Ég er agaleg á morgnana. Mig langar bara að kúra í myrkrinu og halda áfram að dreyma. Eftir því sem ég eldist verður þetta verra – og á hverjum vetri þarf ég að rifja upp ráðin sem virka best.
Gjörið svo vel, hér koma Rögguráð um hressleika á morgnana!
- Farðu að sofa á sama tíma á hverju kvöldi – notaðu klukkuna á símanum til að minna þig á háttatímann.
- Búðu þér til háttarútínu – til dæmis að drekka tebolla alltaf hálftíma fyrir svefn, hreinsa andlitið og bursta tennur eða annað sem þér finnst gott að gera.
- Bannaðu raftæki önnur en ljós og kynlífsleikföng í svefnherberginu – þennan hefurðu eflaust heyrt áður. Rúmið er nefnilega bara fyrir svefn og ástarleiki.
- Sofðu í frekar köldu herbergi – bættu við náttfötum og ábreiðum í stað þess að hækka á ofninum. Best er að hafa rifu á glugga. Ferskt loft gerir kraftaverk.
- Hafðu vekjaraklukkuna langt frá rúminu – sérstaklega ef þú ert ein/n af þeim sem ýtir á „snooze“ takkann í tíma og ótíma.
- Hafðu lampa á náttborðinu – kveiktu á honum strax og klukkan hringir.
- Best er þó að vera með vekjaraklukku sem hermir eftir sólarupprás – það er mesta furða að þær séu ekki löngu orðnar að staðalbúnaði hér á landi.
- Hreyfðu líkamann strax og þú vaknar – teygðu þig, fettu og brettu. Þannig fær heilinn skilaboð um að nú skuli hressa sig og blóðflæðið fer í gang.