Damian Davíð er mikill áhugamaður um hunda. Það er ekki annað hægt að segja en að hundar séu hans ástríða í lífinu. Hann hefur ákveðið að bjóða sig fram í stjórn Hundaræktarfélags Íslands.
Damian er fæddur og uppalinn í Póllandi en flutti til Íslands þegar hann var 8 ára, eða árið 2004. Hann á heima í Hafnarfirði og vinnur í gæludýrabúðinni My Pet í Firði, auk þess sem hann stundar fjarnám við FÁ.
„Ég hef rosalega gaman af öllu sem tengist hundum, já eiginlega öllum dýrum og útivist,“ segir Damian.
Hann byrjaði rólega í hundaheiminum, og var 14 ára þegar hann keypti sinn fyrsta hund.
„Þannig kynntist ég hundasýningum og öllu sem þeim tengist. Í dag á ég tvo innflutta Papillon hunda og sýni í hunda af mörgum tegundum á sýningum HRFÍ. Hundar eru gríðarlega góður felagsskapur, þeir dæma mann ekki og elska mann alltaf.“
Damian er svo heppinn að vinna í gæludyrabúð, þannig að hundarnir mega koma með honum í vinnuna. „Það eru forréttindi,“ segir hann og er vitaskuld hæstánægður með fyrirkomulagið.
Eins og margir hundaeigendur hefur Damian lengi verið tengdur starfi HRFÍ. Væri samt ekki nær fyrir mann á hans aldri að fara út að djamma eða á Interrail eða gera eitthvað flippað sem fólk á hans aldri hefur gaman af.
„Mér þykir ótrúlega vænt um félagið mitt og fólkið í félaginu og tel að ég hafi heilmikið að bjóða til að gera gott félag betra. Ég kem með unga ferska sýn á þau málefni sem stjórn vinnur að. En það þýðir að sjálfsögðu ekki að ég ætli að hætta að vera 22 ára lifsglaður strákur sem djamma með vinum mínum, enda hver segir að það sé ekki hægt að gera bæði.“
Að sögn Damians hefur hundamenning breyst mikið síðan hann flutti til Íslands og hann segir hunda almennt hafa það gott á íslandi. Þó segir hann að ýmislegt megi bæta og einmitt þess vegna býður hann sig fram í embætti hjá stjórn HRFÍ.
„Það er sorglegt að árið 2017 skuli ennþá vera starfrækt hvolpaframleiðslubú í þökk stjórnvalda og að hundafólk almennt upplifi sig sem annars flokks þegna. Á mörgun stöðum eru hundar eru ekki velkomnir og því þarf að breyta. Fjögurra vikna rándýr einangrun ofan á gríðarlegt magn allskonar prófa tel ég algjöra tímaskekkju og eitthvað sem þarf sannarlega að breyta varðandi innfluting hunda til landsins. Þegar ég flutti inn tikina mína fyrir ári síðan, þá brotnaði hún í þessu einangrunarferli, sú aðgerð kostaði mig fleiri hundruð þúsunda, en enginn viðurkennir neitt og það virðist enginn vera að vinna í þessu máli.“
En lesendum leikur eflaust, líkt og okkur á Bleikt, forvitni á að vita hvaða hundamynd er í mesta uppáhaldinu hjá Damian. Enda eru hundamyndir æði!
„Beethoven finnst mér vera besta hundabíómyndin enda algjör klassík! Þessi mynd heillaði mig það mikið, að í dag er ég í mjög góðu sambandi við Sankti Bernhards ræktanda hérna heima, hana Guðný Völu, og er að passa hundana hennar þegar þörf er á því og einnig aðstoða ég hana á sýningum hundaræktarfélagsins.“
Hvað með Best in Show? Blaðakonu þykir hún nefnilega besta hundamynd í heimi.
„Klárlega ein af þeim betri sem ég hef séð. Enda líkist ég einum karakteri sem kemur þar fram.“
Þeir sem vilja fylgjast með Damian Davíð ættu að kíkja á facebook síðu hans sem er opið. Svo er hann auðvitað á öllum sýningum HRFÍ.
„Ég hvet fólk á að mæta, horfa á, kynnast hundum, sýnendum og ræktendum! Þetta er flottur felagsskapur ólíkra hópa með sameiginlegt áhugamál: hunda! HRFÍ er sko ekki einhver snobbklúbbur og snýst um svo miklu meira en sýningarnar. Það heldur úti öflugu barna og unglingastarfi, vinnu og veiðiprófum og hundafimi,“ segir Damian að lokum, og bætir því við að hann voni að sjálfsögðu að allir kjósi hann í maí svo draumurinn um stjórnarsetu rætist.