fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Skiptir máli hver þú ert og hvað þú ert að gera

Guðni Einarsson
Föstudaginn 25. janúar 2019 17:00

Koma fram S.A.D. Elli Grill, SEINT og lukkudýrið LaFontaine.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rappararnir og tónlistarmennirnir Elvar Heimisson og Joseph Muscat, betur þekktir sem Elli Grill og SEINT, koma fram á tónlistarhátíðinni S.A.D Festival sem fram fer þann 1. febrúar næstkomandi. S.A.D. Festival stendur fyrir „hátíð skammdegisþunglyndis“ en allir listamenn sem koma fram á hátíðinni eiga það sameiginlegt að fást við sorg eða þunglyndi í tónlist sinni. DV settist niður í kaffi með Ella og Joseph og forvitnaðist um tónlistina og ferilinn.

Pabbi í pönki og mamma í rappi

Joseph fæddist í Brighton á Englandi og fluttist ungur til Íslands með foreldrum sínum. Bæði hann og Elli ólust upp í Breiðholti. Joseph segir að móðir hans, Ósk Óskarsdóttir, hafi kynnt tónlist fyrir honum. Hann segir:

„Hún er tónlistarkona sjálf, en hefur verið lítt áberandi vegna þess að hún var einstæð þriggja barna móðir. Ég held að hún sé fyrsti Íslendingurinn sem kom sér upp heimastúdíói. Hún bjó í Bandaríkjunum með föður mínum og þar kynnist hún rappinu.“

Þannig að segja má að það sé mömmu þinna að þakka að þú ert í rappinu í dag?

„Já, algjörlega. Hún var alltaf að hlusta á rapp. Þetta var „early nineties“ rappið og svo auðvitað svona önnur tónlist líka, eins og David Bowie, Killing Joe og Lou Reed. Faðir minn, Laurie Muscat, sem er Breti, var trommuleikari í The Adverts. Það var pönkband frá áttunda áratugnum, sama tíma og Sex Pistols og allt það var í gangi. Þeir gáfu út plötu sem komst á Billboard-listann fræga. Hann þekkti mikið af þessu liði, Danny Motörhead og Sex Pistols-gæjana. Tónlistarferill hans hafði mikil áhrif á mig líka.“

Á sjóinn til að hreinsa hugann

Tónlistin er einnig í fjölskyldu Ella. Afi hans var djasstónlistarmaður sem lék meðal annars með stórsveit BBC í Bretlandi. Á heimili Ella var tónlistin alltaf mikilvægur þáttur. Faðir hans kynnti þungarokkssveitina Black Sabbath fyrir honum og bróðir hans kynnti rappsveitina Cypress Hill fyrir honum. Þessar tvær sveitir hafa mótað Ella allar götur síðan.

„Ég hafði aldrei ímyndað mér að ég yrði tónlistarmaður, það gerðist alveg óvart. Eitt af stærstu áhugamálum mínum var að hlusta á og pæla í tónlist. Ég stofnaði rappsveitina Shades of Reykjavik og byrjaði að gera myndbönd. Þetta byrjaði á því að ég var alltaf að segja strákunum til hvernig ætti að gera þetta, tónlistina það er að segja. Svo sögðu þeir mér bara að gera þetta“ segir Elli og hlær.

Shades of Reykjavik var með hljóðver við Laugaveginn ásamt mörgum öðrum röppurum. Elli segir það hafa verið mjög truflandi fyrir hann.

„Ég fór á sjóinn og við það rann allt viskíið af mér. Þá fór heilinn loksins að virka og ég byrjaði að rappa úti á sjó. Þetta voru þrjátíu daga túrar og nægur tími til þess að einbeita sér að þessu.“

Óvænt samstarf
Elli Grill og Leoncie.

Samstarfið við Leoncie

Elli vakti mikla athygli árið 2015 þegar upp dúkkaði myndband við lagið Engan þríkant hér. Indverska prinsessan Leoncie samdi lagið árið 2008 og fluttu þau Elli það saman í myndbandinu.

Hvernig kom þetta til?

„Hún var mega til í þetta. Hún var í raun hissa á að einhver vildi gera tónlist með henni. Þetta gerðist þannig að ég var nýbúinn að spila á tónleikum með Shades of Reykjavik og eftir tónleikana vorum við í svo miklu stuði að við fórum heim að gera vöfflur. Þá datt mér þetta í hug og sendi henni skilaboð. Ég hafði svo gleymt því vegna þess að ég var í svo miklu stuði. Viku seinna þá var ég á Ingólfstorgi að hanga, þá sendi hún skilaboð um að hún væri alveg til í þetta. Hún vildi gera allt strax, sem gerði það að verkum að þetta gerðist allt saman mjög hratt.“

Síðastliðið haust slettist hins vegar upp á vinskapinn. Leoncie krafðist þess meðal annars að myndbandið yrði fjarlægt af Youtube.

Frumkvöðull á Íslandi

Joseph segir Ella vera frumkvöðul í íslensku rappsenunni.

„Það skiptir máli hver þú ert og hvað þú ert að gera. Elli Grill er frumkvöðull og átti stóran þátt í að uppgötva þetta sánd og koma með það hingað. Enginn á sjálfkrafa rétt á að fá að taka þátt í senunni. Þetta líka spurning um hvort þú sért að búa til efni sem flestir hlusta á eða eitthvað meira neðanjarðar. Mín tónlist held ég að sé þannig að það þarf að smakka réttinn í nokkur skipti þangað til þú kemst á bragðið.“

Er þetta spurning um að búa til og gefa út nógu mikið af tónlist til þess að vekja athygli?

„Fyrir mitt leyti, já,“ segir Joseph. „Ég hef gefið út þrjár plötur á tíu árum og sú fjórða er í burðarliðnum. Ég held að nú fyrst sé fólk farið að taka eftir mér og fíla stílinn hjá mér. Ég tók bara þá ákvörðun í upphafi að vera trúr minni eigin hugsjón í gegnum súrt og sætt.“

Elli segir: „Sá sem er duglegur, hefur metnað og hæfileika, mun vera á toppnum. Auðvitað skiptir það máli að þekkja fólk, það á við um allt í öllum þessum brönsum. En það þarf líka að huga að kynningu á samfélagsmiðlum, myndbandagerð og markaðssetningu. Þetta er hvort sín listin, að skapa og að koma þér á framfæri. Ef þú ert með báða hluti í lagi ertu í góðum málum.“

Þið eruð báðir að fara að spila á S.A.D Festival sem fram fer 1. febrúar á skemmtistaðnum Paloma. Hvernig er stemningin fyrir því hjá ykkur?

„Ég hef spilað með öllu þessu fólki áður og elska það,“ segir Elli. „Það myndast einhvern veginn allt önnur orka þegar svona margir eru að spila með mismunandi stíla. Verður líka miklu meira spennandi hjá listamönnunum sjálfum, held ég. Þetta er eitt af þessum giggum sem maður bíður bara eftir, þetta á eftir að vera rafmagnað!“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík