Bardagakonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir, úr Mjölni, berst sinn annan atvinnubardaga næstkomandi laugardagskvöld á Invicta 22 bardagakvöldinu sem fram fer í hinu sögufræga húsi Scottish Rite Temple í Kansas City.
Andstæðingur Sunnu heitir Mallory Martin. Martin þessi er 23 ára Bandaríkjamær sem hefur líkt og Sunna barist og sigrað einn atvinnubardaga til þessa. Bardagakvöldið verður sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og er þriðji bardagi kvöldsins. Útsending hefst klukkan 12 á miðnætti og má gera ráð fyrir að Sunna stígi í búrið lauslega fyrir klukkan eitt.
Sunna er fyrsta íslenska konan sem gerist atvinnumaður í MMA. Hún gekk til liðs við Invicta Fighting Championships sem er stórt bardagasamband í Bandaríkjunum. Hún vann fyrsta bardagann sinn með öruggum sigri gegn Ashley Greenway í september.