Ný auglýsing spænsku fataverslunarinnar Zöru hefur farið öfugt ofan í marga. Skilaboðin eru einföld og hvetjandi en virðast ekki hafa síast almennilega inn hjá stjórnendum, markaðs- og auglýsingadeild fyrirtækisins. Yfirskriftin er Love your curves sem er bæði vinsælt og jákvætt orðatiltæki. Þegar litið er á myndina sem fylgir textanum fara málin hins vegar að flækjast.
Love your curves snýst um það að hvetja konur með meira hold á beinunum til þess að fanga sínum mjúku línum. Ljósmyndin sem fylgir skilaboðunum sýnir hins vegar tvær tágrannar ungar stúlkur.
Það er ekki erfitt að sjá vankanta á auglýsingunni enda miðlar hún skilaboðum um fjölbreytni og ást á eign líkama án þess sýna þessa fjölbreytni. Fyrirsæturnar eru í besta falli týpískar fyrir tískufataauglýsingar. Þótt að líkamsvirðing og sjálfsást eigi auðvitað við um alla líkama er óhætt að segja að Zara sé komin á hálan ís með því að tala um „curves“ í þessu tilfelli.
Auglýsingin er algjörlega á skjön við ákall samfélagsins um fjölbreytni í vali á fyrirsætum; hins vegar hefur með ágætum tekist að stela skilaboðunum og yfirfæra þau yfir á hið viðtekna. Auglýsingarnar hafa dúkkað upp í verslunum Zöru víða um heim en fyrirtækið hefur ekki tjáð sig um málið enn sem komið er.