„Rannsóknir sýna að kynlíf er gott fyrir heilsuna,“ segir Per-Erik Muskos, bæjarfulltrúi í Övertorneå í norðurhluta Svíþjóðar. Svíar hafa þótt standa framarlega á merinni þegar kemur að réttindum launafólks en nú vill Per ganga skrefinu lengra og heimila vinnandi fólki að fara heim í klukkutíma á dag og stunda kynlíf með maka sínum – og það á launum.
Per-Erik lagði þetta til á fundi bæjarstjórnar á dögunum og í rökstuðningi sínum sagði hann að pör nú til dags eyddu of litlum tíma saman. Hraðinn í þjóðfélaginu sé mikill og pör hafi oft minni tíma en oft áður. „Þetta snýst um að styrkja sambönd,“ segir Per við AFP-fréttaveituna.
Eðli málsins samkvæmt yrði erfitt fyrir vinnuveitendur að sannreyna það að fólk myndi eyða tíma sínum á þann hátt sem ætlað er. Per segir að vinnuveitendur þyrftu einfaldlega að treysta starfsmönnum sínum og starfsmenn sömuleiðis að sýna heiðarleika og nota hléið í það sem til er ætlast.
Málið hefur vakið talsverða athygli og í umfjöllun breska blaðsins Independent er vísað í rannsókn National Sleep Foundation í Bandaríkjum. Í henni kom fram að fjórðungur hjóna í Bandaríkjunum finni svo oft fyrir þreytu á kvöldin að þau velja frekar að leggjast til svefns en stunda kynlíf. Þá er vísað í niðurstöður annarrar rannsóknar sem bentu til þess að sumir eigi það til að vinna svo mikið að þeir missa allan áhuga á kynlífi.
Sjálfur segir Per að ekkert mæli gegn því að þessi hugmynd verði að veruleika.
Birtist fyrst á DV.is