Michelle McGagh var komin með nóg af því að eyða peningunum sínum í allskonar óþarfa. Fyrir rúmu ári brá hún því á það ráð að framkvæma tilraun; hún ákvað að verja heilu ári í að kaupa aðeins það sem hún þurfti á að halda og óhætt er að segja að Michelle hafi lært heilan helling af þessari tilraun sinni.
Michelle, sem er búsett í London, segist hafa eytt um 10 þúsund pundum, eða um einni og hálfri milljón króna, á ári í það sem hún kallar óþarfa; á hún þá við mat og drykki á veitingastöðum, almenningssamgöngur og dýrar snyrtivörur sem dæmi.
Með því að hjóla hvert sem hún fór, eða því sem næst, og skera niður í útgjöldum á veitingastöðum tókst henni að ná þessum 10 þúsund pundum á ári niður í 846 pund, rúmar 100 þúsund krónur. Og á þessu eina ári sem tilraunin stóð yfir tókst Michelle og eiginmanni hennar að spara 3,2 milljónir króna. Michelle segist við Mail Online ekki vera óhamingjusamari fyrir vikið, þvert á móti sé hún hamingjusamari og heilsuhraustari.
Michelle hefur skrifað bók, The No Spend Year: How I spent less and lived more, um þessa tilraun sína og það þarf ekki að koma á óvart að hún hvetur aðra til að feta í sín fótspor – þó það hljómi erfitt, að skera niður í útgjöldum á jafn róttækan hátt og hún gerði, sé það auðveldara en það hljómar. Michelle segir að hún hafi í raun haft um tvennt að velja; halda lífsstíl sínum áfram og eiga engan pening eða gera breytingar. Hún valdi seinni kostinn.
„Ég áttaði mig á því að það voru hlutirnir sem áttu mig – ég átti þá ekki,“ segir hún. Hún og eiginmaður hennar hafa verið áhugamenn um minimalískan lífsstíl um nokkurt skeið og hafa þau nú selt eða gefið stóran hluta af eigum sínum. Þau ákváðu að hefja tilraun sína á Black Friday árið 2015, daginn sem fjölmargar verslanir um heim allan bjóða viðskiptavinum sínum veglega afslætti. Reglurnar voru þannig að hún og eiginmaður hennar skiptu með sér föstum mánaðarlegum útgjöldum, svo sem afborgunum af íbúðarláni, interneti, síma og tryggingum, en mánaðarleg útgjöld fyrir allt þetta voru um 260 þúsund krónur. Allt annað, fyrir utan mat og aðrar nauðsynjar, svo sem salernispappír og tannkrem, máttu þau ekki kaupa. Þá máttu þau ekki fara í ferðalög og ekki þiggja gjafir frá vinum og vandamönnum meðan að á tilrauninni stóð. Er þá átt við mat og drykki á veitingastöðum meðal annars.
Eins og fyrr segir tókst þeim hjónunum að spara rúmar þrjár milljónir króna. Michelle viðurkennir að til að byrja með hafi tilraunin verið erfið; breytingarnar höfðu veruleg áhrif á félagslíf hennar og skyndilega þurfti hún að hætta að fara út með vinkonum og vinum. Þetta vandist þó fljótt og þó að tilrauninni sé nú lokið ætla hún og eiginmaður hennar að halda í þau grunngildi sem lagt var upp með í byrjun.
„Það er dásamleg tilfinning að þurfa ekki að fylgja þessari gegndarlausu neysluhyggju. Ekki nóg með það heldur hef ég miklu meiri tíma fyrir sjálfa mig, til að gera hluti sem auðga líf mitt.“
Birtist fyrst á DV.is