fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024

Flughræðsla: Þegar háloftin heilla ekki

doktor.is
Föstudaginn 7. apríl 2017 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fælni (phobia) er einn algengasti geðræni kvillinn. Íslenskar rannsóknir sýna að um tólf þúsund manns eru með fælni á svo háu stigi að það hái þeim verulega í lífi og starfi. Flughræðsla (avio-phobia) er ein tegund af fælni og virðast sterk tengsl milli hennar, lofthræðslu og innilokunarkenndar. Fjórða hver íslensk kona og tíundi hver karl segjast alltaf eða oft finna til hræðslu eða ótta við að fljúga. Flestir eru slegnir ótta þegar flugvél lætur illa á flugi vegna ókyrrðar í lofti en einnig valda flugtök og lendingar ótta hjá mörgum.

Flughræðsla

Flughræðsla er ein algengasta tegund fælni. Erlendar kannanir sýna að fimmti til tíundi hver fullorðinn er flughræddur og mun fleirum er ekkert vel við þennan ferðamáta – þó að þeir láti sig hafa það. Konur eru frekar flughræddar en karlar og algengast er þetta ástand á aldrinum frá tvítugu til fertugs. Hefur það verið tengt ábyrgðartilfinningu foreldra sem eru á þessu aldursskeiði þegar börnin þurfa mest á þeim að halda. Flughrætt fólk er oft vel gefið, hefur náð árangri í lífinu og vill gera allt vel.

En hvað óttast þeir sem þjást af flughræðslu? Innilokunarkennd er ofarlega á blaði. Sumir kunna því illa að hafa ekki fulla stjórn á umhverfi sínu – eins og þeir telja sig hafa sem ökumenn. Aðrir eru lofthræddir eða vita ekki hvernig þeir geta brugðist við óvæntum aðstæðum á ókunnugum stað.

Fréttir af flugslysum magna ótta þeirra sem er illa við að fljúga og þeir loka augunum fyrir þeirri staðreynd að það er hundrað sinnum öruggara að ferðast með flugvél en í bíl. Bandarískar tölur sýna að líkurnar á að deyja í innanlandsflugi eru einn á móti tíu milljónum og einn á móti fjörtutíu milljónum í millilandaflugi. Flugvélar eru þannig gerðar að þær eiga að þola eldingar og geta lent þó einn eða fleiri hreyflar bili – svo lengi sem einn er í lagi. Litlar líkur er á að hjólbarðar springi í flugtaki eða lendingu, þeir eru samsettir úr meira en þrjátíu lögum.

Óeðlilegur ótti

Fátt er eðlilegra en óttinn. Hann er nauðsynlegur til að minna okkur á að fara gætilega yfir götu þar sem umferð er þung. Þar er hættan til staðar og ástæða til að fara varlega. Varla verður það sama sagt um þá einföldu athöfn að kaupa sér flugmiða. Engu að síður vekur hún ótta hjá þeim sem eru flughræddir. Þeir mikla fyrir sér hættuna sem þeir telja að fylgi í kjölfarið.

Þegar vélin er komin á loft hlustar flughrædda fólkið eftir öllum breytingum á vélarhljóði og einnig eftir öðrum „dularfullum“ hljóðum. Hér kemur að gagni að dreifa athyglinni með því að hlusta á góða tónlist.

Smávægileg ókyrrð í lofti vekur ugg, þótt ekkert sé eðlilegra þegar flogið er í gegnum veðra- og vindaskil. Ef flugstjórinn hefur sagt farþegunum fyrirfram frá ókyrrðinni, rólegri röddu, dregur úr angistinni. Að ekki sé talað um að hann ræði í leiðinni um eitthvað annað, til dæmis góða veðrið á áfangastaðnum.

Flughræðsla er áunnin og í eðli sínu órökræn. Hinn fælni óttast ákveðnar aðstæður, reynir að hliðra sér hjá þeim og hefur tileinkað sér óæskileg viðbrögð.

Meðal einkenna eru, eins og í annarri fælni, áköf líkamleg viðbrögð, það að finna fyrir miklum hjartslætti, erfiðleikum með öndun, svimatilfinningu, svita og óþægindum í kviðarholi. Viðbrögðin koma jafnvel fram við hugsanir sem tengjast fluginu.

Hvað er til ráða?

