fbpx
Laugardagur 28.desember 2024

Reynsla Gabríelu af brjóstagjöf – „Ég bara gat ekki meir, ég náði honum ekki af brjóstinu vegna sársauka og ég bara grét“

Ritstjórn Bleikt
Miðvikudaginn 25. janúar 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á meðgöngunni og í rauninni löngu áður en ég varð ófrísk hafði ég lesið mér mikið til um brjóstagjöf og þá sérstaklega reynslusögur af brjóstagjöf. Með tímanum fannst mér farið að brjóta ísinn og skrifa um slæma reynslu af brjóstagjöf, sem er frábært og mjög gott að opna umræðuefnið. Ég, á þessum tíma, gerði mér engan veginn grein fyrir því að brjóstagjöf gæti gengið illa, ef svo má að orði komast. Ég hélt að þetta væri bara eins og í bíómyndum, þú fengið barnið í hendurnar eftir fæðingu og settir það á brjóstið og þar myndi það bara vera.

Þetta er í rauninni svona, ef allt gengur vel í fæðingunni þá færðu barnið strax í fangið og stuttu eftir þá er þér boðið að setja hann/hana strax á brjóst, ef þú vilt. Það sem ég áttaði mig ekki á er að það þarf að læra að setja barn á brjóst og það þarf svo sannarlega að venjast því. Brjóstagjöfin er í rauninni eins og meðgangan, hvort sem þú ert að ganga með fyrsta barn eða fimmta þá þarftu alltaf að „læra” aftur á brjóstagjöfina. Að sjálfsögðu hjálpar að hafa reynslu en þú ert alltaf með nýja manneskju og þið þurfið bæði að læra á hvort annað.

Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa lesið allar reynslusögurnar, sérstaklega þær slæmu, þá var ég mjög tvístígandi með þessa brjóstagjöf. Ég hafði alltaf verið frekar viðkvæm í brjóstunum og sérstaklega þegar greinar um áhrif brjóstagjöf á andlega líðan fóru að líta dagsins ljós þá varð ég mjög áhyggjufull.
Eins og ég hef áður sagt þá er ég með þunglyndi og kvíða og ég hafði miklar áhyggjur af því hvaða áhrif brjóstagjöfin myndi hafa á mína andlegu líðan. Ég hinsvegar ákvað að reyna að undirbúa mig eins og ég gat, ég hætti að lesa þessar slæmu reynslusögur því þær ýttu einungis undir kvíðann minn og fór að kynna mér þetta almennilega. Ég ákvað að fara á brjóstagjafanámskeið hjá heilsugæslunni og mæli ég með því við alla sem eiga von á barni.

Ég tók Jón Andra með mér, hann áttaði sig þó ekki alveg á tilgangnum því hann var jú ekki að fara að gefa barninu. En það var bráðnauðsynlegt að hafa hann með því eftir fæðingu erum við konurnar (og karlarnir) oft algerlega ónýt af þreytu og erum kannski ekki alveg í ástandi til að muna hvað konan á brjóstagjafanámskeiðinu sagði, þá er gott að hafa einhvern á staðnum sem fór líka á námskeiðið og getur minnt mann á hitt og þetta.

Tilgangurinn með þessari grein er alls ekki að vera slæm reynslusaga heldur einungis mín upplifun af brjóstagjöf, sem var þó ekki alslæm.
Eins og ég sagði hér að ofan þá fékk ég hann beint í fangið og stuttu seinna beint á brjóstið. Hann tók brjóstið vel og saug af krafti, mér var hrósað af ljósmæðrunum fyrir það hversu vel þetta gekk hjá mér og jók það sjálfstraustið mitt mjög. Eftir að við fórum niður á sængurgang þá lágum við Jón þar í sitthvoru rúminu og litli var í vöggu á milli okkar. Ég tók hann þó fljótlega upp í til mín þar sem ég þurfti stöðugt að vera að gefa. Ég kallaði alltaf á hjálp og fékk ég að læra hinar ýmsu brjóstagjafastöður. Í hvert sinn sem ég náði að setja hann sjálf á brjóst án aðstoðar leið mér ótrúlega vel, eins og ég hafði afrekað eitthvað mikilfenglegt. Hinsvegar í hvert sinn sem ég gat það ekki og þurfti aðstoð leið mér mjög illa, eins og ég væri slæm móðir og gæti þetta bara alls ekki. Daginn eftir var ég orðin mjög aum og grét í raun í hverri gjöf, það var ekki því strákurinn tæki brjóstið vitlaust eða því ég væri komin með sár, heldur saug hann svo kröftuglega, enda stór strákur. Ein ljósan sagði mér að þetta myndi bara venjast, ég ætti að anda mig í gegnum þetta og brjóstin myndu aðlagast á endanum. Ég var ekki alveg nógu sátt með það, því mér jú leið illa bæði andlega og líkamlega og þetta „ráð” hjálpaði mér engan veginn.

