„Kæru skjólstæðingar velferðarsviðs Reykjavíkur!
Vinsamlega hættið að hringja í mig, bögga mig og hóta mér.“
Danskennarinn og fjöllistakonan Margrét Erla Maack segir farir sínar ekki alls kostar sléttar í stöðuuppfærslu á facebook í dag, sem hefst með ofangreindum orðum.
Margrét heldur áfram og útskýrir að Pétur A. Maack, sem starfar fyrir velferðarsvið Reykjavíkur sé ekki pabbi hennar, heldur nokkuð fjarskyldur frændi.
„Ég skil ekkert um hvað málið snýst, og faðir minn, Pjetur Þ. Maack, enskukennari í Kópavogi, áhugaveiðimaður og íhlaupaprestur, getur mjög lítið hjálpað. Ég mun því ekki láta ykkur í té heimanúmerið hans. Pétur A. Maack er í símaskránni.“
Margrét segist ekki hafa hitt fjarskylda frændann Pétur A. Maack síðan í fimmtugsafmælinu hans sem haldið var í Kópavogi.
„Það var hestur í veislunni og mér fannst það æði.
Símanúmerið mitt virðist vera að ganga á milli fólks sem á virkilega bágt. Búin að fá, tjah, nokkur símtöl um meintan föður minn, flest nokkuð dónaleg. „Hann er víst pabbi þinn. HANN ER BARA Í FELUM.““ segir Margrét að lokum.