Kjúklingur í rjómalakkríssósu hljómar eins og eitthvað sem þig dreymdi – já eða mig, því mig dreymir fárálega mikið og flippað.
Þessi hugmynd hafði mallað í höfði mínu um skeið – líklega var fyrsta fræinu sáð þegar ég smakkaði lakkríssaltið frá Saltverki í fyrsta sinn. Lakkrís er góður – þar af leiðandi verður vel flest betra sem maður saltar með lakkríssalti.
2 kjúklingabringur
1 stór rauðlaukur smátt skorinn
3 hvítlauksrif
Nokkrir sveppir smátt skornir
Væn lúka af cashew hnetum
Olía/smjör til steikingar
¼ L rjómi
Lakkríssalt frá Saltverki
Lakkrísduft
Svartur pipar
Steikið saman hnetur, lauk og hvítlauk á miðlungsháum hita þar til mýkist, bætið sveppum við undir lokin – ég notaði smjör, en það má vel nota olíu til að steikja upp úr. Leggið til hliðar á disk. Hækkið hitann og steikið kjúklingabringur á báðum hliðum þar til þær brúnast dálítið. Lækkið hitann aftur, bætið lauk, hnetum og sveppum aftur út á pönnuna. Kryddið með pipar, lakkríssalti og lakkrísdufti – ég notaði sirka 3 tsk lakkríssalt, sama magn af lakkrísdufti og allnokkra snúninga úr piparkvörninni. Þetta er að sjálfsögðu smekksatriði og ég hvet ykkur til að smakka og sjá til. Hellið rjóma út á pönnuna, skellið lokinu yfir og látið malla í um 15 mínútur eða þar til kjúllinn er eldaður í gegn.
Borið fram með CousCous, smátt skornum tómötum og fetaosti.