Margir feður eiga erfitt með að gera hárgreiðslur í hár dætra sinna. Ástæðan er oft sú að þeir hafa verið sjálfir með stutt hár allt sitt líf og ekki vanir að flétta hár, greiða úr flækjum og búa til fallega snúða. Phil Morgese hefur verið einstæður faðir síðan dóttir hans var aðeins ársgömul. Hann hefur því lært mikið í hárgreiðslu og kennir nú öðrum feðrum að greiða hár stúlkna. Hann segir að föðurhlutverkið hafi breyst mikið og ættu feður því að geta átt þessar gæðastundir með dætrum sínum. Phil hefur kennt nokkur hundruð feðrum og sýnir hann tækni sína á hári Emmu dóttur sinnar. Þetta myndband hefur slegið í gegn síðan það birtist á Facebook og hafa meira en 30 milljónir horft á það.