fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025

Bryndís segist ekki vera sú eina sem varð fyrir ofbeldi – „Ég veit hvernig er að vera í þessari stöðu í klóm hans“

Ritstjórn Bleikt
Sunnudaginn 5. mars 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bryndís Ásmundsdóttir leik- og söngkona bjó um þriggja ára skeið við andlegt og líkamlegt ofbeldi. Hún ákvað að stíga fram og segja sögu sína – og hefur gert það í fyrirlestrum, uppistandi og leikverki. Frásöginin er hluti af hennar eigin bata og heilun.

Fyrri hluta viðtalsins við Bryndísi má lesa hér.

Ástin ólýsanleg í upphafi

Lífið hélt áfram hjá ofbeldismanninum og eftir að sambandi hans og Bryndísar lauk hefur hann verið í nokkrum löngum samböndum – og það voru líka konur á undan henni – og þær verða kannski fleiri. Hvernig hugsar Bryndís til þessarra kvenna?

„Ég finn til með þeim og vona að einhver tali við þær. Hann er auðvitað búinn að undirbúa jarðveginn vel og segja öllum að ég sé geðveik. Ég veit hvernig er að vera í þessari stöðu í klóm hans – heilinn fer í pásu og skynsemin í frí. Ég ætlaði mér svo sannarlega að vera konan sem væri almennileg fyrir hann – því allar hinar höfðu verið ómögulegar. Eflaust hugsa þær þannig líka – enda er hann dásamlegur í upphafi sambands. Ástin er ólýsanleg, þú ert eina konan sem hefur verið góð við hann, eina konan sem getur gert hann hamingjusaman, allar aðrar konur hafa svikið hann og logið upp á hann, þú átt allt það góða í heiminum skilið, hann ætlar að elska þig og bera þig á höndum sér. Loforðin eru gríðarleg. Ef einhver reynir að sannfæra þig um að forða þér úr svona aðstæðum er kannski ofureðlilegt að hlusta ekki og loka á vinkonur sem tala illa um þennan dásamlega mann. Auðvitað veitir hann hvatningu alla leið, því það er mikilvægt fyrir ofbeldismanninn að einangra þolandann og rjúfa tengslanetið hans á sem flestum stöðum. Þetta er flókið, því allar þessar konur eru gáfaðar og klárar. Ég held að það mundi litlu skipta þó að hann hefði hlotið dóma fyrir heimilisofbeldi – afneitunin er svo sterk, já og vissan um að þú sért konan sem mun breyta honum.“

Hún segir skömmina líka leynast þarna. „Hún snýst ekki bara um það sem þolandinn lætur eða lét yfir sig ganga. Hugsaðu þér að komast út úr þessum aðstæðum og líta til baka á allt ruglið sem þú trúðir, hvernig þú hættir að hlusta á þitt eigið innsæi, góðu vinina sem reyndu kannski að rétta hjálparhönd og þú lokaðir á, og hvernig ákvörðun þín um að dvelja um kyrrt hafði kannski hræðileg áhrif á fólk í kringum þig – börn og aðra.“

Var allslaus en komst burtu

Bryndís segist tvisvar hafa reynt að flýja sambandið áður en henni tókst að komast burtu.

„Ég þurfti að búa til aðstæður til að hann trylltist og henti mér út sjálfur. Þannig gerði ég það. Í tvö fyrstu skiptinn náði hann mér aftur með fagurgala og samviskubiti – og reyndar óttanum. Í fyrsta skiptið var ég svo logandi hrædd. Þá beið hann eftir mér í runna fyrir utan staðinn þar sem ég gisti, komst inn til mín og tók mig hálstaki. Það gerði mér erfitt fyrir að hann var búinn að taka allt af mér og ég átti ekki neitt. Hann skammtaði mér peninga á viku, ég mátti ekki koma fram og skemmta fólki, ég var atvinnulaus og allslaus.“

