fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024

Meira en klæðskiptingur – Tekur kvenhormón en er kannski ekki trans – „Ef maður bælir tilfinningar skekkist allt í lífinu“

Ritstjórn Bleikt
Mánudaginn 23. janúar 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við hittumst á kaffihúsi, ég og María sæta – eða það skulum vð kalla hana. . Þeir sem ganga fram hjá okkur þar sem við sitjum og sötrum kaffi sjá þó líklega ekki annað en blaðakonuna og karl á miðjum aldri í flíspeysu með gleraugu í djúpum samræðum. María er nefnilega aukasjálf karlsins í flíspeysunni, eða kannski hans raunverulega sjálf.

„Fyrir mig er þetta miklu meira en fetish. Ég er búin að vera að klæða mig upp frá því að ég man eftir mér. Um tvítugt hætti ég því alveg því heimurinn var einfaldlega of lítill og ég þekkti engan annan sem gerði þetta, nema einn samkynhneigðan mann sem dressaði sig í laumi.“ María segir að það hafi verið ruglandi að vera ekki samkynhneigður. „Ég prófaði það, en var aldrei neitt skotinn í strákum, svo það gekk ekki upp.“

Faldi sig í 20 ár

María tók 20 ára pásu og einbeitti sér að því að vera „eðlilegur“ karlmaður, stofnaði fjölskyldu og gerð það sem samfélagið ætlaðist til – en svo kom internetið til sögunnar. „Þá fór ég að tengjast og kynnast öðru fólki sem stundaði þetta í gegnum síður og samfélög á netinu. Ég faldi þetta auðvitað fyrir eiginkonunni og fjölskyldunni og leitaði mér hjálpar hjá sálfræðingi, því leyndarmálið var orðið að stóru vandamáli. Eftir mörg viðtöl var niðurstaðan sú að þetta væri fetish, og hann var á því að ég gæti bara ákveðið að hætta þessu.“ Þessu var María alls ekki sammála, fyrir henni er þetta miklu meira en fetish, þó svo að hún upplifi sig ekki sem trans konu.

Fyrir rúmu ári breyttist svo allt. Áður höfðu íslensk lög um trans fólk krafist þess að einstaklingar lifðu opinberlega í nýja kyninu í ár, áður en hormónameðferð gæti hafist, nú þarf það ekki lengur.

„Þetta breytti öllu fyrir mig og marga aðra. Ég vissi að ég væri meira en klæðskiptingur, að ég væri nær því að vera kona – án þess þó að ég vildi gangast undir fullt kynleiðréttingarferli. Ég fór til sálfræðings sem er í transteyminu á LSH og hún var sammála mér um að hjá mér væri þetta miklu meira en fetish. Hún ráðlagði mér að hafa þetta eins og ég vildi. Ef ég vildi hormónameðferð skyldi hún mæla með því að nefndin samþykkti það.“

María ákvað að fikra sig í átt að meiri kvenleika með því að prófa hormónameðferð og er búin að vera á henni síðan í maí í fyrra. „Ég hefði ekki getað gert þetta fyrir lagabreytinguna – samþykki þá hefði þýtt greining á geðsjúkdómi og það hefði valdið mér atvinnumissi.“ Já einmitt, þar til fyrir ári var svokallaður „kynáttunarvandi“, forsendan fyrir hormónameðferð sem var þá hluti leiðréttingarferlis, skilgreindur sem geðsjúkdómur. María vinnur nefnilega í stétt sem leyfir ekki slíkt.

„Þegar ég klæði mig upp vil ég fara alla leið, vera mjög kvenleg, elegant og flott. Þess vegna finnst mér ég vera meira en klæðskiptingur eða karlmaður með fetish fyrir kvenfötum. Ef þú hugsar þetta sem skala, þar sem fetish fyrir að klæða sig í kvenföt er öðrum megin, og það að vera trans hinum megin, er ég sennilega í miðjunni. Þetta er ekki annað hvort eða.“

Brjóst og breytt fitudreifing

Hormónunum fylgja alls kyns líkamlegar breytingar sem ég bið Maríu að lýsa fyrir mér. „Hárvöxturinn minnkar og hárin mýkjast, húðin verður mýkri, brjóstin stækka og verða aum, og fitudreifingin á líkamanum breytist. Ég hef alltaf verið mikill að ofan, en grannur að neðan. Núna er þetta að jafnast og buxur að þrengjast yfir mjaðmir og læri án þess að ég sé að þyngjast.“ María upplifir mikla ánægju af þessum breytingum á líkamanum, en hún er bæði á kvenhormónum og lyfjum sem hemja framleiðslu testósteróns.

„Eistun eiga líklega eftir að minnka, en fyrir mig er þessi minnkun á testósteróni bara jákvæð. Ég var kannski nálægt því að vera kynlífsfíkill á tímabili, svo þetta er fínt núna. Skammtarnir sem ég er á eru mjög litlir miðað við þær sem fara alla leið í leiðréttingu. Einn fylgigiskurinn getur verið þunglyndi og skapbreytingar en ég hef ekki fundið fyrir því.“

María segir að áður en lagabreyting átti sér stað hafi verið hægt að fá öll þessi lyf á svörtum markaði. „Maður veit samt aldrei hvað raunverulega er í ólöglegum lyfjum. Kannski minnkar notkun þeirra núna.“ Enn sem komið er eru allar þær breytingar sem María talar um afturkræfar. „Ég ætla að prófa ár, og tek svo ákvörðun um framhaldið þegar þangað er komið.“

Hjónabandið dýrmætt

María á konu, og konan fékk að vita allan sannleikann fyrir fjórum árum og þær komust að samkomulagi.

