Japanskir vísindamenn hafa nýlega gefið út rannsókn sem varpar ljósi á gáfnafar katta. Því hefur oft verið haldið fram að hundar séu gáfaðri dýr en rannsóknin, sem kannaði sérstaklega minni katta, sýndi fram á að kettir komu jafn vel út úr þessum minnisprófunum og hundar. Þetta bendir til þess að þeir gætu verið jafn gáfaðir og besti vinur mannsins. BBC greinir frá.
Tæplega fimmtíu heimiliskettir voru fengnir til þátttöku í rannsókninni sem leiddi í ljós að kettir geta rifjað upp persónulegar minningar um einstök atvik. Þau tengjast m.a. stað, stund, aðstæðum og ákveðnum persónum. Hundar hafa einnig sýnt merki um að notast við slíkar minnisaðferðir. Atburðaminni beggja dýrategunda er því ekki ósvipað atburðaminni fólks.
Saho Takagi sálfræðingur við háskólann í Kyoto segir þetta merki um sérstaka meðvitund katta. Kettir lesi einnig í viðbrögð, líkamstjáningu, svipbrigði og tilfinningar fólks alveg eins og hundar.
„Áhugaverð tilgáta er að þeir kunni að njóta þess að rifja upp minningar sínar um ákveðnar upplifanir eins og fólk,“
segir hún. Rannsóknin var gefin út í tímaritinu Behavioural Processes.