fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025

Pétur Örn (Jesú) sýnir á sér beran rassinn á Snapchat

Ritstjórn Bleikt
Laugardaginn 8. apríl 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hann er kenndur við frelsaran sjálfan, Jesúm, en viðurnefnið er tilkomið vegna hlutverks hans í söngleiknum Jesus Christ Superstar, sem sýndur var í Borgarleikhúsinu árið 1995. Svo sannarlega örlagaríkt, því Pétur Örn Guðmundsson verður líklega þekktur sem Pétur Jesú þar til hann andast á krossinum … já eða einhvern veginn öðruvísi.


Pétur er vinsæll snappari, en hann snappar undir nafninu Grameðlan (gramedlan), og birtir þar eitt og annað sem á daga hans drífur. Snapchat er miðill í sókn, en Pétur er líklega eini snapparinn á landinu sem hefur tekið fylgjendur sína með í ófrjósemisaðgerð, eða herraklippingu eins og aðgerðin er oft kölluð.
Við Pétur hittumst á kaffihúsi í Kringlunni og ég byrjaði vitaskuld á því að spyrja hvernig honum liði í sáðrásunum.
„Ljómandi vel þakka þér fyrir. Það er langt síðan einhver hefur spurt mig að þessu. Kannski síðast í læknisskoðun í Laugarnesskóla, en það getur verið að mig misminni,“ svaraði Pétur.
Hvernig skyldi annars standa á því að hann tók ákvörðun um að hleypa þjóðinni með sér í aðgerð á sínu allra heilagasta – aðgerð sem margir líta á sem einkamál og jafnvel mikið feimnismál.

„Ég hugsaði með mér að þetta væri nú ekkert mál, því ég sýni á mér beran rassinn í þriðja hverju myndskeiði sem ég set á Snapchat.“

Þarna vísar Pétur í tiltekna hefð sem hófst þegar hann var staddur í Stokkhólmi með Grétu Salóme og fríðu Eurovision-föruneyti og birti myndskeið af afturenda sínum við góðan róm fylgjenda. Þetta gerði hann vitaskuld til að lýsa yfir stuðningi við Grétu eftir að mynd af henni á einni æfingunni birtist á forsíðu Fréttablaðsins og sumum þótti sjást ansi mikið í hennar vel þjálfaða rass. Rassagrínið hefur svo undið upp á sig og nú fer Pétur reglulega fáklæddur út á svalir sínar að morgni dags og stígur lítinn en þokkafullan dans við Morgunstemningu eftir Edward Grieg. Að sögn hans snýst gjörningurinn um að sýna fólki að það sé ekkert að því að vera með rass!


Þarf ekki að vera feimnismál

„Ég ræddi málið við eldri systur mína, og auðvitað lækninn. Systur minni þótti þetta hið besta mál, því það er til svo margt fólk sem veigrar sér við því að ræða mál sem þessu tengjast. Mér fannst fínt að sýna fram á að þetta þyrfti alls ekki að vera neitt tabú. Vinur minn Benedikt Nikulás Anes Ketilsson, eða BNAK eins og hann er kallaður, kom með mér í aðgerðina en hann fór einmitt í eins aðgerð fyrir nokkru síðan og er að auki kvikmyndatökumaður.“

Pétur sýndi frá öllu ferlinu á Snapchat og síðar á Facebook. „Allt sem ég sýndi þarna var ekta. Til dæmis þegar ég vaknaði eftir aðgerðina, kolruglaður og eldrauður í framan. Ég var sko ekkert að ýkja. Viðbrögðin sem ég fékk voru miklu meiri en ég bjóst við. Bæði konur og karlar höfðu samband og þökkuðu mér fyrir og spurðu mig um ýmislegt sem tengdist aðgerðinni. Nokkrir karlmenn sendu mér skilaboð um að nú skyldu þeir láta af þessu verða eftir margra ára umhugsun.“
Þetta var einmitt það sem Pétur vonaðist eftir.

„Þetta sýnir okkur bara að það er miklu betra að opna umræðuna um alls konar hluti en að gera það ekki. Það er ekki eins og ég hafi verið að játa á mig einhvern stórglæp – ég var bara í ófrjósemisaðgerð og sagði frá því. Það virðist svo mikil læknafeimni í gangi hjá fólki.“

Ekki vísitölumaður

Pétur á 12 ára dóttur sem býr í Noregi hjá móður sinni og fósturföður, en kemur þó reglulega til Íslands í heimsókn.