„Ef ég færi alla leið í kynleiðréttingu mundum við sennilega slíta sambúðinni. Við viljum það hvorugt. Börnin okkar vita ekki af þessu, og ekki aðrir í fjölskyldunni. Eftir 30 ár er samband okkar djúpt og gott og okkur líður mjög vel saman. Við ákváðum að vera áfram hjón og eiga áfram okkar góða líf, en ég fengi að eiga þetta sem hliðarlíf. Ég hitti annað fólk – en aðallega fyrir félagsskap, sáralítið fyrir kynlíf. Fyrir mig virkar þetta fyrirkomulag – enda er það sem ég hef í hendi tryggt og óvissan hinum megin of mikil ef ég kæmi út með þetta allt.“

Eiginkonan hefur ekki hitt Maríu fulldressaða, þó hefur það gerst við „viss skilyrði þegar rómantíkin tekur völd“ að henni finnist þetta heitt, og þá hefur María kannski klæðst kvennærfötum.

Hliðarlíf Maríu snýst ekki um djamm. „Ég treysti mér lítið til að fara út opinberlega í dressi, hvað þá á djammið,“ segir María. Hún tilheyrir hópi á Facebook sem samanstendur af klæðskiptingum, trans konum og aðdáendum þeirra.

„Hópurinn hefur skipulagt hittinga í heimahúsum, og jafnvel sumarbústaðaferðir. Virknin kemur eiginlega í gusum og er miklu meiri á veturna. Við erum dálítið eins og blóðsugur, myrkrið er vinur okkar. Samt er alltaf að aukast að maður sjái dressara á kaffihúsum eða öðrum opinberum stöðum. Mig langar að gera það meira, það kemur kannski.“

Í hópnum eru margir á Maríu reki. „Þetta eru einstaklingar af minni kynslóð sem eiga svipaða sögu og ég. Fundu fyrir því að vera öðruvísi á tímum sem þetta var algjört tabú. Það var algengt að klæðskiptingar eða trans konur veldu sér mjög karlmannleg störf til að reyna að fara eins langt í hina áttina og kostur var. Þeir fóru á sjó, eða í lögguna. Sálfræðingurinn minn segir að það hafi verið mjög dæmigert og hluti af afneituninni.“

Bældar tilfinningar

María væri alveg til í að vera 15 ára í dag. „Heimurinn er allt öðruvísi og fólk er umburðarlyndara og betur upplýst.“ Ég spyr Maríu hvað hún mundi segja ef hún fengi að hitta sjálfa sig 15 ára. Hún hugsar sig um í kannski 5 sekúndur. „Komdu út! Haltu áfram því sem þú ert að gera. Ef maður bælir tilfinningar eða langanir skekkist allt í lífinu. Það lærist að bæla og halda því áfram. Svo kynnistu makanum þínum og gengur inn í samband með hluta af þér bældan. Hvað gerist svo þegar þú getur ekki bælt lengur – ertu þá sama manneskjan og maki þinn giftist?“
María segir eiginkonuna líka hafa verið bælda, bara á annan hátt.

„Kannski náðum við saman út af því. Það er svo margt gott í okkar sambandi og út á við erum við algjör fyrirmyndarhjón. Það eru ekki margir stórárekstrar okkar á milli en sambúð er alltaf málamiðlun. Eins og ríkisstjórn tveggja flokka sem þarf að miðla málum á hverju ári.“

María er ekki búin að ákveða hversu langt hún ætlar að ganga í ferlinu, hvort hún ætlar að hefja líf sem kona einn daginn. „Ég er hamingjusamari í dag en fyrir nokkrum árum. En ég hugsa oft um hvort ég komi að einhverjum punkti þar sem ég vil stoppa. Það er ekki til ein pilla við öllu – en ég hef alltaf þetta val, að hætta að taka lyfin og fara til baka. Ég þarf að finna út hvað ég vil raunverulega fyrir framtíðina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Arsenal á eftir einni af hetjum Spánar

Arsenal á eftir einni af hetjum Spánar
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Nokkuð stórt gjaldþrot hjá fyrrverandi eiganda Mathúss Garðabæjar

Nokkuð stórt gjaldþrot hjá fyrrverandi eiganda Mathúss Garðabæjar
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Fatnaður fegurðardrottningar falur

Fatnaður fegurðardrottningar falur
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Segir frá atviki sem ekki sást í sjónvarpinu – Bellingham sturlaðist og sagði þetta við Southgate

Segir frá atviki sem ekki sást í sjónvarpinu – Bellingham sturlaðist og sagði þetta við Southgate
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Klóra sér í kollinum yfir árásarmanni Trump – Hvers vegna reyndi hann að myrða forsetaframbjóðandann?

Klóra sér í kollinum yfir árásarmanni Trump – Hvers vegna reyndi hann að myrða forsetaframbjóðandann?
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Sorglegur endir Messi og fótboltans á Spáni

Sorglegur endir Messi og fótboltans á Spáni

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.