fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024

María – „Hann lamdi mig bara nokkrum sinnum þegar ég var ólétt“

Ritstjórn Bleikt
Miðvikudaginn 22. mars 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er svo merkilegt að ég man ekki eftir einu einasta svefnherbergi sem við áttum.Við bjuggum saman á óteljandi stöðum, enda var mjög mikilvægt fyrir hann að slíta markvisst á öll tengsl þar sem ég var farin að festa rætur.“

Gloppur í minni eru algengar meðal einstaklinga sem hafa upplifað ofbeldi og tengist oft einhverju sem er hreinlega of erfitt að muna.

Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Í tilfelli Maríu Hjálmtýsdóttur á gleymskan rætur í ofbeldissambandi sem varði að hennar sögn í 18 ár. María var 18 ára þegar sambandið hófst. Maðurinn er af erlendu bergi brotinn en hlaut íslenskan ríkisborgararétt eftir 5 ára búsetu hér.

„Þegar ég losnaði var það frekar bókstaflegt þar sem hann flutti af landi brott. Það var mjög þægilegt því ég hafði beinlínis meira rými. Þegar hann er á Íslandi finn ég hvernig plássið mitt minnkar – það þrengir að mér. Ef einhver segir mér að hann sé á landinu þá kemur gamall hnútur í magann. Ég tók reyndar ekki eftir þessum hnút fyrr en hann leystist upp þegar sambandinu lauk. Gamla munstrið fer undir eins í gang, hnúturinn og hræðslan við að rekast einhvers staðar á hann.“

Um daginn kom hann til landsins og tók að sögn Maríu snarpa ofsóknasyrpu. Eftir að sambandinu lauk fyrir um 6 árum segir hún hann reglulega hafa ofsótt sig og fólk tengt sér.

„Þó að allur þessi tími sé liðinn getur hann ennþá framkallað ótta og óvissu. Hann sendir kannski skilaboð þar sem hann segir kannski „nú er komið að mér, bíddu bara!“ og gefur í skyn að eitthvað sé að fara að gerast og þá fer ég bara öll á nálar. Ég fór í Bónus og var alltaf að horfa í kringum mig eins og hann gæti bara labbað inn í mjólkurkælinn eða eitthvað. Heima sleppti ég því að draga gluggatjöldin frá, því ég bjóst við því að hann gæti birst fyrir utan gluggann hvenær sem er.“

Í þessari síðustu Íslandsdvöl sinni heimsótti hann skóla þar sem núverandi sambýlismaður Maríu vinnur.

„Hann mætti fyrirvaralaust á svæðið og fór að leita að manninum mínum, sem er kennari, um allan skólann. Þeir hafa aldrei hist og hann átti ekkert erindi þangað.“

Hann kom líka á vinnustað hennar sjálfrar og tilkynnti æðsta yfirmanni að hún hefði farið með dóttur þeirra á unglingsaldri ásamt vinkonum í sumarbústað þar sem hún hefði staðið fyrir kynfræðslu sem farið hefði úr böndunum. Þessi ferð í bústað átti sér aldrei stað en María segir að líklega hafi einhver sagt honum að eina leiðin til að kennari missi starf sitt hratt og vel sé að hrinda af stað rannsókn um kynferðisbrot gegn börnum.

„Þegar hann hótaði mér lífláti í gegnum son okkar fórum við til lögreglunnar. Það var nákvæmlega ekkert hægt að gera. Það þarf helst beina skriflega hótun eða upptöku til að hægt sé að kæra. Hótun gegnum þriðja aðila er ekki tekin gild, og þó að símaupptaka væri til þyrfti að vera skýrt að ofbeldismanninum hefði verið tilkynnt að upptaka væri í gangi. Þetta er sturlað kerfi og þolendur eiga eiginlega ekki séns fyrr en eitthvað mjög alvarlegt á sér stað. Í okkar tilfelli hringdi lögregluþjónninn í hann og núverandi kærustu hans til að segja honum að láta okkur í friði – en hann hefði alls ekki þurft að gera það.“

Varð að halda fólki í fjarlægð

María talar mikið um einangrunina sem hún upplifði innan sambandsins. Hún hefur alltaf verið vinamörg og átt fjölskyldu – en samt upplifði hún sig eina vegna þess að sambandið við þau varð að vera á hans forsendum.

