Að undanförnu hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum um dreifingu nektarmynda og kynferðislegs efnis sem tekið er í óþökk þeirra sem þar sjást. Rætt hefur verið um hver beri ábyrgð á dreifingu og við hverja skuli sakast.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti eftirfarandi skilaboð á facebook-síðu sinni í dag:
Lögreglu berast reglulega tilkynningar um fólk sem er að dreifa nektarmyndum af öðrum, jafnvel barnungu fólki, á netinu. Skemmst er frá því að segja að dreifing slíkra mynda getur varðað við lög, auk þess að vera gróft brot á rétti okkar allra til friðhelgi. Þau sem hafa slíkar myndir undir höndum gera rétt með því að eyða þeim strax.
Netsiðir eru mannasiðir á netinu og rétt eins og óformlegar siðareglur gilda í daglegu lífi segja óformlegar siðareglur til um hvernig fólki ber að haga sér í netmiðlum. Þessar reglur snúast meðal annars um kurteisi, virðingu, umburðarlyndi, ábyrgð og gott og rétt mál. Einelti er einnig orðið algengt á netinu og mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir að einelti er ofbeldi sem getur haft alvarlega afleiðingar í för með sér. Hvorki fullorðnir né börn eiga að lesa einkasamskipti annarra, setja meiðandi myndir eða texta um aðra á netið eða nota efni sem ekki má afrita.