Þeir sem þekkja Bryndísi vita að hún er langt frá því að vera lítil mús – hún er sterkbyggð kona, bein í baki og segir skoðun sína á hlutunum. „Í sambandinu minnkaði ég. Hann hefur stundum sagt að ég hafi beitt hann andlegu ofbeldi líka og það getur vel verið. Ég stóð ekki bara kyrr og leyfði honum að slá mig, berja og rakka mig niður – eðlilega reyndi ég að verja mig. Ég man eftir að hafa ýtt honum einu sinni frá mér af alefli, já og bankað í bringuna á honum þegar hann tók mig hálstaki. Auðvitað eru tvær hliðar á málinu.“

„Hann varð að fá nóg af mér“

Síðasta hálmstráið var sem sagt að pirra ofbeldismanninn það mikið að hann tæki sjálfur ákvörðun um að enda sambandið.

„Hann varð að fá nóg af mér. Ég gerði þetta með því að tuða endalaust, hætta að ganga frá eftir matinn og vera ömurleg húsmóðir. Þessir litlu hlutir gerðu hann brjálaðan. Í lokin var ég farin að sækja AA og Al-Anon fundi og styrkjast örlítið – hann þoldi það ekki. Hann henti mér að lokum út. Ég var eignalaus, atvinnulaus og allslaus með 3000 krónur í veskinu – samt fann ég fyrir létti og gleði. Fyrst um sinn gisti ég hjá vinafólki, en smám saman gat ég byggt líf mitt upp að nýju.“

Ofbeldismaður Bryndísar sætti sig illa við þetta. Hann reyndi að fá hana til baka, en þegar það gekk ekki tóku ofsóknir við. „Hann hringdi stöðugt, keyrði fram hjá heimili mínu, sendi sms og önnur skilaboð með hótunum. Hugmyndaflugið er mikið.“

Hafði fordóma gegn Stígamótum

Bryndís er mjög skýr í afstöðu sinni um að ofbeldi skuli talað í hel.

„Maður á að segja frá og maður á að segja eitthvað ef maður horfir á manneskju sem er við það að ganga inn í ofbeldissamband. Það eru til staðir ef þú treystir þér ekki til að tala við vinkonur. Þú getur áttað þig á eftir sautján ára hjónaband að þú þurfir að koma þér út úr ofbeldissambandi og þá getur verið flókið að leita til vina eða fjölskyldumeðlima. Stígamót eru einn þeirra staða sem hægt er að leita til. Ég man eftir fyrstu viðbrögðum mínum þegar mér var bent á að leita þangað. Glætan! Hugsaði ég. Það væri nú fyrir neðan mína virðingu. Ég var með svo mikla fordóma og fannst það ekki mér samboðið. Þegar örvæntingin óx ákvað ég að prófa – það var síðasta hálmstráið og ég sé sannarlega ekki eftir þeim degi þegar ég heimsótti Stígamót í fyrsta skipti. Eftir á að hyggja hefði þetta átt að vera það fyrsta sem ég gerði eftir að ég komst út úr sambandinu.“

Bryndís vonar að saga hennar hjálpi einhverjum þarna úti. „Ef við höldum áfram að þegja og samþykkja þá heldur ofbeldið áfram. Segjum frekar frá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Þetta á ekki að setja í airfryer

Þetta á ekki að setja í airfryer
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Byrjunarlið Fulham og Manchester United – Hojlund byrjar

Byrjunarlið Fulham og Manchester United – Hojlund byrjar
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Þorbjörg minnir á margföldun sekta fyrir vopnaburð – Hvetur fólk til að ræða unga fólkið

Þorbjörg minnir á margföldun sekta fyrir vopnaburð – Hvetur fólk til að ræða unga fólkið
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Þetta eru þeir áfangastaðir sem fólk vill helst heimsækja

Þetta eru þeir áfangastaðir sem fólk vill helst heimsækja
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Bandaríkjamenn hneykslaðir eftir þessa myndbirtingu – ,,Er þetta tré?“

Bandaríkjamenn hneykslaðir eftir þessa myndbirtingu – ,,Er þetta tré?“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Vonar að hann yfirgefi Liverpool í janúar – ,,Verður að spila fleiri mínútur“

Vonar að hann yfirgefi Liverpool í janúar – ,,Verður að spila fleiri mínútur“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.