Undirbúðu flugið með því að kaupa farmiða í tæka tíð. Reyndu að pakka niður nokkru áður en þú ferð, en ekki á síðustu stundu.

Hugsaðu fyrir því að hafa uppáhalds tónlistina þína meðferðis, þannig að þú getir hlustað á hana á meðan fluginu stendur. Allt sem auðveldar að beina athyglinni að öðru en eigin vanlíðan er af hinu góða. Því er gott að hafa með sér til dæmis tímarit, bók, spil, krossgátur, vasatafl eða tölvuleiki. Auk þess er æskilegt að hafa með sér tyggjó eða brjóstsykur til að nota fái maður hellu fyrir eyrun.

Reyndu að sofa vel daginn áður en þú ferð í flug. Æskilegt er að örva blóðrásina áður en haldið er út á flugvöll til að forðast neikvæð áhrif þess að halda lengi kyrru fyrir í sætinu á flugi. Hressileg gönguferð eða sturta geta gert mikið gagn. Gætið þess að ferðafötin séu þægileg og að þau þrengi ekki að líkamanum.

Standi ferðin skemur en í tvo sólarhringa er hyggilegt að hafa úrið stillt á tímann heima. Vari ferðin lengur en tvo sólarhringa er best að stilla klukkuna strax á tímann á ákvörðunarstað. Verið úti við í dagsbirtu og á fótum fram að háttatíma. Þannig má verjast þotusleni.

Í flugvélum er andrúmloftið þurrt. Það getur leitt til vanlíðunar, nema þess sé gætt að drekka nægilega mikið af vatni til að mæta vökvatapi. Talið er hæfilegt að drekka sem svarar einu glasi fyrir hverja klukkustund sem flogið er. Hyggilegt er að neyta hvorki áfengis né koffíns, sem getur örvað útgufun úr líkamanum og hægt á líkamsviðbrögðum. Það bætir líðan að borða mat á flugi.

Séu tök á er gott að standa upp og hreyfa sig á meðan á flugi stendur eða gera einfaldar líkamsæfingar í sætinu með því að hreyfa liði. Hreyfingarnar örva blóðrás og létta álagi á liði og vöðva. Æskilegt er að stunda slökun á leiðinni, til dæmis með því að hlusta á ljúfa tónlist. Slökunin hjálpar til að draga úr álaginu við flugferðina og óþægindum sem fylgja löngum ferðalögum. Að lokum má mæla með því að fara í heitt bað á ákvörðunarstað, að minnsta kosti fyrsta kvöldið, til að ná góðum svefni.

Að fljúga með hjartað í buxunum Þeir hljóta að vera hugmyndalausir og tilfinningasljóir sem aldrei hafa verið helteknir dauðabeyg við einhverjar válegar aðstæður. Persónulega er höfundur sterkast gripinn þeim ótta þegar stigið er upp í flugvél. Jafnvel dagana þar á undan fer oft nístandi nágustur um viðbragðsnæmt tilfinningalífið, svo að stundum liggur við lömun. Þegar heljartök vélaraflsins lyfta fluggamminum og slíta heittelskuð tengsl við Móður Jörð birtast honum óhugnanlegar hrollmyndir og furðusýnir í lúxuslögðum hægindum og þægindum farþegarýmisins og skýrast í króminu og glerjunum í kring . . . Öll stórslys í stuttri sögu flugsins sækja að úr öllum áttum í einu . . . En því flýgur mannfýlan í slíku sálarástandi? spyr nú víst einhver. Því er til að svara að hann flýgur af því að hann er hetja, sönn hetja sem þorir og flýgur þrátt fyrir óttann. Leiðin til að vaxa frá hræðslunni er að ganga á vit hennar … En það virðist nú bara gamalt og úrelt húsráð í sumum tilfellum. Að minnsta kosti hefur alltaf verið sama óbreytta ástandið á líðaninni hjá listamanninum, hversu oft sem flogið er. Og nú er hann einmitt á útleið, til London ásamt frúnni …Blessuð eiginkonan, sem veit ekki hvað flughræðsla er, svífur þarna örugg eins og dúfa um loftin blá . . . Úr dimmum djúpum þögullar þjáningar og sálarangistar rankar nú listamaðurinn loksins við sér. Já, óttinn lamar sannarlega talandann en vekur hugsun og hugmyndir …Nú fór karl að róast, eftir að hafa nærst á nöldrinu við konuna með bjórnum. Allar hættur gleymdar og nú færðist óvænt ró og aukin öryggiskennd yfir kauða eftir að hafa rennt næmum og sjáandi listamannsaugum yfir nærliggjandi andlit farþeganna og komist að þeirri raun að víðar væri falin innibyrgð hræðsla en sýndist við fyrsta augnakast …Hér var ekki síður gott að lifa og deyja en annars staðar. „Já, lífið það er sterkara en dauðinn,“ kvað Káinn, þótt aldrei kæmi upp í flugvél … En það er nú kannski öruggast að syngja ekki sálminn þann fyrr en að leiðarlokum . . . Þá fer stundum mesta notakenndin um suma gagnvart flugi …Örlygur Sigurðsson listmálari.
Þættir og drættir, 1966.

