Það kannast flestir við einhvern sem deilir glansmyndum úr lífi sínu daginn út og inn á samfélagsmiðlum. Sumir þekkja pör sem eru sífellt brosandi saman á ljósmyndum, heima í stofu, úti að borða, eða hvar sem er – alltaf glöð og alltaf er gaman. Á bakvið þessar myndir leynist þó oftar en ekki mikið óöryggi sem gæti haft ýmislegt að segja um sambandið.
Kynfræðingurinn Nikki Goldstein segir í samtali við Daily Mail að of margar myndir af þessum toga gætu verið merki um bresti í sambandinu. „Oft er það fólkið sem deilir mestu sem er að leita að viðurkenningu fyrir sambandinu frá öðru fólki á samfélagsmiðlum,“ segir hún.
Nikki útskýrir að „like“ og athugasemdir fólks geti verið hughreystandi en sækist fólk eftir þeim í sífellu sé líklegt að sambandið sé ekki upp á sitt besta. Fólk sem deilir þessu myndum finnur ekki ánægju í því sem það er að gera á myndunum, eða með manneskjunni sem er með þeim á myndunum, heldur viðbrögðum annarra við þessum myndum.
Það þykir því ekki væn leið til þess að rækta sambandið að sá rómantískum glansmyndum á samfélagsmiðlum. Lausnin er klárlega ekki fólgin í yfirborðskenndum viðbrögðum annarra á Facebook.