Hlaupastingur er sár, stingandi verkur neðst í brjóstkassa sem kemur fram við áreynslu, helst hlaup og einnig sund. Verkurinn er oftast hægra megin. Ástæður hlaupstings eru ekki þekktar en margar kenningar hafa veið settar fram og rannsakaðar án þess að óyggjandi niðurstöður hafi fengist. Helstu kenningarnar eru tengdar matarræði fyrir hlaup og þindinni.
Neysla á mat, sérstaklega trefjaríkum eða fituríkum, stuttu fyrir áreynslu virðist ýta undir hlaupasting. Eins er neysla á kolvetnaríkjum drykkjum eða súrum drykkjum eins og ávaxtadjús tengd hlaupasting.
Skortur á steinefnum eins og magnesium og calsium hefur einnig verið tengt hlaupasting.
Þindin er vöðvi sem liggur undir lungum milli brjósthols og kviðarhols. Þindarvöðvinn stjórnar að mestu önduninni með að dragast saman og slaka á víxl og þenja um leið út eða draga saman lungun. Eins og aðrir vöðvar geta komið krampar í hann við ofreynslu samanber sinadráttur í kálfa.
Vinsæl kenning er að hlaupastingur komi fram eftir tog og núning á liðbönd milli þindarvöðvans og líffæra í kviðarholi og þá einkum lifur. Rannsóknir sýna að fleiri anda út þegar vinstri fótur lendir á undirlagi. Hlaupastingur virðist koma oftar hjá þeim sem anda út þegar hægri fótur lendir á undirlaginu. Lifrin liggur hægra megin í kviðarholi,rétt undir þindinni. Þegar hægri fóturinn lendir á jörðinni um leið og andað er út kemur þrýstingurinn upp í hægra kviðarhol og lifrina en um leið er þindin að dragast upp við útöndun og tog verður á liðböndum. Kenningin er að þetta endurtekna tog valdi krampa í þindarvöðva og hlaupasting. Eins hefur verið sett fram að of hröð grunn öndun geti valdið hlaupasting. Mjög hröð öndun veldur óeðlilega mikilli áreynslu á þindina með stöðugum samdrætti vöðvans sem um leið dregur úr blóðflæði og súrefnisflutning til þindarinnar. Einnig ef öndun er of grunn, sem verður stundum þegar þreytan sækir á, verður súrefnisupptakan ekki nægileg til að uppfylla þarfir vöðvanna og þ.a.m. þindarvöðvans.
Þar sem orsakir hlaupastings geta verið mismunandi og eins og áður er sagt ekki í raun þekktar er ekki nein ein meðferð til en ýmis ráð eru uppi og hafa sum þeirra reynst ágætlega.
Styrkja kviðvöðva og þindarvöðva með æfingum t.d planka.
Ekki borða 2 tímum fyrir æfingar. Trefja- og fituríkur matur meltist hægar og því ber að forðast að borða slíkan mat tveimur tímum fyrir æfingu. Forðast sykraða og súra drykki fyrir æfingu.
Upphitun – skyndilegt álag þegar hlaupið er hratt af stað veldur oft óreglu á öndun sem getur leitt til hlaupastings. Byrjið á amk tveggja mínútna upphitun með röskri göngu áður en hlaupið er af stað.
Djúp öndun – með djúpri og taktfastri öndun eykst súrefnisupptaka og flæði súrefnis til vöðvana og þ.á.m. þindarvöðvans. Það hjálpar sumum að telja öndunin með taktinum 3:2. Anda inn á þremur og út á tveimur.
Annað ráð er að lyfta handleggjum yfir höfuð, draga djúpt inn andann og þenja vel út kviðinn. Anda síðan frá sér að fullu, tæma lungu og spenna kviðvöðva um leið