Cara Brookins hefur ekki átt auðvelt líf og hefur þurft að glíma við erfiðar og hættulegar aðstæður með börnin sín fjögur. Fyrsta hjónabandið hennar endaði því eiginmaður hennar var með geðklofa og haldinn ofsóknaræði. Hún ákvað að skilja við hann til að vernda börnin því heimilisaðstæðurnar voru orðnar mjög hættulegar. Síðan kynntist hún öðrum manni sem var sterkur og lét henni líða eins og hún væri örugg. Nema sá maður var ekki allur eins og hann var séður.
Þegar það byrjaði að líða á sambandið fór hann að beita hana andlegu og líkamlegu ofbeldi. Cara ákvað að það væri kominn tími til að byrja aftur upp á nýtt. Hún ætlaði að finna nýtt heimili fyrir sig og börnin sín, en þá voru þau 17, 15 og 11 ára og sá yngsti var 18 mánaða gamall. Cara hafði í engin hús að venda og hafði aðeins efni á íbúð þar sem öll börnin þurftu að deila einu herbergi, tvö elstu börnin voru ekki spennt fyrir því. Þegar Cara og börnin hennar keyrðu framhjá húsi sem hafði skemmst mikið í hvirfilbyl sá hún grunnbyggingu hússins.
„Það er ekki mikið þarna, þetta lítur ekki svo flókið út,“
man hún eftir að hafa hugsað. Í viðtali við TheBlaze sagði Cara að byggja húsið frá grunni væri einskonar táknmynd fyrir hana þar sem hún væri líka að byggja líf sitt aftur upp frá grunni. Hún ákvað þar með að slá til, fór í bankann og fékk lán til að kaupa byggingarefni og land.
Öll börnin voru spennt, sérstaklega spennt fyrir því að þurfa ekki að deila herbergi. Þau hjálpuðu móður sinni að byggja húsið og skiptust á að passa yngsta barnið. Á hverju kvöldi leitaði Cara leiðbeininga á Google og skoðaði myndbönd á YouTube um hvernig hún ætti að framkvæma verkefni næsta dags. Þetta var árið 2008 og á þeim tíma átti hún ekki snjallsíma heldur gamlan síma án internets og þurfti þess vegna að byggja út frá minni.
„Þetta snerist mikið um að spyrja spurninga, vera hógvær og vera tilbúin að líta út eins og bjáni. En þegar þú ert komin svona langt niður, hversu mikið neðar geturu í raun farið? Að vera komin svona langt niður gerir mann óttalausan, hverju hefur maður að tapa?“
Þetta stóra verkefni var ekki auðvelt, sérstaklega fyrir fjölskyldu með marga brotna einstaklinga. Cara rifjar upp þegar hún sneri baki í börnin sín til að þurrka tárin svo þau myndu ekki sjá hana gráta.
„Að sjá öll börnin horfa upp til mín með þessi stóru augu og brotnu hjörtu þá hugsaði ég að ég þyrfti að ná að gera þetta.“
Fyrir utan rafmagn og pípulagnir þá byggði fjölskyldan húsið, sem þau búa enn í átta árum síðar, alveg sjálf. Cara skrifaði bók um reynsluna sína, Rise, How A House Built a Family, sem kemur út 24. janúar. Hún vonar að bókin geti hjálpað þeim sem eru í svipaðri stöðu og hún var í og verði þeim ákveðin hvatning.
„Þetta varð leið fyrir mig til að eigna mér mína sögu,“
sagði Cara. Hún var einnig með ráð til þeirra sem eru í ofbeldisfullu sambandi.
„Fólki er sagt að taka lítil skref. Ef þú tekur bara lítil skref þá er það eina sem þú afrekar. Settu þér klikkað og stórt markmið, gerðu eitthvað sem lítur út fyrir að vera ómögulegt og það mun breyta því hvernig þú horfir á þig sjálfa. Fyrir okkur var það að byggja hús.“