Rauði sófinn er nýr sjónvarpsþáttur sem hefur göngu sína á ÍNN í kvöld. Stjórnandi þáttarins er engin önnur en ykkar einlæg – hin annars prýðilega Bleika Ragga Eiríks.
Hér er örlítið viðtal sem kollegar mínir á DV tóku við mig í tilefni fyrsta þáttarins sem verður frumsýndur í kvöld kl. 21.30 á ÍNN en eftir það verður að sjálfsögðu hægt að nálgast hann hér á Bleikt eða á heimasíðu ÍNN.
Kynþokki í dansi og stefnumótaforritið Tinder eru á dagskrá þáttarins Rauði sófinn, sem hefur göngu sína á sjónvarpsstöðinni ÍNN í kvöld. Í þáttunum tekur Ragnheiður Eiríksdóttir, Ragga Eiríks, á móti góðum gestum í rauðan plusssófa. Umfjöllunarefnið er viðfangsefni sem þáttastjórnandi, menntaður hjúkrunarfræðingur og aðstoðarritstjóri bleikt.is, þekkir vel; kynlíf.
„Allir elska kynlíf, og kynlíf verður efst á baugi í rauða sófanum,“ segir Ragga í samtali við DV. „Reyndar mun ég fjalla um ýmislegt sem tengist kynlífi, og ef vel er að gáð tengist hér um bil allt kynlífi. Ég gæti í það minnsta fundið leiðir til að tengja flest við það,“ segir hún.
En hvers vegna rauður sófi? Ragga á ekki í vandræðum með að útskýra það. „Sófar eru mjúkir og æðislegir, og ef þeir eru rauðir og úr plussi minna þeir jafnvel á mjúkar varir eða jafnvel skapabarma. Stemningin í þættinum verður mjúk og opin og ég mun bjóða fjölbreyttum og fróðum viðmælendum í sófann.“
Í fyrsta þættinum eru tvö mál á dagskrá, kynþokki í dansi og stefnumótaforritið Tinder. „Það var erfitt að velja því ég er með óralangan lista af dásamlegum viðmælendum í sófann. Ég ákvað að bjóða Margréti Erlu Maack og Þorvarði Pálssyni í fyrsta þáttinn. Við Margrét munum ræða um kynþokka í dansi og æfa nokkrar þokkafullar hreyfingar með strútsfjaðrir okkur til hjálpar, svo kíkir Þorvarður til mín og miðlar af sinni víðtæku reynslu á notkun Tinder.“
Ragga lofar hispurslausri stemningu í rauða sófanum en fyrsti þátturinn fer í loftið í kvöld, föstudaginn 24. febrúar, klukkan 21.30, á ÍNN. Eftir frumsýningu verður hægt að horfa á Rauða sófann á www.inntv.is og á www.bleikt.is.