Tinna er þriggja ára gömul tík. Hún er meðalstór smáhundur, svört með dálítð hvítt á bringunni. Tinna er bún að vera týnd síðan 29. desember og hafa eigendur hennar heitið ríkulegum fundarlaunum þeim sem finnur Tinnu.
Á gamlársdag ætluðu Andrea Björnsdóttir og Ágúst Ævar Guðbjörnsson að sækja hundinn sinn hana Tinnu í pössun til konu í Keflavík. Þau höfðu komist í samband við konuna í gegnum hundapössunarhóp á facebook. „Konan sagðist vera með tvo aðra litla hunda í pössun og að auki ætti hún sjálf hund. Þetta hljómaði allt svo vel,“ segir Andrea í samtali við Bleikt.
„Við vildum að hún yrði með okkur á gamlárskvöld því hún er svo ofboðslega hrædd við flugelda.“ Áfallið var því mikið þegar Andrea og Ágúst gripu í tómt á Hólabrautinni í Keflavík. Tinna var horfin og hafði verið týnd í einn og hálfan sólarhring. „Það var svakalegt að fá þessar fréttir, og ég skil ekki hvers vegna konan lét okkur ekki vita, og lét allan þennan tíma líða áður en byrjað var að leita að henni.“
Andrea og Ágúst búa í Reykjavík og Tinna hafði því týnst í umhverfi sem var henni algjörlega ókunnugt. Það var að sögn Andreu mikið áhyggjuefni en þau byrjuðu strax að leita. „Við vorum í öngum okkar en þegar sprengingarnar byrjuðu um kvöldið fannst okkur líklegast að hún mundi hlaupa út úr bænum.
Það er auðheyrt að álagið á Andreu hefur verið mikið þegar blaðakona Bleikt ræðir við hana í síma, en þau Ágúst hafa leitað að Tinnu nánast sleitulaust síðan á gamlárskvöld, og margir hafa lagt þeim lið.
„Þetta er búið að vera versta reynsla lífs míns. Þvílík pína að vera að leita í kuldanum og reyna allt sem við höfum getað, líka um nætur því það er líklegt að þá fari hún á stjá. Ég er alveg úrvinda, enda örugglega búin að labba mörghundruð kílómetra þessa daga, og komin með hálsbólgu og kvef.“
Andrea og Ágúst reka saman auglýsingastofuna 23, en Tinna hefur verið daglega með þeim í vinnunni síðan hún kom inn í líf þeirra fyrir þremur árum. „Ég átti að vera í vinnu þessa dagana, en ég hef bara ekki getað labbað þangað inn án þess að brotna saman, því við erum vön að vera þar þrjú saman.“
Þó að langur tími sé liðinn er Andrea ennþá vongóð um að Tinna finnist heil á húfi. „Hún er svo ótrúlega sterkur karakter, og hefur verið mjög háð og náin okkur. Er eiginlega eins og barnið okkar. Ef hú finnst ekki hugsa ég að ég eigi aldrei eftir að hætta að leita.“
Andrea segir að fólk hafi verið duglegt við að stappa í þau stálinu.
„Það hjálpar til að halda voninni lifandi. Fólk hringir og segir okkur sögur af hundum sem hafa týnst í skelfilegum aðstæðum og svo fundist að lokum. Hundar eru mög úrræðagóðir og yfirleitt finna þeir skjól. Reyndar var ég að horfa út um gluggann rétt í þessu og fékk sting í magann þegar ég sá bylinn- vitandi af henni þarna úti. Ég vona að hún sé í byggð þar sem auðveldara er að finna skjól.“
Tvær vísbendingar hafa borist um svartan lausan hund í Hafnarfirði, þó nokkuð óskýrar að sögn Andreu. Hún ráðleggur fólki sem telur sig verða vart við Tinnu að hringa strax í hana eða Ágúst. „Við mundum þá koma undir eins á staðinn og reyna að kalla á hana.“ Tinna getur verið feimin við fólk en er líkleg til að vera forvitin um aðra hunda. „Ef einhver kemst í návígi við hana er best að prófa að fara niður á hnén og tala blíðlega við hana. Svo væri frábært að taka mynd til að við getum staðfest að þetta sé hún ef grunur leikur á.“