„Ég ætlaði aldrei að eignast börn, þó að auðvitað sé ég himinlifandi með dóttur mína og elski hana heitt. Ég vissi það mjög snemma að ég yrði ekki fjölskyldumaður og mundi alls ekki fara hina dæmigerðu vísitöluleið í lífinu. Það merkilega er að fjölskylda mín sættir sig alveg við mitt val og ég hef aldrei þurft að hlusta á kvabb um hvort ég ætli nú ekki að fara að finna mér konu og fjölga mér.“

Athyglissýki?

Hvað er málið með Snapchat – er þetta athyglissýki, leið út úr einmanaleika eða hvað? Pétur segist hafa áttað sig á því fyrir réttu ári að Snapchat gæti verið mikilvægur miðill fyrir hann til að eiga fyrir salti í grautinn, já og fyrir kattamat.

„Kannski að þetta sé einhver tegund af athyglissýki, en mér finnst mjög skemmtilegt að deila jákvæðum hlutum. Inni við beinið er ég mikill einfari og ekki endilega mikið að ota mínum tota hvert sem ég fer. Þegar ég tek upp myndskeið fyrir snappið er ég einn og finnst mjög óraunverulegt að vita til þess að svona margir horfi á mig.“

Í skemmtanabransanum skiptir máli að vera sýnilegur.

„Ég og kettirnir eigum allt okkar undir því að síminn hringi þegar einhver er að halda veislu, eða vantar skemmtikraft. Mér finnst þetta skemmtilegur miðill til að vera sýnilegur.“

Dansar á línunni

Þeir sem fylgjast með Pétri hafa ekki aðeins fengið að kynnast rassinum hans og kisunum, heldur snappar hann gjarnan um þau verkefni sem hann starfar að hverju sinni, til dæmis Eurovision, en þar hefur Pétur verið fastagestur í bakröddum lengi vel.

„Fólk fær innsýn í það sem gerist baksviðs og það hefur virkað vel. Þó að það sé um 2.500 manna kjarni sem virðist fylgjast með öllu sem ég geri er ég alltaf hræddur um að vera ekki nógu fyndinn eða fræðandi. Stundum held ég að fólk sé búið að fá nóg af kattasnöppum og segi það við fylgjendur mína – en þá bregst ekki að ég fæ holskeflu af skilaboðum á móti um að fólk elski kettina mína og vilji endilega sjá meira af þeim. Ég man ekki til þess að hafa fengið annað en jákvæð viðbrögð, enda er ég bara með fimmaurabrandara, kisusnöpp og hlaupandi allsber úti á svölum – svona fyrir utan það sem tengist vinnunni. Ég dansa á grófri línu og kem yfirleitt út eins og bjáni. Það skiptir mestu máli að gera grín að sjálfum sér, með því held ég mig réttum megin línunnar.“


Sjá meira:

Frumur og geldingar – Pétur Örn fer í herraklippingu – Sjáðu myndbandið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Áhyggjufull eftir að eiginmaðurinn var rekinn: Vinnan heldur honum frá vandræðum – ,,Hún var svo vongóð“

Áhyggjufull eftir að eiginmaðurinn var rekinn: Vinnan heldur honum frá vandræðum – ,,Hún var svo vongóð“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Ætlar að leita annað ef hann missir sætið í liðinu: ,,Það sem skiptir máli er völlurinn“

Ætlar að leita annað ef hann missir sætið í liðinu: ,,Það sem skiptir máli er völlurinn“
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Faðir og bróðir hryðjuverkamannsins stíga fram – „Einhver eða eitthvað hefur afvegaleitt hann“

Faðir og bróðir hryðjuverkamannsins stíga fram – „Einhver eða eitthvað hefur afvegaleitt hann“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Ráðuneyti segir margt benda til að sveitarfélög fari ekki að lögum en það geti lítið gert í því

Ráðuneyti segir margt benda til að sveitarfélög fari ekki að lögum en það geti lítið gert í því
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Hefja viðræður við United um leikmann liðsins

Hefja viðræður við United um leikmann liðsins
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.