„Ég vissi að ég varð að halda samböndum við fólkið mitt í ákveðinni fjarlægð svo að þau gætu ekki séð hvernig ástandið var í raun og veru. Annars yrði ég að slíta á þau af því að þeir sem sáu í gegnum hann urðu óvinir sem ekki mátti umgangast.“

Hún lagði mikið á sig til að láta manninn líta betur út gagnvart umhverfinu.

„Þú vilt frekar líta asnalega út sjálf heldur en að hann líti illa út, því ef hann lítur illa út þá lítur þú illa út fyrir að vera með svona biluðum manni. Þetta er flókið. Þú vilt ekki að fólk geri sér grein fyrir því hvað býr í honum raunverulega því þú munt kannski halda áfram að vera með honum, eða veist innst inni að það er möguleiki. Þá byrjar lygin. Maður fer að fegra hlutina og draga úr því sem er vont eða sjúkt.“

Þegar þolanda vex kjarkur til að losa sig úr ofbeldissambandinu segir María að málin flækist.

„Það er svo erfitt að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að maður hafi verið að ljúga, blekkja og fela, kannski svo árum skiptir. Ég upplifði mig afkróaða því ég átti erfitt með að viðurkenna fyrir öllu fólkinu mínu að þetta væri bara kjaftæði og að hann væri í raun ömurlegur maður. Myndin sem ég hélt að ég væri búin að mála sýndi bara káta fjölskyldu með léttgeggjuðum fjölskylduföður. Allir voða sveigjanlegir og flippaðir eitthvað, flytjandi á milli landa og svoleiðis. Mér fannst ég svo bjánaleg að hafa verið allan þennan tíma með klikkuðum manni. Af hverju í ósköpunum entist ég með honum í öll þessi ár, og eignaðist með honum tvö börn ef annað fólk gat umgengist hann í kortér og áttað sig á að hann væri ekki í lagi? Það hlaut eitthvað að vera að mér fyrst ég fattaði þetta ekki.“

María segist oft sár og reið út í sjálfa sig að hafa sóað tímanum í þessu sambandi.

„Nú er ég búin að fatta hvað það er miklu skemmtilegra að eiga mann sem ræktar dúfur og les Halldór Laxness á kvöldin.“

En lamdi hann þig?

„Ég hef verið spurð að því hvort hann hafi lamið mig,“ segir María. „Jú hann gerði það, en bara fyrst. Svo þurfti hann þess ekki lengur. Einhver sálfræðingur útskýrði fyrir mér að fyrir þolendur væri nóg að vita að ofbeldið sé möguleiki. Sagan sem fylgdi var einhvern veginn á þá leið að kona átti mann sem lamdi hana aldrei, en einu sinni kýldi hann í vegginn beint fyrir ofan höfuð hennar. Hún sá alltaf sprunguna í veggnum og hann þurfti ekki að lemja hana til að ná stjórninni.“

Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Þetta dæmi lýsir reynslu Maríu ágætlega, en reyndar segist hún hafa orðið fyrir ítrekuðu líkamlegu ofbeldi fyrstu árin. Þegar hún segir frá því er nánast eins og hún vilji ekki gera of mikið úr því.

„Hann lamdi mig bara nokkrum sinnum þegar ég var ólétt að fyrra barninu okkar og fyrst á meðan barnið var lítið. Í eitt skipti sparkaði hann í mig, dró mig á hárinu og læsti mig inni. Ég man til dæmis ekki eftir að hafa búið í íbúðinni sem við bjuggum í þá.

Alveg undir það síðasta þegar við rákum veitingastað man ég eftir að hafa þurft að afgreiða helling af kaffibollum. Hann var alltaf á fullu og allt átti að gerast svo hratt. Honum fannst ég vinna of hægt og kom með bolla í höndinni og sagðist geta brotið þennan kaffibolla í andlitinu á mér. Hann þurfti ekki að gera neitt meira – þetta var nóg. Svo hef ég spáð í af hverju ég kann ekki að reiðast. Ef ég ætlaði að prófa að bregðast við einhverju með reiði varð hann alltaf tíu sinnum reiðari. Mínar tilfinningar voru alltaf toppaðar með einhverju ennþá stærra. Ég varð bara hrædd og valdi því frekar að verða sérfræðingur í að halda honum sáttum.“

Þegar sonur þeirra Maríu var á fyrsta ári leitaði hún til Kvennaathvarfsins. Hún vildi bera undir einhvern hvort hún væri mögulega þolandi í ofbeldissambandi.

