Rúna Sævarsdóttir býr með manninum sínum og þremur börnum í Noregi, hún stundar fjarnám í sálfræði við Háskólann á Akureyri og er bloggari á Öskubuska.is. Hún skrifaði pistil fyrir stuttu síðan sem einskonar leiðarvísi fyrir sjálfa sig í fortíðinni.
„Þér finnst þú vera orðin svo fullorðin núna! Flutt að heiman, orðin móðir og mátt meira að segja keyra bíl! Mig langar að segja þér að þú átt langt í land ennþá mín kæra!“
Rúna bendir sjálfri sér á að bera virðingu fyrir eldra fólki en að það sé ekki einstefnugata.
„Eldri konur eiga til dæmis ekkert með að rífa upp svuntuna á barnavagninum hjá þér og spyrja þig hvort þú sért að reyna að drepa barnið úr hita eða barma sér yfir því að barnið sé of léttklætt. Ef þú getur ekki komið upp orði til að verja þig gefðu þeim þá bara fingurinn!“
„Svo er annað! Hentu helvítis viktinni út um gluggan og fáðu þér súkkulaði! Trúðu mér! Þú munt sjá eftir því þegar þú ert komin á minn aldur að hafa eytt tíma og orku í að svelta þig til að komast í gallabuxurnar sem þú klæddist áður en þú varst ólétt. Þú munt aldrei passa í þær aftur„
Einnig bendir hún sjálfri sér á það að velja sér vini vandlega.
„Líkt og með virðinguna gengur vinátta í báðar áttir. Veldu þér vini sem fylla þig af ferskum andvara með nærveru sinni (vó, bara ljóðrænt…) en soga ekki frá þér orku með einhverju leiðinda veseni.“
Að lokum biður hún sjálfa sig að varðveita vini sína og fjölskyldu vel þar sem lífið sé stutt og ekki gefist alltaf tími til að kveðja.
Pistillinn er einlægur og persónulegur. Það hefðu held ég flest allar 17 ára gamlar stelpur gott af því að fá smá ráðleggingar frá framtíðinni. Þó ekki væri nema bara smá hrós, hvating og klapp á bakið.
Hægt er að lesa pistilinn í heil sinni hér.