fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Ferðaráð DV: Liverpool – Er hinn fullkomni helgarferðaráfangastaður fundinn?

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 20. október 2022 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafnarborgin Liverpool er nýjasti viðbótin í sístækkandi flóru beina-flugs-borga okkar Íslendinga. Play hóf flug þangað fyrr í mánuðinum og virðist leggurinn fara vel af stað hjá flugfélaginu. Á síðustu tveimur vikum hefur Play svo tilkynnt að þeir hyggjast fljúga til Porto og Aþenu, og er það í fyrsta sinn sem Íslendingar geta notið beins áætlunarflugs til Grikklands.

Með breska pundið í ræsinu þökk sé ævintýralegs klaufaskaps arftaka Churchills og Thatcher í Íhaldsflokknum er þó vel þess virði að skoða betur möguleika Íslendinga á ferðalögum til Bretlandseyja um þessar mundir.

Múrsteinsborgin með Marshall magnarann

Liverpool er að mörgu leyti borg andstæðnanna. Iðnaðarborg sem byggðist upp og efnaðist að miklu leyti á þrælasölu til nýlendanna vestanhafs varð síðar vagga friðarhreyfingarinnar í Evrópu og miðstöð popp og rokk menningar í Englandi. Bítlaborgin er svo sem ekki eina borgin í Evrópu til þess að kasta af sér blæ rauðra múrsteina í skiptum fyrir Marshall magnarann, en henni virðist takast alveg sérstaklega vel til við það. Aðeins dögum eftir að Play hóf flug þangað tilkynntu svo bresk Júróvisjónyfirvöld að næsta keppni yrði haldin í Liverpool, en Bretlandi var falið að halda keppnina fyrir hönd Úkraínumanna og þannig engin hætta að tónlistarbragur borgarinnar afmáist á næstu misserum.

Saga borgarinnar er svo gerð upp á einkar smekklegan og snyrtilegan hátt í fjölmörgum söfnum hennar, sem flest bjóða gestum inn án endurgjalds. Einu söfnin og staðirnir sem vert er að heimsækja og krefjast endurgjalds eru Bítlasafnið og The Cavern, pöbbinn þar sem Bítlarnir hófu sinn feril af alvöru. Pöbbinn rukkar gesti sína fimm pund til þess að líta við og skoða sig um sem er vel þess virði. Fimm pund eru í dag um 800 krónur, en forsætisráðherra Breta er nú í fullri vinnu við að lækka það enn frekar fyrir okkur.

Ekki bara boltinn

Liverpool og Manchester, sem Íslendingar þekkja vel, haldast í hendur. Sú síðarnefnda er stóri systirin í austri og á milli er aðeins um 45 mínútna akstur í leigubíl. Það þýðir að innan klukkutíma akstursfjarlægðar frá John Lennon flugvelli eru heimavellir Manchester United, Manchester City, Liverpool og Everton. Svo eru lestarsamgöngur þokkalegar þarna um England og vel hægt að lengja dagferðaradíusinn til Leeds, öllum fjórum meðlimum Leeds klúbbsins á Íslandi til ómældrar ánægju. 

Liverpool hefur það fram yfir Manchester, aðrar stærri borgir og sérstaklega London, einn vinsælasta áfangastað Bretlands meðal Íslendinga, að hún er smá. Smá borg en enginn smábær, og miklu meira en bara boltaborg. Hún hefur allt það sem allflestir Íslendingar sækja í. Helstu verslanirnar, sögu, fjölbreytta flóru veitingastaða og öflugt og vel nært skemmtanalíf.

Helgarferðarborgin uppmáluð

Tekið saman er Liverpool hin fullkomna helgarferðarborg. Hvort sem það er til að slappa af, klára jólainnkaupin, borða góðan mat, hengja myndavélina utaná sig og túristast eða bland af þessu öllu.

Samkvæmt mjög óvísindalegri tímamælingu blaðamanns liðu aðeins 32 mínútur frá því að hurð á hótelherbergi var lokað og þar til hann var mættur í röðina á John Lennon flugvellinum úti. Sömu sögu var að segja af ferðalaginu frá flugvellinum, sem er lítill og auðveldur. Þannig fer lítill tími í að koma sér út og heim, sem skilur eftir meiri tíma til þess að slappa af, njóta, versla og borða. 

Ef elta á billegt breskt pund í ferð út fyrir landsteinana í vetur ætti Liverpool að vera efst á lista þar. London er auðvitað alltaf London, en hún er stærri, hún er dýrari og hún er tímafrekari. Svo eru stórir flugvellir auðvitað hrein martröð sem á að forðast.

Taki einhver lesandi orðin hér að ofan til sín er hægt að styðjast við ráðleggingar blaðamanns hér að neðan.

Flug:

Play flýgur beint til Liverpool á föstudögum og mánudögum í vetur og fram á vor, sem býður upp á hina fullkomnu helgarferð. Flogið er býsna snemma sem hefur augljósa ókosti fyrir B-týpur landsins, en hin hliðin á þeim andkristilega peningi er auðvitað að vera lentur í Liverpool eftir aðeins rúmlega tveggja tíma flug klukkan rúmlega tíu um morgun og komin inn í borg klukkan 11, og allur dagurinn eftir. Föstudagurinn nýtist þannig í heilu lagi. Eins fer lítill tími í að koma sér út á völl þegar heim skal haldið, og þannig hægt að sofa út á mánudeginum og mæta til leiks í raunveruleikann hér á fróni vel úthvíld.

Kostnaður: Flugmiðar rokka í verði, en þegar þetta er skrifað var hægt að bóka flug til Liverpool síðustu helgina í nóvember með Play á um 14 þúsund krónur á manninn fram og til baka, en án farangurs, sem gerir Liverpool að einum ódýrasta áfangastað utan landsteinana sem völ er á. 

Gisting:

Gisting er almennt ódýr í Liverpool og sökum smæðar borgarinnar er kjörið að vera rétt við miðbæinn.

Vel er hægt að mæla með að skoða Innside Liverpool. Hótelið er í göngufjarlægð frá miðbænum og öllum helstu áfangastöðum borgarinnar. Hótelið er fjögurra stjörnu hótel með öllum þeim munaði sem á við. Þá er það norðan megin við miðborgina og stutt leigubílaferð á heimavelli Liverpool og Everton. 

Kostnaður: Aftur, miðað við síðustu helgina í nóvember er hægt að fá herbergi á hótelinu fyrir um 20 þúsund krónur á nóttina með morgunmat. Þannig má gera ráð fyrir að kostnaður yfir helgi sé um 60 þúsund krónur á fjögurra stjörnu hóteli, að því gefnu að arftaki Liz Truss, leggi ekki sitt á vogarskálarnar enn frekar. 

Verslun:

Allar helstu verslanir bæjarins eru, eins og við er að búast, miðsvæðis. Liverpool One er ágætis áfangastaður fyrir verslunarþyrsta Íslendinga í leit að góðum díl fyrir jólagjafir. Þá er Bold Street frábær fyrir þá sem vilja eitthvað annað en hefðbundnu merkjavöruna. Hafa ber þó í huga, að þarna á milli eru um 20 mínútna labb, svo vel er hægt að verða öllum til geðs. 

Meðfram hafnarbakkanum hefur gamla hafnarsvæðið Royal Albert Dock verið sett í nýjan búning. Þar eru nú verslanir, söfn og veitingastaðir þar sem áður voru kolageymslur og verslunarhús sem þjónustuðu hina gríðarlegu skipaumferð um borgina.

Fyrir þá sem stefna á jólaverslun má líka nefna jólamarkað borgarinnar, sem fer í gang um miðjan nóvember. 

To-do listinn:

Heimsókn í Bítlaborgina væri ekkert án þess að líta við í Bítlasafnið. Safnið kafar djúpt í sögu Bítlanna, of djúpt gætu sumir sagt, en skipulagið býður blessunarlega þeim sem vilja fá söguna niðursoðna upp á nákvæmlega það. Fyrir Bítlavini er þetta hins vegar algjör skylduheimsókn. 

Þörf er á að bóka fyrirfram á safnið á heimasíðu þess og vera mættur tímanlega.

Í kringum Bítlasafnið við hafnarsvæðið Albert Dock er jafnframt stórmerkilegt sjóminjasafn sem fer vel yfir myrka sögu þrælaverslunar yfir Atlantshafið. Á tímabili fóru um 40% af verslun milli Bandaríkjanna og Evrópu í gegnum þessa einu hafnarborg. Þá var borgin síðasta höfn fjölmargra farþegaskipa sem sigldu yfir hafið í upphafi síðustu aldar, þekktast þeirra er líklega skipið Titanic, sem fyrir þá sem sáu ekki myndina, [Höskuldarviðvörun] sökk. Þessari sögu allri er gerð góð skil í sjóminjasafninu. Aðgangur að safninu er ókeypis, en óskað er eftir frjálsum framlögum við innganginn.

Tate safnið, systursafn samnefnds safns í London, er jafnframt verðugur viðkomustaður. Þó það sé minna en stóra systir í London, slær það hvergi slöku við. Aðgangur er ókeypis, en hægt er að bóka aðgöngutíma á heimasíðunni.

Liverpool Cathedral. Guðsþjónusta er þar haldin reglulega og fastur liður í slíku hátíðarhaldi er söngur kirkjukórsins sem er einn sá fremsti í bransanum. Hefur hann m.a. sungið með Paul McCartney og lagt á tónleikaferðalög með öðrum skærum stjörnum í tónlistarheiminum. Fyrir þá sem vilja þvo af sér syndir gærkvöldsins er því vel hægt að mæla með að koma sér fyrir í messu og fylgjast með prestum hinnar konunglegu bresku kirkju messa yfir mannskapnum. Þeir hreinu og beinu sem einskis þurfa að iðrast geta litið við og skoðað kirkjuna hvenær sem er dags, en mega eiga von á því að hlutar hennar séu lokaðir á meðan á guðsþjónustu stendur.

Þá má nefna St. Luke’s kirkjuna sem er austan megin við miðborgina. Kirkjan fór illa út úr sprengjuárásum nasista í stríðinu og stendur enn, eins og hún stóð eftir að hafa mætt sínum örlögum. Hópur fólks vinnur nú að því að koma rústunum í þannig ástand að hægt sé að taka á móti fólki þar og segja sögu Liverpool undir sprengjuárásum nasistanna. Þangað til, er vel þess virði að líta við og stinga hausnum inn í rústirnar. Aðgangseyrir er tvö pund.

Matur og drykkur:

Fyrst má nefna að mjög öflugt skemmtanalíf er í Liverpool og full þörf er á því að bóka veitingastaði með sæmilegum fyrirvara. Gott væri til dæmis að eiga bókað borð fyrsta kvöldið. Bókunarsíður eins og OpenTable koma þar sterkar inn. 

Fyrir áhugamenn um barbeque menningu, er fyrst og fremst hægt að mæla með Red Dog Saloon. Brisket, pulled pork og rif, löðrandi í hinum ýmsu BBQ sósum eru vel til þess fallin að gleðja alla áhugamenn um suðurríkjamat. Þá býður staðurinn upp á prýðis díla á kokteilum fram eftir kvöldi sem heldur uppi stemningu um helgar.

Churrasco Steakhouse hentar svo vel þeim sem vilja kjötið sitt borið fram með ögn kúltíveraðri hætti en að ofan. Steikhúsið rekur tvo staði, annar þeirra í úthverfi þar sem yfirleitt er hægt að fá borð með litlum fyrirvara. Miðborgarútibúið er hins vegar þétt setnar og óhætt að mæla með að panta borð þar.

Hinn indverski Mowgli hefur jafnframt getið sér gott orð í borginni, sem og fleiri austurlenskir veitingastaðir. 

Þá má nefna Röski, The Florist, Almost Famous og hinn ítalska Gusto, sem staði sem nefndir hafa verið í öðrum umfjöllunum en undirritaður ekki komist yfir að prófa.

Veitingabókunarsíður eins og OpenTable sem áður var nefnd má svo nota til þess að prófa sig áfram sjálf og finna hina fullkomnu matarupplifun fyrir sig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“
Fókus
Í gær

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“