„Ég sat þarna með son minn pínulítinn í fanginu og sagði frá. Konan á móti mér staðfesti að svo væri. Svo fór ég bara heim.“

Sérfræðingur í að halda friðinn

„Aðra stundina elskaði hann mig svo óendanlega mikið og ég var gáfuðust og æðislegust og best. Svo skyndilega kom ekki neitt frá honum. Þetta mynstur er svo dæmigert. Þegar skrúfað er fyrir alla athyglina og aðdáunina fyrirvaralaust fer þolandinn að þrá hana. Ég var þess vegna sérfræðingur í að halda friðinn til að eyðileggja ekki stemminguna.“

Hún segir líka kaldhæðnislegt að hugsa til þess að hann var alltaf að hóta því að hætta með henni.

„Hann átti til að segja að ég ætti bara að vera með einhverjum ógeðslega leiðinlegum Íslendingi, eins og það væru verstu örlög í heimi miðað við það ævintýri sem lífið væri með honum. Hann reyndi líka markvisst að koma því inn hjá mér að það væri enginn maður í heiminum betri fyrir mig en hann. Hann skildi mig svo vel og þekkti mig svo vel og ekkert par hefði farið í gegn um jafnmarga hluti og við. Hann leit þannig á að við værum komin á eitthvað hástig sambanda – einhvers konar para-Nirvana. Hann bjó til skrýtna „við á móti heiminum“-stemmningu sem varð hluti af einangruninni.“

Stundum horfði María á konur sem áttu indæla og venjulega menn sem voru góðir vinir þeirra.

„Þær gátu kannski sagt, „ég er að fara í vinnuferð í næstu viku“ og þeir sögðu bara já og góða ferð. Ég man eftir að hafa öfundað þær af því að vera svona sterkar og þora að segja eitthvað á þessa leið við mennina sína. Á sama tíma taldi ég mér trú um að lífið þeirra væri rosalega leiðinlegt og óspennandi miðað við okkar. Við vorum flakkandi um eins og sígaunar og vorum alltaf í voðalegu stuði og óvissu. Hitt liðið var bara að hlusta á Rúv og sjóða fisk á meðan við fluttum kannski einn daginn til Parísar.“

Aukinn þroski og styrkur

18 ár eru langur tími, sérstaklega ef maður finnur sig í aðstæðum þar sem ótti takmarkar frelsið.

„Hægt og bítandi byrjaði ég að öðlast aukinn þroska og styrk. Það tók tíma því alltaf þegar ég var farin að styrkjast félagslega, eignast vini eða ganga vel í skóla eða vinnu, fórum við burtu og á nýjan stað. Ég var þannig slitin í burtu úr aðstæðum sem hefðu leyft mér eðlilega tengslamyndun við fólk. Ég vissi alltaf á einhverjum litlum stað inni í mér hvað þetta var mikið bull. En ég vissi líka að ég mundi ekki komast upp með að spyrja hann út í hluti sem greinilega voru út í hött – það hefði bara sprungið framan í mig.“

Fyrir þolanda í aðstæðum sem þessum er tilhugsunin um að komast í burtu mjög ógnvekjandi, segir María.

„Ég upplifði mig inni í þeytivindu þar sem ekkert var rökrétt, og ég var stöðugt að reyna að búa til rökrétt samhengi hlutanna út á við. Maður verður góður í því. En svo er svo undarlegt að labba út úr þeytivindunni. Einangrunin er svo mikil og maður upplifir að maður hljóti að standa einn í heiminum – sé búinn að hrekja alla í burtu. Á ákveðinn hátt hefur maður gert það því að einangrunin er lykilatriði til að ofbeldismaðurinn haldi valdinu. Þolandinn verður svo lasinn og tekur þátt í því. Það er ógnvekjandi að ganga út úr þessu og horfast í augu við fólk sem þú ert búin að ljúga að og reyna að blekkja svo árum skiptir. Fólk sem þú hefur tekið þátt í að hrekja burtu og útmála sem óvini, algörlega að ósekju.“

Maríu finnst mikilvægt að þolendur fái að heyra að það er hægt að losna.