Næst kallaði ég eftir aðstoð því ég bara gat ekki meir, ég náði honum ekki af brjóstinu vegna sársauka og ég bara grét. Ljósan sem kom þá var á allt annarri skoðun, hún hjálpaði mér að taka hann af og sagði að það væri ekki eðlilegt að finna svona mikið til, ef þú finnur til fyrstu 10 sek og svo ekkert meir þá er það alveg eðlilegt en öll gjöfin á ekki að vera sársaukafull. Hún gaf stráknum ábót svo ég gæti jafnað mig og við ákváðum að prófa brjóstapumpu. Ég pumpaði mig en mér fannst það alveg jafn vont, svo það var ekki að hjálpa. Þá sendi ljósan Jón Andra út í apótek að kaupa „mexikanahatt“, sem er eins konar „hattur” sem fer á brjóstið og verndar geirvörtuna.

Eftir það varð brjóstagjöfin allt annað líf, honum gekk betur að taka brjóstið og það var alls ekki sársaukafullt. Þá fyrst byrjaði brjóstagjöfin fyrir alvöru. Strákurinn þurfti að vera mikið á brjósti til að örva mjólkurframleiðsluna og áður en ég vissi af var ég föst uppi í rúmi eða sófa með hann á öðru hvoru brjóstinu. Drengurinn var á brjóstinu allan daginn alla daga! Ég var að verða geðveik, ég svaf lítið og fannst í rauninni bara mjög óþægilegt að hafa hann þarna alltaf.
Ég fór að taka eftir því að ég vildi lítið sinna honum þegar ég var ekki með hann á mér, var ekki mikið að leika við hann eða dást að honum eins og pabbi hans gerði. Ég var mjög feimin við að gefa fyrir framan aðra en Jón og áður en ég vissi af var ég orðin mjög kvíðin.

Ég vildi ekki svara í símann því ég var hrædd um að það væri verið að biðja um að koma í heimsókn, ég vildi alls ekki fá fólk í heimsókn og ég vildi ekki fara út úr húsi vegna ótta við það að þurfa að gefa honum. Hápunktinum var náð á gamlárskvöld, en þá leið mér alls ekki vel, ég var með kökk í hálsinum allt kvöldið og vildi helst bara fara heim. Ég neyddi Jón til að fara heim strax eftir skaup og við náðum ekki einu sinni að óska gleðilegs nýs árs og þegar við komum heim á miðnætti þá gjörsamlega brotnaði ég niður. Frábær leið til að hefja nýja árið…

Ég sá fram á að þetta gæti ekki gengið svona og ég þekkti þessi gömlu þunglyndiseinkenni alltof vel. Ég ræddi þetta við heimaljósuna og við ákváðum að ég myndi pumpa mig á daginn ásamt því að gefa honum og Jón myndi svo standa vaktina á næturna og gefa honum pela. Þannig myndi ég geta sofið og gæti því tekið meðvitaðri ákvörðun um þetta. Svefnleysið var ekki að hjálpa aðstæðunum. Við prófuðum þetta en þar sem litli strákurinn okkar er frekar óþolinmóður þá var hann alltaf farinn að gráta svo sárt þegar Jón hitaði mjólkina að ég vaknaði hvort eð er.

Ég hugsaði með mér að ef þetta gengi svona áfram yrði ég lögð inn á deild vegna svefnleysis og þunglyndis. Ég hringdi eitt kvöldið í mömmu hágrátandi og hún kom strax. Hún sá og heyrði á mér að ég vildi hætta þessu, ég vildi ekki gefa brjóst lengur en þorði bara ekki að taka ákvörðunina sjálf. Ég var með gríðarlega mikið samviskubit því ég var að mjólka ágætlega og það var í raun ekkert „líkamlegt” að hjá mér. Mamma sendi Jón út í búð að kaupa þurrmjólk og við gáfum stráknum fullan skammt og það var þvílíkur munur. Þegar hann fékk brjóstið var hann alltaf uppstökkur og svaf ekki nema hálftíma hér og þar en eftir að hann fékk fullan skammt af þurrmjólk var hann svo innilega slakur og svaf í 5 klukkutíma þá nóttina. Þvílíkur léttir sem það var!

Það sem maður hafði heyrt frá öllum ljósmæðrunum var að brjóstamjólk væri best fyrir barnið. Það er algerlega satt en geðheilsa móður skiptir þó mun meira máli. Þurrmjólk er orðin það góð í dag að það breytir mjög litlu þó barnið fái ekki brjóstamjólkina. Það skiptir mun meira máli fyrir barnið að hafa móður sem er í góðu andlegu ástandi og nær að tengjast því!

Við áttuðum okkur fljótt á því, miðað við muninn á stráknum, að hann var í rauninni aldrei að fá nóg hjá mér á brjóstinu. Ég var í rauninni mjög sátt þegar ég áttaði mig á því, vegna þess að núna var ég með „afsökun” fyrir því að hafa hætt. Fyrstu dagana eftir að ég hætti sagði ég alltaf að ástæðan væri því ég mjólkaði ekki nóg. Það var jú satt, en ástæðan var því mér leið illa.


Ég ákvað að vera hreinskilin, bæði við mig og aðra, og í dag segi ég alltaf að brjóstagjöfin hafi haft slæm áhrif á andlegu líðanina mína og ég hef ekki ennþá heyrt neitt annað en jákvæð viðbrögð við ákvörðun minni. Bæði stráknum líður betur, mér líður betur og Jóni líður betur. Þetta var rétt ákvörðun hjá okkur og ég þarf ekkert að skammast mín neitt fyrir hana!

Besta ráð sem ég get gefið barnshafandi konum eða konum með barn á brjósti er í fyrsta lagi að það er ekki eðlilegt að brjóstagjöfin sé það sársaukafull að þú sitjir grátandi með barnið á brjósti og í öðru lagi að þín andlega líðan skiptir öllu, ef þú getur ekki sinnt barninu þínu (fyrir utan brjóstagjöfina) eða finnst þú ekki tengjast því þá skiptir það mun meira máli heldur en að það þurfi að fá þurrmjólk í staðinn fyrir brjóstamjólk.

Ég vona að þetta hjálpi einhverjum sem er að ganga í gegnum það sama og ég gekk í gegnum, mig langar að segja við viðkomandi að ákvörðunin er alltaf þín, þú ert sú sem ert að gefa brjóst og ekki láta neinn segja þér annað!

Ef þið viljið fylgjast betur með mér þá er instagramið mitt HÉR

Þangað til næst,
Gabriela Líf <3


Pistillinn birtist fyrst á Lady.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Fær að æfa en ekki með öðrum leikmönnum liðsins

Fær að æfa en ekki með öðrum leikmönnum liðsins
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Segir flugeldasölu til almennings ekkert annað en ofbeldi

Segir flugeldasölu til almennings ekkert annað en ofbeldi
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Aftur efnt til undirskriftasöfnunar til stuðnings Helga Magnúsi

Aftur efnt til undirskriftasöfnunar til stuðnings Helga Magnúsi
Fókus
Fyrir 9 klukkutímum

Íslenskt par í „eyðsluafvötnun“ í janúar – Fjárhagurinn betri og kynlífið reglulegra

Íslenskt par í „eyðsluafvötnun“ í janúar – Fjárhagurinn betri og kynlífið reglulegra
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Segist ekki vera heimskur og veit að gengið þarf að batna – ,,Trúi að ég sé rétti maðurinn“

Segist ekki vera heimskur og veit að gengið þarf að batna – ,,Trúi að ég sé rétti maðurinn“
Kynning
Fyrir 11 klukkutímum

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 krónur

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 krónur
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Sjáðu myndbandið: Hákon gríðarlega vinsæll á vinnustaðnum

Sjáðu myndbandið: Hákon gríðarlega vinsæll á vinnustaðnum