Nokkur lykilatriði

Til að ná tökum á flughræðslunni er gott að átta sig á nokkrum atriðum þegar verið er að undirbúa flugið, komast um borð í flugvélina, meðan á flugi stendur og eftir að komið er heim úr flugi.

Við undirbúning flugsins verður hinn flughræddi að vera ákveðinn að reyna sitt besta til að forðast óttann og mæta neikvæðri hugsun með rökrænni og jákvæðri afstöðu.

Á leið í flugvélina og við flugtak skiptir máli að ætla sér að slaka á og beina athygli hugans að einhverju sem stuðlað getur að því. Hafa má í huga að hræðslutilfinning og kvíði fjarar alltaf út. Meðan á flugi stendur er rétt að vænta hins besta vegna þess að það eru hverfandi líkur á því að það sem fólk óttast muni eiga sér stað.

Gott er að fylgjast með því sem er að gerast inni í vélinni og heita sjálfum sér því að takast á við erfiðleika hvað sem á dynur. Ágætt er að hafa í huga að flugmennirnir hafi jafn mikinn áhuga á að komast á ákvörðunarstað og farþegarnir.

Að loknu flugi má líta yfir farinn veg, leggja á minnið það sem vel tókst og lofa sjálfum sér að gera betur næst.

Þess má geta að hér á landi hafa verið haldin námskeið fyrir flughrætt fólk. Tveir sálfræðinemar unnu verkefni þar sem árangurinn var metinn. Haft var samband við þá sem setið höfðu námskeiðin og spurt um atferli tengt flugi þann tíma sem liðinn var frá því námskeiðinu lauk. Kannaður var árangur af námskeiðunum, bæði til skamms tíma og lengri tíma. Reyndist hann mjög góður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Fékk stórkostlegar móttökur í Manchester – Sjáðu myndbandið

Fékk stórkostlegar móttökur í Manchester – Sjáðu myndbandið
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Fundu stein í skrifborðsskúffu – Veitti stórmerkilegar upplýsingar

Fundu stein í skrifborðsskúffu – Veitti stórmerkilegar upplýsingar
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Lukka bregst við „árásum“ embættis landlæknis – „Hulin ráðgáta hvers vegna Alma Möller er á móti heilsueflandi forvarnarstarfsemi“

Lukka bregst við „árásum“ embættis landlæknis – „Hulin ráðgáta hvers vegna Alma Möller er á móti heilsueflandi forvarnarstarfsemi“
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Hvar búa oddvitar flokkanna í þínu kjördæmi?

Hvar búa oddvitar flokkanna í þínu kjördæmi?
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Ása sögð ætla að selja húsið þar sem Rex lagði á ráðin um hin djöfullegu myrkraverk

Ása sögð ætla að selja húsið þar sem Rex lagði á ráðin um hin djöfullegu myrkraverk
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Oddvitinn búinn að fá nóg af tali um útlendingaandúð Íslendinga – „Jæja góði“

Oddvitinn búinn að fá nóg af tali um útlendingaandúð Íslendinga – „Jæja góði“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Guardiola játar sig sigraðan ef liðið tapar næsta leik – ,,Erum ekki vanir þessu“

Guardiola játar sig sigraðan ef liðið tapar næsta leik – ,,Erum ekki vanir þessu“
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Enginn skapað fleiri færi í ensku úrvalsdeildinni – Var magnaður í kvöld

Enginn skapað fleiri færi í ensku úrvalsdeildinni – Var magnaður í kvöld
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Ronaldo og félagar að missa lykilmann til Evrópu

Ronaldo og félagar að missa lykilmann til Evrópu

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.