fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024

Slátrarinn frá Rostov – Afbrigðileg kynhvöt – Myrti tugi stúlkna og kvenna

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 23. júní 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andrei Chikatilo var kallaður „slátrarinn frá Rostov“ og var hann einn afkastamesti raðmorðingi sögunnar. Hann var dæmdur til dauða árið 1992 fyrir 52 morð á konum og stúlkum á öllum aldri. Talið er þó að fórnarlömb hans séu mun fleiri. Andrei var kynferðislega brenglaður og fékk aðeins örvun við það að meiða, drepa og afskræma fórnarlömb sín. Hann náðist í eitt skipti en slapp þá fyrir tilviljun og hélt morðæði sínu áfram. Þegar hann loks náðist, eftir tólf ár, hófust einhver skrautlegustu réttarhöld í sögu Rússlands.

Hungursneyð og stríð

Andrei Romanovich Chikatilo var fæddur árið 1936 í þorpinu Yabluchne í Sovétríkjunum, nú Úkraínu. Í æsku hans geisaði mikil hungursneyð af mannavöldum, eftir misheppnaða landbúnaðartilraun Jósefs Stalín. Milljónir Úkraínumanna dóu vegna hennar. Fjölskylda Chikatilo var svo illa haldin að þau átu laufblöð og gras til að reyna að fylla magann. Móðir Andrei sýndi honum mikla hörku og barði hann stöðugt. Sérstaklega eftir að hann meig undir en þau sváfu í sama herbergi.

Stríðsárin og hernám Þjóðverja voru engu skárri tími í þorpinu þar sem Chikatilo fjölskyldan bjó. Daglega sá Andrei lík á götum úti og varð vitni að nauðgunum hermanna. Þar að auki var faðir hans handtekinn og sendur í þrælkunarbúðir. Á meðan var kveikt í húsi fjölskyldunnar.

Afbrigðileg kynhvöt

Andrei sjálfur var afbragðs námsmaður. Hann var feiminn og fyrir vikið fyrirlitinn af samnemendum sínum og lagður í einelti. Hann þorði lítt að tjá sig, sérstaklega ekki við stúlkur og konur. En hann vissi af gáfum sínum og taldi sjálfan sig æðri öðrum.

Kynferðisleg brenglun einkenndi líf Andrei Chikatilo. Hann leit á kynlíf sem skammarlegan og skítugan hlut en á sama tíma öfundaðist hann út í þá sem áttu í góðum samböndum við konur. Í þau fáu skipti sem hann sjálfur varð náinn með kvenmanni átti hann erfitt með að fá örvun nema með því að meiða viðkomandi.

Þegar Andrei var aðeins fimmtán ára gamall sást þessi afbrigðilega hegðun hans fyrst. Þá reyndi hann að nauðga ellefu ára gamalli stúlku. Hún slapp í burtu en ótti hennar kveikti í honum.

Áreitti nemendur

Árið 1954 sótti Andrei um að komast í lögfræðinám við Moskvuháskóla og hélt að það yrði létt verk. Hann féll hins vegar á inntökuprófinu og gekk þess í stað í Rauða herinn. Hann lærði njósnir, starfaði fyrir KGB í Berlín og gekk í Kommúnistaflokkinn.

Andrei vildi stofna fjölskyldu og árið 1963 giftist hann ungri konu að nafni Feodosia Odnacheva. Það var aðeins tveimur vikum eftir að systir hans hafði kynnt þau fyrir hvort öðru. Árið 1965 eignuðust þau dótturina Ludmilu og fjórum árum síðar soninn Yuri. Um þetta leyti nam hann bókmenntir og gerðist síðar kennari. En nemendurnir sáu hversu veiklundaður maður hann var og hæddu hann stanslaust í skólastofunni. Andrei hafði enga stjórn á nemendum sínum og sjálfsálitinu hrakaði enn frekar.

Hin brenglaða kynhneigð hans komst aftur upp á yfirborðið þegar hann varð uppvís að því að ráðast á fimmtán ára gamlan nemanda og káfa á henni. Skólayfirvöld gerðu hins vegar ekkert í málinu. Seinna sást hann fitla við sig í skólastofunni og njósna um stúlkur á heimavistinni. Eftir margar kvartanir var honum loks gert að segja upp eða verða rekinn úr skólanum. Hann fékk vinnu í öðrum skóla og hélt iðju sinni áfram.

Yelena Zakotvona
Fyrsta fórnarlamb Andrei Chikatilo.

Fyrsta morðið

Árið 1978, þegar Andrei var 42 ára gamall, fannst honum sem dráp væru eina leiðin til þess að hann fengi kynferðislega örvun. Þetta ár tældi hann hina níu ára gömlu Yelenu Zakotnova út í kofa. Hann reyndi að nauðga henni en gat það ekki. Þess í stað tók hann upp hníf og stakk hana margsinnis og kæfði síðan með höndunum. Andrei kastaði líki Yelenu í nálægt fljót og fannst það tveimur dögum síðar. Blóðslóð lá að vistarverum Andrei og hann var yfirheyrður vegna morðsins.

Andrei var hins vegar ekki ákærður heldur annar maður, Aleksandr Kravchenko, sem hafði áður setið í fangelsi fyrir morð og nauðgun á unglingsstúlku. Kravchenko var fundinn sekur um morðið á Zakotnovu og tekinn af lífi árið 1983. Þetta gaf Andrei innblástur. Hann taldi sig ósnertanlegan og að hann gæti komist upp með fleiri ódæði.

Afskræmingar

Næsta morð framdi hann árið 1981. Þá var hann hættur að kenna og starfaði í stórri verksmiðju. Hann beið við strætisvagnastöð eftir fórnarlambi og sá hina sautján ára gömlu Larisu Tkachenko koma. Hann bauð henni vodka fyrir að koma með sér út í nærliggjandi skóg. Á afviknum stað í skóginum reyndu þau að stunda mök en Andrei var ófær um það. Þá varð Andrei ofbeldisfullur og lamdi hana ítrekað og tróð jarðveg í vit hennar til að stöðva ópin. Því næst kæfði hann hana með höndunum og svívirti líkið og afskræmdi með tönnunum. Larisa fannst skömmu síðar, þakin laufum, og hafði önnur geirvartan verið bitin af. Andrei komst hins vegar aftur upp með morð.

Þriðja morðið framdi hann sumarið 1982, í borginni Rostov. Hann elti þrettán ára gamla stúlku, Lyubov Biryuk, úr búð, rotaði hana, kastaði í skurð og stakk til dauða. Aftur afskræmdi hann líkið og stakk meðal annars úr henni augun. Og aftur komst hann upp með morð.

Lyubov Biryuk
Þrettán ára fórnarlamb.

Ítarleg rannsókn

Nú var ekki aftur snúið. Andrei hélt áfram að drepa og drepa, oftast í borginni Rostov. Börn, ungar stúlkur, eldri konur, vændiskonur. Líkin skildi hann eftir, afskræmd, í skóglendi og í fljótum. Stundum tók hann augun út, stundum opnaði hann kviðinn með hnífi þannig að iðrin ultu út. Rannsakendur stóðu á gati en sáu fljótlega að hér var raðmorðingi á ferð, raðmorðingi með sjúkar hvatir. Lögreglan í Rostov var vanefndum búin til að takast á við verkefnið og því var kallað til teymi frá Moskvu til þess að reyna að finna morðingjann.

Rannsóknin var ítarleg. Svo ítarleg að um eitt þúsund aðrir glæpir upplýstust, þar af 95 morð og hátt í 300 nauðganir.

Þann 13. september árið 1984 var Andrei handtekinn af lögreglumanni í dulbúningi. Andrei hafði þá verið að reyna að tæla unga stúlku við strætisvagnaskýli. Stór hnífur fannst í skjalatöskunni hans og lögreglan taldi sig hafa fundið raðmorðingjann. Það kom þeim hins vegar að óvörum þegar blóðsýni hans stemmdi ekki við þau sæðissýni sem fundist höfðu á morðvettvangi. Ástæðan fyrir þessu var að Andrei var haldinn mjög sjaldgæfu heilkenni, það er að blóð hans og sæði voru ekki í sama flokki. Slapp hann því við morðákæruna en var dæmdur í fangelsi fyrir þjófnað og sat aðeins þrjá mánuði inni.

Handtaka

Andrei hafði nú hægt um sig þangað til sumarið 1985 þegar morðin hófust á nýjan leik. Þá hafði hann fengið starf í bílaverksmiðju. Andrei varð ávallt færari og færari í að fela slóð sína en það sem hann vissi ekki var að nú var rannsóknarlögreglan að fylgjast með honum. Það var þó ekki fyrr en árið 1990 sem hann loksins náðist.

Í maí það ár myrti Andrei hina 22 ára gömlu Svetlönu Korostik í skógi nálægt lestarstöð. Lögreglumaður kom að honum við brunn þar sem hann var að skola sig. Hann var skítugur og með blóðblett á vanganum. Lík Svetlönu fannst hins vegar ekki fyrr en tveimur vikum síðar. Í nóvember lét lögreglan til skarar skríða og handtók hann.

Skrautleg réttarhöld

Andrei neitaði öllu. Hann var yfirheyrður í marga daga í einangrun en taldi sig klárari en lögreglumennina. Að lokum brotnaði hann í ljósi yfirgnæfandi sannana og játaði á sig 34 morð af þeim 36 sem hann var grunaður um að hafa framið.

Hann varð mjög samvinnuþýður og leiddi lögreglumenn á alla staðina þar sem hann hafði framið morðin. Hann sýndi þeim nákvæmlega hvernig hann hafði borið sig að við ódæðin og hvað hann hafði gert við líkin á eftir. Síðar í rannsókninni játaði hann á sig 22 morð til viðbótar sem hann var ekki grunaður um.

Andrei var vitaskuld settur í geðrannsókn, var metinn sjúkur og með kvalarlosta en sakhæfur. Hann var ákærður fyrir alls 52 morð á tólf ára tímabili. Þann 14. ágúst árið 1992, þegar Sovétríkin voru að hrynja og liðast í sundur, var Andrei leiddur fyrir rétt. Hundruðir aðstandenda voru í salnum og Andrei var geymdur í búri til að tryggja öryggi hans.

Fólkið öskraði á hann, hrækti og það leið yfir suma. Þetta var stórviðburður og fjölmiðlafár. Hegðun Andrei var mjög brengluð. Hann öskraði, benti, hló og greip fram í. Á einum tímapunkti beraði hann sig, benti á kynfæri sín og sagði: „Sjáið þennan einskis verða hlut. Hvað haldið þið að ég geti gert með þessu?“ Andrei hélt sjálfur varnarræðu sína, tveggja tíma langa. Þar tíundaði hann kynferðislegan vanmátt sinn og sagðist ekki hafa viljað drepa neinn.

Þann 15. október árið 1992 var Andrei Chikatilo fundinn sekur um að hafa framið öll 52 morðin. Hann var dæmdur til dauða og 86 ára fangelsisdóm að auki. Hann sparkaði í bekkinn sinn og öskraði þegar dómsorðin voru lesin upp.

Þann 14. febrúar árið 1994 var dóminum fullnægt. Hann var leiddur úr fangaklefa sínum á dauðadeildinni inn í hljóðeinangrað herbergi. Þar var hann skotinn með einni kúlu aftan við hægra eyrað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Lokaorð Van Nistelrooy til leikmanna Manchester United

Lokaorð Van Nistelrooy til leikmanna Manchester United
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Grét í búningsklefanum í hálfleik um helgina

Grét í búningsklefanum í hálfleik um helgina
Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum

Segir stjórnlynda hagfræðinga á borð við Kristrúnu stórhættulega – „Með því að ofmeta sjálfa sig“

Segir stjórnlynda hagfræðinga á borð við Kristrúnu stórhættulega – „Með því að ofmeta sjálfa sig“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Tjáir sig loksins eftir endalausar sögusagnir – Ummælin vekja athygli

Tjáir sig loksins eftir endalausar sögusagnir – Ummælin vekja athygli