Við fáum aldrei nóg af því að fjalla um Friends. Alveg eins og fjöldi fólks fær aldrei nóg af því að horfa á þættina. En sama hversu oft maður horfir þá tekur maður aldrei eftir öllu. Margoft hafa komið upp samsæriskenningar um þættina, fólk hefur bent á mistök sem enginn hafði tekið eftir áður, en hér ætlum við að skoða nokkra stórfurðulega hluti sem við tókum aldrei eftir á meðan við horfðum á þættina. BuzzFeed tók atriðin saman.
Kökudiskurinn á kaffihúsinu Central Perk er til þess gerður að geyma girnilegt bakkelsi sem er á boðstólum. En eitt skipti var þar kartafla til sýnis. Af hverju? Það veit enginn.
Í þáttunum var ekki minnst á hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana í New York þann 11. september 2001. Hins vegar vottuðu þeir lögregluþjónum og slökkviliðsfólki virðingu með því að koma skammstöfununum FDNY og NYPD fyrir í mörgum þáttum.
Þið munið skápinn hennar Monicu, þar sem allt var í drasli. Í þættinum The One With the Jam má hæglega sá einhvern ganga um inni í skápnum – sem verður að segjast afskaplega dularfullt. Kannski hafði Joey rétt fyrir sér og hún var að geyma Richard þarna inni!
Í einu atriði sést aukaleikari í bakgrunni sem óhætt er að segja að oftúlki það sem hún á að vera að gera. Er hún að tyggja kaffið sitt? Hvað er þetta?!
And the award for best „Friends“ extra goes to woman who sips coffee then chews it. pic.twitter.com/LQtycvoS9w
— Nick Turner (@NicksTurners) July 6, 2016
Þegar Joey fékk hlutverk sem afturendinn á Al Pacino þótti hann „leika“ of mikið með rasskinnunum. Leikstjórinn og framleiðendur fylgdust úrillir með Joey klúðra atriðinu. En á bakvið þá má sjá kassa merktan Monicu. Kannski er þetta bara einhver önnur Monica…
Estelle, umboðsmaður Joey, virðist hafa átt tvíburasystur. Ef ekki starfaði hún sem hjúkrunarfræðingur í leyni. Hún var viðstödd fæðingu Ben, frumburðar Ross.
Nafnið er Green, Rachel Green. Hins vegar má stundum sjá það skrifað með einu auka „e“-i í þáttunum. Til dæmis stílar Ross boðskortið í brúðkaup hans og Emily á Ms. Rachel Greene. Hvað á það eiginlega að þýða?
Þegar Monica er að opna brúðkaupsgjafirnar (án Chandler, skamm!) má sjá stóra innpakkaða gjöf á gólfinu. Í næsta ramma er skyndilega búið að taka pappírinn utan af henni. Í þar næsta ramma er hún aftur innpökkuð.
Monica vann um hríð á veitingahúsi þar sem hún var skylduð til þess að vera á hjólaskautum. Hún var dálítið völt fæti og átti það til að detta. Til þess að leikkonan myndi ekki slasa sig var lögð dýna á gólfið – gallinn er sá að í einu atriði sést þessi dýna.
Munið þið þegar Julia Roberts rændi fötunum hans Chandlers og skildi hann eftir á salerni veitingahúss í kvenmannsnærbuxum? Ef við lítum aftur á atriðið og fylgjumst vel með má sjá að hann er klæddur í boxer-nærbuxur.
Á brúðkaupsdag Monicu og Chandlers er Joey heldur undarlega til fara enda kom hann beint úr tökum á stríðsmynd. Maður hefði hins vegar búist við því að brúðhjónin myndu skarta öllu sínu fínasta pússi, en í atriðinu þar sem Monica snýr sér við til að fá hringana frá Rachel, sést að hún er í inniskóm.
„Blöðrurnar“ í steggjapartýi Ross virðast vera uppblásnir smokkar. Það er svo sem alveg eðlilegt þema í steggjun en við þorum að veðja að þú hafir aldrei tekið eftir því.
Þegar Rachel réttir fram vegabréfið sitt á flugvellinum má sjá að þar er mynd af einhverri allt annarri konu. Veit hún ekki að vegabréfsfölsun er glæpur?