Bráðum fer af stað þrettánda þáttaröðin af raunveruleikaþáttunum Keeping Up With The Kardashians. Í þætti tvö er fjallað um ránið á Kim Kardashian West í París en Kris móðir hennar sagði frá þessu í viðtali hjá Ellen DeGeneres. Þar játaði Kris að hún klökknaði í hvert skipti sem hún hugsaði um þetta hræðilega atvik.
Eftir að Kim var komin aftur til Bandaríkjana byrjaði hún að segja fjölskyldu sinni frá ráninu í smáatriðum og var auðvitað ákveðið að taka allt saman upp. „Við erum byrjuð að sjá eitthvað af efninu sem kom út úr þessum dögum og… Enginn getur komist í gegnum fyrstu fimm mínúturnar án þess að komast í uppnám,“ sagði Kris um upptökurnar fyrir þáttinn. „Ég hágrét þegar ég horfði á þetta. Ég sá hluta, ég gat ekki einu sinni horft á þetta allt.“
Kris segir að það hafi verið mjög gott fyrir Kim að ræða þessa lífsreynslu með þessum hætti. Hún hafi ákveðið að hafa þetta með í þættinum því þetta gæti hjálpað öðrum og vakið fólk til umhugsunar. „Þetta breytti því hvernig við lifum okkar lífi og hvernig við hugsum um börnin okkar og barnabörnin mín.“