„Það var svo stórkostlegt að koma út og finna að allir voru bara góðir. Fólk var ekki búið að snúa baki við mér – það beið eftir mér. Margir gerðu sér grein fyrir hvað var í gangi, en fundu líka að þeir gátu ekkert gert. Lífið þarf líka að halda áfram. Ég áttaði mig ekki á hvað fólk var búið að sjá mikið í gegnum þetta – en það þurfti bara að bíða eftir því að ég væri tilbúin að stíga út.“

Hvað er hægt að gera?

Flestir hafa á einhverjum tímapunkti vitað um manneskju í ofbeldissambandi. Ráðaleysið er mikið, og eins og María bendir á er oft lítið hægt að gera fyrr en þolandinn er tilbúinn að stíga út.
„Kannski væri hægt að nota þetta viðtal til að sýna viðkomandi og láta vita að þú vitir og skiljir og sért til staðar til að taka í hönd manneskjunnar til að styðja hana út úr sambandinu. Ég veit svo sem ekki endilega hvað er til ráða en það hjálpaði mér mikið þegar bestu vinkonur mínar og systir mín gáfust upp á að kóa og létu mig eiginlega bara vita að þær væru hættar með honum fyrir mína hönd. Þá fannst mér ég verða að velja hvort ég vildi hann eða allan heiminn. Ég valdi allt hitt.“ segir María og brosir.

„Mig langar líka að koma með nokkra punkta til þeirra sem eru í álíka sambandi og ég var eða eiga einhvern nákominn í þeirri stöðu“ segir hún. Það er að sjálfsögðu auðsótt.

Frá Maríu:

„Við erum fullt af fólki til staðar sem skiljum þig. Þú ert ekki ein.

Ef þú veist ekki hvert þú átt að fara skaltu hafa samband við Kvennaathvarfið og fá ráðgjöf.

Og aldrei hætta að tala saman. Það er sterkasta vopn ofbeldismanna að fólk tali ekki saman og samtalið er okkar sterkasta vopn gegn þeim. Þessvegna eru þeir alltaf að mála hina sem vonda og geðveika.

Fyrrverandi makar viðkomandi og þeir sem hafa ljóta sögu að segja eru málaðir sem djöfullinn sjálfur svo við forðumst þau og vantreystum.

Svo hræra þeir í hausnum á þér þangað til þú ferð að trúa að þú sért vandinn eða sú vonda og/eða sú eina sem virkilega skilur hann eða hann sá eini sem getur umborið alla þína galla. Þetta er allt bull og þvæla.

Ekki leyfa honum að skilgreina þig fyrir þig eða segja þér hvað allir aðrir eru að hugsa.

Þú getur tekið af honum valdið. Ef þú ert hrædd við hann fáðu styrk frá öðrum. Talaðu við fólk. Sem flesta. Þú hefur ekkert að skammast þín fyrir. Við getum allar lent í svona rugli. Þetta hefur ekkert með gáfur eða styrk að gera.
Eins og ein besta vinkona mín sem ég ýtti frá mér í 11 ár út af þesum manni en fékk svo strax aftur inn í líf mitt sagði:

„sambönd eiga að vera meira skemmtileg en erfið“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Pressan
Fyrir 13 klukkutímum

Heimilislausi maðurinn átti sér leyndarmál í geymslunni

Heimilislausi maðurinn átti sér leyndarmál í geymslunni
Eyjan
Fyrir 16 klukkutímum

Sjálfstæðisflokkur mælist með 16% fylgi í nýrri könnun frá Gallup

Sjálfstæðisflokkur mælist með 16% fylgi í nýrri könnun frá Gallup
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Horfðu á nýjan þátt af Íþróttavikunni – Landsleikirnir gerðir upp og Adam Páls í beinni frá Ítalíu

Horfðu á nýjan þátt af Íþróttavikunni – Landsleikirnir gerðir upp og Adam Páls í beinni frá Ítalíu
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Er að fá verulega launahækkun hjá Arsenal

Er að fá verulega launahækkun hjá Arsenal
Fókus
Fyrir 18 klukkutímum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina