Ég er móðir unglingsstúlku sem glímir við andlegt mein. Stríðið við að halda henni á lífi er töff. Það hefur staðið yfir í tæp tvö ár núna. Sumar baráttur hafa unnist og aðrar ekki en stríðinu er ekki lokið. En ég finn samt að ég er að gefast upp. Þrek mitt til að berjast er búið.
Það er nefnilega þannig að meðan ég barðist fyrir barnið mitt, við það sjálft, þá læddist aftan að mér tilfinning sem nagaði sig hægt og rólega inn í sálina mína. Tilfinningin um að þetta sé einhvern veginn mér sjálfri að kenna. Að ég sé ekki nóg eða jafnvel of mikið. Ekki nógu góð/of góð, vond/of vond, næm/of næm, fjarlæg/of fjarlæg, dugleg/of dugleg, löt/of löt, hörð/of hörð, lin/of lin. Sjálfsefi er til margs nýtilegur en þessi tilfinning er af allt öðrum toga, miklu miskunnarlausari. Hún smitar út frá sér í allt.
Ég hætti smám saman að ræða þessi mál við vinina eða fjölskyldumeðlimi því þetta var alltaf sama vælið í mér og engin lausn til. Ég er farin að tala í frösum og klisjum þegar ég er spurð frétta, bara til að losna við umræðuna.
Námið, sem kostaði mig hálfa milljón, er fyrir bí. Að ná tökum á athyglisbresti og prófkvíða auk þess að hafa þessa „vinkonu“ klórandi í hnakkann á mér allan tímann var bara of mikið. Og fallið efldi hana bara, ef eitthvað.
Hjónabandið er nálægt upplausn. Ég veit að hann meinar ekki það sem ég heyri en tilfinningin yfirgnæfir allt. Hann vill reyna að tækla allt með skynseminni og rökhugsuninni en ég er bara orðin svo þreytt að ég nenni því ekki. Ég sé alveg sársaukann í augunum á honum en það styrkir hana bara enn meir.
Kannski eru þetta genin? Ég strögglaði á mínum unglingsárum líka og ein langamma mín gekk í sjóinn þegar hún gat ekki meir. Það gæti verið útskýringin. Arfgengt í kvenlegg? Eða kannski ójafnvægi í hormónabúskap líkamans? Það gerist víst á unglingsárunum að efnaskiptin breytast. Eða kannski er þetta vegna aukins álags á krakka í dag vegna samfélagsmiðlanna? Eða kannski eru allir hinir krakkarnir bara vondi karlinn í þessu?
Mér finnst það samt ekki lengur skipta máli hvaðan þetta andlega mein kemur eða hvers vegna. Því það er alveg sama hvað rökræna „vinkil“ við tökum á þessu þá er litla stelpan mín í darraðardansi við sína eigin djöfla og þeir hlusta ekki á rök eða skynsemi. Ég er búin að reyna allt og er að þrotum komin. Hef ekki orku í neitt lengur, eða löngun. Mig langar ekki að trúa því eina ferðina enn að þetta sé að lagast, bara til að koma enn einu sinni niður á sjúkrahús þar sem er verið að hlúa að henni eftir enn eina tilraunina. En ég hef heldur ekki þrek í að vera viðbúin alveg þangað til að það gerist. Og það er hræðilegt þegar móðirin sjálf, fullorðni einstaklingurinn í þessari hringiðu gefst upp. En það er það sem er að gerast. Ég hef áður haldið að ég sé að gefast upp en núna veit ég það.
Ég er orðin gjörsamlega dofin, ég finn ekki fyrir neinu. Ég veit að þetta ástand ætti að hræða mig en það gerir það ekki. Meira að segja minn eiginn djöfull, sem hefur fylgt mér síðan ég sjálf var barn, er horfinn. Kvíðinn minn er horfinn því mér er orðið alveg sama. Rafhlaðan er að klárast…