar hinn stóra sannleika. Það sem ég get boðið upp á er mín útgáfa af sannleikanum um næringarsálfræði – og hún byggist á mínu neyslumynstri, minni eigin reynslu og þeirra sem ég hef unnið með undanfarna áratugi.
Lestu meira: