Allflestir lenda í áföllum. Áföll og sorg eru hluti af lífinu. Flest þurfum við einhvern tíma á ævinni að glíma við sorgina t.a.m. þegar einhver okkur nákominn veikist eða deyr, ef hjónaband leysist upp, ef ástvinur missir vinnuna eða ef fjölskyldumeðlimur verður fyrir árás eða ofbeldi.
Það er einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við áföllum eða sorg. Aldur syrgjanda, lífsreynsla og tengsl við þann sem féll frá skiptir þar mestu máli. Oft fer fólk sem syrgir í gegnum tímabil þar sem það er ófært um að beita heilbrigðri skynsemi. Margir sem glíma við sorg þurfa aðstoðar við. „Tíminn læknar öll sár“ segir máltækið og víst er að flestir ná sér með tímanum.
Mikill harmur eða slys hefur oft á tíðum miklar breytingar í för með sér fyrir einstakling og/eða alla fjölskylduna. Tilveran verður í sumum tilfellum ekki söm aftur. Á meðan sumum gengur vel að takast á við sorgina eru aðrir sem einangra sig, verða þunglyndir og hræddir. Verstu tilfelli leiða til langvarandi veikinda og erfiðleika við áframhaldandi þátttöku í lífinu.
Mikilvægt er að hafa einhvern til að deila sorginni með. Gott er að leita til góðra vina, fjölskyldumeðlima, vinnufélaga eða til þeirra sem þú treystir. Prestar sinna sálgæslu og einnig er hægt að leita heimilislæknis, sálfræðings, hjúkrunarfræðings eða annarra fagaðila.
Fólk sem syrgir þarf að hafa hlýja öxl til að halla sér að og gráta. Grátur er heilnæmur vegna þess að hann léttir á spennu í líkamanum og losar um óttann sem oft fylgir. Mikilvægt er að eiga athvarf þar sem syrgjandinn mætir skilningi. Örvænting, sektarkennd, reiði, og jafnvel hefndarhugur leitar oftar en ekki á þá sem glíma við sorg. Því er nauðsynlegt að hafa einhvern að leita til, manneskju sem hlustar og spyr spurninga, auk þess að hugga. Ósjaldan gengur fólk í gegnum langt og erfitt tímabil. Á meðan erfiðasta tímabilið gengur yfir getur verið erfitt að stunda vinnu en engu að síður getur verið gott að hafa eitthvað fast í lífinu og ákveðna rútínu. Nauðsynlegt getur þó reynst í sumum tilfellum að fá frí frá vinnu á sama tíma og fólk vinnur sig út úr þungum harmi eða erfiðleikum.
Ef þú færð ekki nauðsynlega aðstoð getur verið að þú eigir enn erfiðara með að takast á við næstu raunir lífins. Ef þér finnst þú hafa staðnað sem kemur oft fram í vaxandi eirðarleysi, ótta eða innri ólgu skaltu leita aðstoðar læknis, sálfræðings eða annarra fagaðila.
Það er gott að minnast þess af og til að það er ekkert óeðlilegt að vera leiður. Ef við lendum í erfiðleikum er í raun hollara að vera sorgmæddur, en að láta sem ekkert sé. Við erum alin upp við viðhorf í þjóðfélagi okkar þar sem best er að „harka af sér, þetta verður allt í lagi, þú þarft bara að koma þér af stað, þá gleymist þetta…“ Því þarf kjark til að þora að sýna tilfinningar, að gráta og ekki síst að biðja um aðstoð. Þegar við glímum við sorgina er það styrkleikamerki að þora að sýna mannlega veikleika!