Þegar Austin Shifflett var sautján ára vó hann tæp 150 kíló. Þar sem hann var of þungur var hann auðvelt skotmark stríðnispúka sem gerðu lítið úr honum við hvert tilefni. Hann skrópaði í skólann og eyddi frítíma sínum inni í herbergi þar sem hann spilaði tölvuleiki og borðaði óhollan mat.
Í dag er staðan hjá Austin allt önnur og betri. Hann ákvað að taka sig rækilega á og hann sér ekki eftir því í dag. „Það er alveg ótrúleg tilfinning að ná árangri,“ segir Austin en á þessum fimm árum sem liðin eru hefur hann lést um 70 kíló. Er hann nú tæplega helmingi léttari en hann var þegar hann var þyngstur.
Austin heldur úti Instagram-síðu sem fer ört vaxandi í vinsældum þar sem hann deilir góðum ráðum með fylgjendum sínum, enda ætti hann að vita hvað þarf til að ná árangri. Í umfjöllun á vefnum Viraltread um þennan magnaða árangur segir Austin að það sem hvatti hann áfram hafi verið fólkið sem efaðist um að hann næði árangri þegar hann ákvað að byrja að taka sig á.
Það kostar blóð, svita og tár að ná árangri og það er ekki síður erfitt að viðhalda honum. Austin kveðst hugsa vel um mataræði sitt, hann borðar tiltölulega kolvetnasnauðan mat auk þess sem hann stundar líkamsrækt nokkrum sinnum í viku. Hann segir að nýr og betri lífsstíll hafi hjálpað honum á svo marga vegu.
„Þetta gjörbreytti lífi mínu. Ég var mjög feiminn áður fyrr en núna er ég opnari og miklu sjálfsöruggari,“
segir hann og bætir við að þetta hafi einnig hjálpað honum í samskiptum við stelpur. Austin segir að ferðalag sitt sé aðeins að byrja, næst á dagskrá sé að læra íþrótta- og þjálfunarfræði svo hann geti komið boðskapnum til sem flestra.
Birtist fyrst á DV.is