Rétt eins og flesta aðra daga í sumar mígrigndi í Laugardalnum þegar Secret Solstice hátíðin opnaði. Eitthvað var um skipulagshiksta og dæmi um að fólk þyrfti að bíða lengi í röð vegna þessa. Þrátt fyrir raðirnar og rigninguna virtist fólk í bullandi stemningu og greinahöfundi kom það á óvart hversu mannmargt var á svæðinu en fimmtudagurinn er yfirleitt sá fámennasti.
Klukkan rúmlega níu stigu Jet Black Joe liðar á svið. Tveir eru eftir úr upprunalegu sveitinni sem stofnuð var árið 1991 og var vinsælasta rokkhljómsveit landsins um nokkurra ára skeið og fyrirferðamikil í fjölmiðlum vegna óreglu og láta. Um tíma virtist sem hljómsveitin væri að „meika það“ úti í hinum stóra heimi en eins og flestir vita hætti hljómsveitin árið 1996 og söngvarinn Páll Rósinkranz setti guð í fyrsta sæti. Síðan 2001 hefur hljómsveitin annars lagið komið saman á tónleikum en þá með breyttum mannskap.
Það er auðvelt að sjá af hverju þeir urðu svona stórir, þetta eru grípandi lög sem flestir tónleikagestir gátu sungið með þó þeir væru ekki einu sinni fæddir þegar Páll og Gunnar Bjarni riðu húsum. Páll hefur verið einn besti söngvari landsins í tæpa þrjá áratugi og Júníusbræður slá hrynjandann sem einn maður. „I, You, We“, „I Know“, „Rain“, „Freedom“ og allir þessir slagarar tíunda áratugarins. Vitaskuld biðu áhorfendur allir eftir „Higher and Higher“ sem kom í lokin. Þetta er ekki virkt band, ef segja má svo, heldur sýningargluggi inn í það besta sem tíundi áratugurinn hafði upp á að bjóða og yngri kynslóðin virtist kunna að meta það.
Aðalnúmer kvöldsins var ráma rokkdrottningin Bonnie Tyler klukkan hálf ellefu og líkt og með Jet Black Joe þá tók yngri kynslóðin vel í þá arfleið sem hún skilur eftir sig. Það var samt svolítið undarleg tilfinning að heyra skara af tvítugu fólki ópa „Bonnie! Bonnie! Bonnie!“ fyrir tónleikana og rétt áður en hún steig á svið öskraði einn ungur drengur „Bonnie, ég fylgist með þér á Instagram!“.
Bonnie, sem er nýdottin í lífeyrisaldur, átti sinn frægðartíma á áttunda og níunda áratugnum en hefur undanfarin ár sungið með Rod Stewart. Það eru ansi margir viský-pelar í rödd hennar en eitthvað frelsi í fasi hennar sem gerir hana heillandi á sviði. Hún er eins og einhver amma sem má vera vandræðaleg. Bonnie er ekki bara söngkona, hún er skemmtikraftur sem grínast með botoxið sitt og grobbar sig eins og svæsnasti rappari. En hún má það svosum eftir að hafa gefið út smelli eins og „It´s a Heartache“, „Total Eclipse of the Heart“ og lokalag kvöldsins „Holding on for a Hero.“
Þetta var heilt yfir gott kvöld og sérstaklega gaman að sjá að yngri kynslóðin hlustar ekki bara á mumble-rapp.