fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Mikilvæg tengsl myndast á Iceland Airwaves

Guðni Einarsson
Mánudaginn 5. nóvember 2018 19:00

Bryndís Jónatansdóttir Verkefnastjóri ÚTÓN.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagana 7.–10. nóvember fer fram tónlistarhátíðin Iceland Airwaves. ÚTÓN (Útflutningsstofnun íslenskrar tónlistar) mun standa fyrir ráðstefnu meðan á hátíðinni stendur þar sem boðið verður upp pallborðsumræður, tengslamyndunarfundi og vinnusmiðjur. Á ráðstefnunni gefst gestum tækifæri til að heyra um það helsta sem er að gerast í tónlistarheiminum í dag, en tónlistariðnaðurinn er á stöðugri hreyfingu og fer ekki varhluta af framförum í tækni og samfélagsbreytingum og munu pallborðsumræður leitast við að skoða áhrif þessara breytinga á tónlistariðnaðinn hér heima sem og erlendis. DV settist niður með Bryndísi Jónatansdóttur, verkefnastjóra ÚTÓN, sem sagði nánar frá ráðstefnunni.

 

Mikilvæg tengslamyndun

„Þetta er í fjórða skipti sem ráðstefnan er haldin, sem er stofnuð af ÚTÓN. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að styðja við íslenskan tónlistariðnað, kynna það helsta sem er í gangi í tónlistarheiminum, þær breytingar sem eru að eiga sér stað og þá þróun sem hefur verið í gangi, nýja tækni og fleira. Markmiðið er einnig að tengja saman íslenskan tónlistariðnað við bæði umboðsmenn, tónlistarfólk og fleiri sem vinna innan iðnaðarins við erlenda fagaðila sem koma til landsins fyrir hátíðina. Við erum með okkar virkni yfir fjóra daga, þar af eru þrír af dögunum með megináherslu á tengslamyndun.

Við byrjum á miðvikudeginum í samstarfi við STEF. Þar verðum við með svokölluð „hlustunarsession“ með tónlistarstjórum. Stór partur af vinnu margra tónlistarmanna í dag er svokallað „sync“. Það er að selja og leigja tónlistina sína út í auglýsingar, sjónvarpsþætti, kvikmyndir og fleira og þar eru í lykilhlutverki tónlistarstjórar,“ segir Bryndís.

„Til landsins koma tónlistarstjórar sem sjá um velja tónlist í stærstu sjónvarpsþáttaseríur og auglýsingar í heiminum. Hlustunarsessionin virkar þannig að tónlistarfólk fær tækifæri á að spila tónlistina sína fyrir tónlistarstjórana sem síðan gefa því álit og hversu „sync“-hæf tónlistin sé. Eftir á getur það síðan myndað persónuleg tengsl við tónlistarstjórana og aðra tónlistarmenn. Út úr þessu hefur oft komið alls konar samstarf. Þetta er tækifæri fyrir tónlistarmennina til þess að fá álit og að vita hvort þeir séu tilbúnir að fara út í svona samstarf og mynda tengsl til þess að koma þeim af stað.“

 

Allir fá minnst einn fund

„Á fimmtudeginum erum við á fullu með tengslamyndunarfundi,“ segir Bryndís. „Fundirnir er nokkurn veginn eins og hraðstefnumót. Tónlistarfólk fær tíu mínútna örfundi með umboðsmönnum, útgáfufyrirtækjum og áhrifafólki úr iðnaðinum. Þar gefst þeim tækifæri að sýna þeim tónlistina sína og mynda tengsl sem svo síðar gætu leitt til frekara samstarfs. Við bjuggum til skjal með myndum og upplýsingum með öllum fagaðilum sem mæta á fundina. Þennan lista sendum við svo út á tónlistarfólkið sem ætlar sér að mæta. Þeir geta svo lesið sér til um hvaða fagaðilar þetta eru og sótt um hvaða aðila þeir vilja hitta. Hver tónlistarmaður getur fengið sex fundi. Þessar upplýsingar sendum við svo á fagaðilana. Þeir geta þá séð hverjir þetta eru og kynnt sér tónlistarfólkið og undirbúið sig áður en fundur á sér stað. Þetta er gert til þess að allir geti fengið sem mest út úr hverjum fundi.

Það sem við erum einnig að gera í ár er að við erum með opinn lista yfir alla fagaðilana fyrir þá sem eru að spila á hátíðinni. Þar geta listamenn fundið tengiliðaupplýsingar um hverjir eru að mæta, geta sent þeim línu og sagt þeim hvar og hvenær þeir eru að spila og hvort þeir hafi áhuga að koma og horfa. Með þessu erum við að hvetja til tengslamyndunar. Það hefur gríðarlega mikil áhrif að fá rétta fólkið á tónleika og hitta rétta fólkið.“

Eru þessir viðburðir opnir öllum?

„Það þurfti að sækja um tengslamyndunarfundina. Allir gátu sótt um og allir gátu séð hverjir væru að fara að taka þátt í þessum fundum. Það er svo valið hverjir fá fundina út frá því hversu mikið efni fólk er með, en við reynum að gefa öllum tækifæri til að fá að minnsta kosti einn fund. Fólk sem er að spila á hátíðinni hefur forgang. Þarna koma meðal annars bókarar frá stærstu tónlistarhátíðum í heimi líkt Eurosonic, Hróarskeldu og Great Escape.

Áherslan í ár er lögð á umgjörð tónlistarverkefna. Við höfum verið að leggja áherslu á að styðja við að það komi fleiri inn sem umboðsmenn og bókarar og umgjörðina í kringum tónlistarverkefni. Það eru margir umboðsmenn sem eru með íslensk verkefni sem eru að vinna alþjóðlega sem eru að koma til landsins. Þetta fólk mun miðla sinni þekkingu til þeirra sem eru nýir. Fólkið mun hittast á námskeiði á laugardeginum þar sem umboðsmenn verða með kynningar og segja frá starfi sínu, hverju á að passa sig á þegar farið er með listamanninn í útflutning, hvernig gera á útgáfusamninga og fræðslu um streymisveitur svo eitthvað sé nefnt.“

 

Frumkvöðlahugsun hjá yngri kynslóðinni

Eru þetta allt erlendir umboðsmenn?

„Það eru erlendir umboðsmenn að koma, en svo erum við að bjóða íslenskum umboðsmönnum líka sem eru með reynslu erlendis frá. Áhersla okkar er sú að fá umboðsmenn, sem hafa verið að vinna með íslensk verkefni á erlendri grundu, til að koma og deila sinni reynslu þannig að fólk geti öðlast forskot á það hvernig hægt sé að skipuleggja sig og hvernig hægt sé að koma íslensku verkefni í útrás. Hvað þarf til, hver eru fyrstu skrefin, hvað þarf að varast og svo framvegis.“

Það hafa ekki verið margir íslenskir umboðsmenn í gegnum tíðina. Er það að breytast?

„Það er rétt, þeir hafa ekki verið margir. Það virðist vera að það sé að koma upp öflugur hópur núna. Það er heilmikil frumkvöðlahugsun sem hefur átt sér stað hjá yngri kynslóðinni og það hefur verið gaman að fylgjast með hvernig sú þróun hefur verið. Það er heilmikil grasrót og mikil tækifæri. Það er verið að framleiða ofboðslega mikið af tónlist sem er að fá mikla athygli erlendis en það þarf ákveðna umgjörð til þess að fylgja því eftir. Það er að koma meiri áhugi á að byggja það upp hérna heima.“

Ráðstefnan er haldin á Center Hótel Plaza, en STEF-viðburðurinn verður haldinn í húsakynnum STEF við Laufásveg. Allir viðburðir verða streymdir beint á Facebook-síðu ÚTÓN fyrir þá sem hafa áhuga.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu ÚTÓN, www.uton.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“