Í dag bárust þær stórfréttir frá Borgarleikhúsinu og Páli Óskari Hjálmtýssyni að söngvarinn hyggðist snúa aftur sem hinn lostafulli Dr. Frank-N-Furter í uppsetningu leikhússins á Rocky Horror. Frumsýning er fyrirhuguð í mars á næsta ári.
Palli fór síðast í hlutverk doktorsins árið 1991 þegar Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð setti verkið upp í Iðnó. Leikstjóri var Kolbrún Halldórsdóttir.
Páll Óskar mætti í viðtal í Popplandi á Rás 2 laust fyrir hádegið í dag og spjallaði um verkefnið.
Hann segist mjög spenntur fyrir hlutverkinu enn heil 27 ár eru síðan hann hitti Frank-N-Furter síðast. Hann efast ekki um að verkið tali inn í samfélag okkar í dag.
„Það sem gerir mig spenntan fyrir þessu hlutverki er að meðan valdamestu menn heims eru að ala á ótta gagnvart minnihlutahópum þá á Rocky Horror erindi. Sýningin er allt um lykjandi verk sem býður utangarðsfólkið svo hjartanlega velkomið. Verkið fyrir mér gengur út á þegar fríkin feisa kassalaga fólkið.“
Komum aðeins inn í tímavélina sem kölluð er Youtube og sjáum Pál Óskar í gervi Franks í þættinum Á tali hjá Hemma Gunn. Hér flytur hann lagið Taumlaus transi: