Lögreglan telur að póstkort innihaldi lausnina að óleystu og hræðilegu morði frá 1984.
Shelley Morgan, tveggja barna móðir, var aðeins 33 ára þegar hún var stungin 14 sinnum í bakið. Atvikið átti sér stað í Bristol fyrir 35 árum, en Morgan hafði skilað börnum sínum í skólann um morguninn.
Rannsóknarlögregla frá Avon og Somerset telur að bæði póstkortin innihaldi mikilvægar vísbendingar um hver morðinginn er. Lögreglan hefur beðið þá sem keyptu dagatal með póstkortunum eða geymdu póstkortin til að gefa sig fram.
Listnámsneminn var á leiðinni til Leigh-skógarins nærri Ashton Court þar sem hún hugðist verja deginum í að teikna og taka ljósmyndir. Þegar hún kom ekki til að sækja börnin sín og kom ekki heim var hringt til lögreglu og leit hafin. Fjórum mánuðum seinna, 14. október 1984, fundu börn að leik líkamsleifar Morgan.
Krufning leiddi í ljós að Morgan hafði hlotið fjölda stungusára og einnig voru vísbendingar um að árásin hefði verið kynferðisleg.
Póstkortin eru af dagatali sem selt var af góðgerðarsamtökum í Bristol á níunda og tíunda áratugnum. Ein myndin er tekin yfir Avon-ána í Bristol, frá Bower Ashton, rétt fyrir neðan Clifton-brúna, en önnur er af St Andrew’s kirkju tekin frá Blackwell-hæðinni. Lögreglan segir að báðar staðsetningar séu mikilvægar þar sem þær sýni svæðið sem Morgan ætlaði til daginn sem hún hvarf og þar sem hún fannst nokkrum mánuðum seinna.
„Hún fór að heiman þennan dag til að taka ljósmyndir og teikna á Leigh-skógarsvæðinu, þannig að það getur verið að vinna hennar og staðsetning hennar þann dag innihaldi lausnina að því hver morðingi hennar er,“ segir Sarah Banston rannsóknarlögregla. „Við teljum að morðingi hennar hafi haft aðgang að bíl og tengist Backwell og líklega Leigh-skógarsvæðinu og Clifton-svæðinu í gegnum vinnu sína eða önnur sambönd.“
Myndavél Morgan, 35mm Olympus OM20, með raðnúmerið 1032853, hefur aldrei fundist. „Morgan var með myndavél með sér, ásamt þrífæti og teikniáhöldum í stórri bútasaumshliðartösku,“ segir Barnston. „Þessi taska hefur aldrei fundist, eða fötin sem hún var í og gleraugun hennar sem voru með rauðri umgjörð. Þrátt fyrir að margir segist hafa séð Morgan daginn sem hún hvarf, bæði í Bristol og Backwell, þá hefur ekkert af því verið staðfest.“
Lögreglan segist staðráðin í að leysa morðið á Morgan og láta þann eða þá sem ábyrgð bera á því bera ábyrgð gjörða sinna.
„Það er ómögulegt að ímynda sér sársaukann og sorgina sem fjölskylda Morgan hefur þurft að glíma við síðustu ár og að skilja áhrifin sem morð hennar hefur haft á börnin hennar tvö sem hafa verið móðurlaus meirihluta ævi sinnar,“ segir Barnston.
„Ég vil hvetja alla sem hafa upplýsingar, hversu léttvægar sem þær eru, að stíga fram. Trúnaður og sambönd breytast með tímanum og það gæti verið að það sé einhver sem gat ekki talað við okkur á sínum tima, en er í aðstöðu til þess í dag.“
Holle Brian, systir Morgan, segir: „Í 35 ár hef ég horft á atburði gerast án hennar. Þetta hafa verið 35 ár af þögn og lífi sem hún fékk ekki að lifa.
„Á meðan við höldum minningu hennar í hjarta okkar þá er hún á meðal okkar. Við erum að eldast og það mun koma sá tími að málið verður ekki leyst.
Við skorum á þig ef þú hefur einhverjar upplýsingar um þennan dag í júní 1984. Gerðu það, farðu til lögreglunnar, kannski varstu hrædd/ur við að tala þá, en að staða þín hafi breyst í dag. Vegna minningar systur minnar og ástar okkar á henni þá viljum við vita hvað gerðist og vera viss um að sá sem valdur var að dauða hennar muni aldrei særa aðra manneskju aftur.“