„Um daginn sló ég gamlar launatölur inn í verðlagsreiknivél og urlaðist yfir niðurstöðunum. Ástæðan? Jú, þar fékk ég nefnilega eftirfarandi staðfest: Ég var með alveg jafn glötuð laun í öll þessi ár og mig minnti. Skyndilega blossaði upp einhvers konar reiðikergja sem ég hef burðast með í rúm fimmtán ár og ég sprakk.“
Í honum gerir hún að umfjöllunarefni kynbundið misrétti í ýmsum myndum sem konur hafa upplifað síðustu árþúsundin.
Um launamisréttið segir hún meðal annars
„Og rúsínan í rembuendanum var síðan það að gaurinn á næsta borði, gjarnan með styttri starfsaldur og minni menntun en ég, var með hærri laun. Mhm. Þessi „gaur” var þarna á hverjum einasta vinnustað þar sem ég vann næstu árin. Og jú, jú, ég „þorði” svo sannarlega að láta í mér heyra. Ég krafðist ítrekað hærri launa í launaviðtölum. Var fullkomlega óhrædd að biðja um hærri laun hvenær sem mér fannst ég eiga það skilið. Og þegar ég fékk þau ekki þá sagði ég upp og fór annað. En ég er samt ennþá reið.“
Lára Björg er hætt að nenna að afsaka það lengur að þykjast hafa verið sátt við „tækifæri” sem hún fékk í „eftirsóknarverðum bransa” og bendir á að hlutirnir lagist nefnilega ekki af sjálfu sér, með tímanum.
„Því gott fólk, það tekur ekki bara nokkur misseri heldur margar aldir að vinda ofan af 2000 ára gömlu feðraveldisrugli. Ég meina, það er ennþá verið að kalla ákveðin störf „kvennastörf” í umræðunni í dag.“
Lára ætlar að leyfa sér að vera reið og finnst reiðin vera elegant og frábært fyrirbæri.
„Fyrir kulvíst og úrvinda fólk eins og mig þá er hún eins og innvortis hitapoki og kókaín í nös.“
Hún heldur áfram og bendir á þá staðreynd að reiði kvenna er ekki neitt sérstaklega viðurkennt fyrirbæri í samfélaginu. Konum er sagt að róa sig og vera nú ekki háværar og fyrirferðarmiklar. Annað hljóð kveður við þegar kemur að körlum. Þeirra reiði er upphafin og vekur oft aðdáun.
„Ég veit ekki betur en karlar séu búnir að vera reiðir síðustu tíu þúsund árin. Frá því þeir skriðu út úr hellinum og börðu hver annan með lurkum og störtuðu hverri einustu styrjöld sem herjað hefur á jarðarkringlunni okkar, hafa þeir verið í alveg brjáluðu skapi. Bandvitlausir og reiðir. En það heitir auðvitað eitthvað annað: Lífsbarátta, grjótharka, að vera meistarar upp til hópa og fleira aðdáunarvert.“
Í lok pistilsins víkur Lára að nýlegri herferð UN Women sem kynnt var undir slagorðinu „Fokk ofbeldi“ – sem fór fyrir brjóstið á sumum.
„Ég hef heyrt fleiri en einn og fleiri en tvo karla segja: „Var ekki hægt að nota eitthvert annað orð en fokk?” Þetta er svo reiðilegt og dónalegt. Uh…fokk nei! Ætli þeim myndi líða betur með slóganið: „Aðeins minna ofbeldi takk” eða „hæ, væruði til í að hætta að beita okkur ofbeldi ef það hentar?” Hefur það mögulega hvarflað að einhverjum að við séum bara komnar á fokkans endastöðina með þetta og að ekkert annað en „fokk” dugi til? Hættiði frekar að lemja okkur og/eða byrjið á að hvetja kynbræður ykkar til að hætta að lemja okkur ef herferðirnar okkar gegn ofbeldi fara svona fyrir þaninn brjóstkassann á ykkur.“
Lára Björg er reið og hún ætlar að halda því áfram þangað til hlutirnir breytast í samfélaginu – hún hefur ekki tíma til að sitja þæg og bíða næstu 500 árin eftir breytingum!
#teamreiði