Rokk var mottóið á laugardeginum á Secret Solstice. Íslensku sveitirnar Agent Fresco og HAM kynntu vel í mannskapnum og svo kanadíska tvíeykið Death From Above. Grátt var yfir öllu og blautt, líkt og undanfarna tvo mánuði, en eftirvænting í andlitum gamalla rokkhunda sem birtust á svæðinu hver af öðrum. Leðurjakkar, bætt gallavesti, alskegg og síðir lubbar voru alls ráðandi.
Eftir að fáninn var reistur upp í rjáfur, vígalegu trommusettinu komið fyrir og búið að prófa um það bil fimmtíu skræpótta gítara stigu söngvarinn Tom Araya og félagar á sviðið og opnuðu með Repentless af nýjustu plötunni. Eitthvað fór nú úrskeiðis varðandi hljóðið en því var kippt í liðinn fyrir næsta lag, gamalkunna slagarann Blood Red.
Prógram kvöldsins var voldugt svo vægt sé í árina tekið. Hvorki var einblínt á gullaldarskeið hljómsveitarinnar á níunda áratugnum né nýrra efni heldur var drepið niður á flestum stöðum ferilsins í nítján lögum.
Frammistaða sveitarinnar var nær óaðfinnanleg ef undan er skilinn hiksti Tom Araya í upphafi Mandatory Suicide þar sem hann virtist ruglast í byrjun lagsins. En Araya henti sjálfur gaman að því enda í mjög afslöppuðu og góðu skapi. Hann talaði hlýlega til áhorfenda og það fór smá kjánahrollur um gömlu íslensku rokkarana þegar hljómsveitin henti í eitt gott víkingaklapp. Flestir fyrirgáfu það hins vegar þar sem gamall draumur margra var að rætast og klappið gert til að sýna íslenska landsliðinu stuðning.
Flestir biðu eftir að heyra þekktustu lögin frá níunda áratugnum en besta frammistaðan kom hins vegar í tveimur nýrri lögum sem bæði eru mjög umdeild vegna trúarlegra texta, Disciple og Jihad. Slayer tónleikar eru ekki staður fyrir viðkvæmni og það var einstaklega hressandi að heyra allan dalinn blóðöskra: GOD HATES US ALL!!!
Í uppklappinu var svo komið að því að uppfylla skyldurnar. South of Heaven, Angel of Death og Raining Blood sem hefur skriðþunga á pari við meðalstórt snjóflóð.
Araya þakkaði fyrir sig og eftir sátu eftir sælir miðaldra aðdáendur, með suð í heyra, vöðvabólgu og dágóðan hausverk eftir allt skakið. Það var heiður að fá að upplifa þetta.