Fyrir stuttu átti ég gott samtal við eina vinkonu um sameiginlega reynslu af brjóstagjöf, en báðar áttum við mjög slæma reynslu af þessu tímabili. Ekki einungis vegna þess að brjóstagjöfin sjálf gekk illa heldur einnig vegna þrýstings frá utanaðkomandi aðilum um það að ef við myndum ekki „reyna betur“ þá værum við ekki að gera allt það besta fyrir barnið.
Mín reynsla af brjóstagjöf er vægast sagt ömurleg. Þegar ég átti fyrra barnið mitt tók fæðingin sjálf 28 klukkustundir, 28 mjög erfiðar klukkustundir. Þegar barnið loksins mætti í heiminn var ég búin á því líkamlega og andlega, en á bjóstið skyldi barnið og þar fékk hann að hanga næstu daga. Því ekki mátti hann missa af fyrstu dropunum sem væru það mikilvægasta fyrir hann að fá.
Ég sat með barnið í fanginu, sjúgandi á mér brjóstið allan sólarhringinn. Eftir fimm daga var mjólkin ekki enn komin og ég hafði rétt sofið í nokkrar mínútur í senn. En brjóstamjólk skyldi barnið fá og enga ábót. Það mátti nú alls ekki venja hann á pela því þá væri þessu öllu lokið.
Í sex daga skoðuninni horfði læknirinn steinhissa á okkur og spurði okkur afhverju í ósköpunum við værum ekki búin að gefa barninu þurrmjólk þar sem hann væri búin að léttast allt of mikið og var við það að fá „guluna“ vegna næringarskorts. Svarið okkar var það að ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og reyndari mæður hefðu sagt okkur að hamast við að halda honum á brjóstinu. Það væri það mikilvægasta í stöðunni. Læknirinn fussaði yfir þessum ráðum og sagði okkur að hann sjálfur hefði aldrei á ævinni drukkið svo mikið sem dropa af brjóstamjólk, væri stál hraustur og fluggáfaður.
Við fórum því í næstu búð á leið heim, keyptum þurrmjólk og pela. En þarna var búið að troða því í hausinn á mér að ég mætti ekki gefast upp. Ég grét því mikið þar sem mér fannst ég misheppnuð móðir að vera ekki komin með neina mjólk fyrir barnið mitt. Við gáfum honum mjólk að drekka fyrir svefninn og í fyrsta skiptið svaf barnið, enda loksins saddur.
Ég fékk því góðan nætursvefn og vaknaði morguninn eftir með brjóst full af mjólk!
Þarna komu nokkrir góðir dagar þar sem hann gat drukkið af brjósti og enn og aftur var okkur sagt að stoppa pelagjöfina. Sem og við gerðum samviskusamlega. Enn og aftur dettum við í sama vítahringinn. Ég framleiddi ekki nægilega mikla mjólk fyrir barnið, hann var sísvangur og sísjúgandi með litlum sem engum árangri. Þetta ástand tók virkilega mikið á sálina hjá nýbakaðri móðurinni og því eyddi ég flestum dögum grenjandi yfir því hversu hrikalega misheppnuð mamma ég væri nú!
Að lokum tók maðurinn minn framyfir hendurnar á mér og öllum þessum „ráðagóðu“ einstaklingum sem höfðu verið að skipta sér af brjóstagjöfinni okkar og sagði bara stopp, hingað og ekki lengra. Þarna tók hann mikilvæga ákvörðun fyrir mig og barnið okkar. Að brjóstagjöf yrði hætt og barnið fengi að drekka eins mikið og hann þyrfti með pelagjöf. Loksins. Loksins komst góð rútína, barnið svaf betur og þar með foreldrarnir. Hann þyngdist eðlilega og lífið fór að ganga vel.
Kæru „reynslu meiri mæður“, ljósmæður og hjúkrunarfræðingar. Ekki setja pressu á nýbakaðar mæður um það hvernig þær eigi að haga sinni brjóstagjöf eða sjá um sitt barn. Þær eru mæðurnar, þær vita best.
Hugsum um hagsmuni okkar eigin barna og gefum aðeins ráð sé þeirra óskað.
Sumar mæður geta haft barn á brjósti, aðrar geta það einfaldlega ekki. Sumar mæður kjósa það að hafa barnið ekki á brjósti og er það einfaldlega þeirra ákvörðun. Ekki þín. Þær þurfa ekki að gera grein fyrir því og afsaka sig í sífellu.
Með kveðju frá tveggja pelabarna mömmunni.
Fylgdu mér á snapchat: anitaeh