fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Hundrað prósent karllægt umhverfi

Guðni Einarsson
Sunnudaginn 18. nóvember 2018 08:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hljómsveitin Cyber, sem skipuð er af þeim Sölku Valsdóttur, Þuru Stínu Kristleifsdóttur og Jóhönnu Jónasdóttur, hefur vægast sagt gefið hip hop-senu landsins vítamínsprautu í rassinn með beittum textasmíðum og framúrskarandi taktsköpun. Hljómsveitin fagnaði útgáfu sinnar þriðju breiðskífu, Bizness, síðastliðinn föstudag ásamt því að troða upp á vel heppnuðum tónleikum í Listasafni Reykjavíkur á Iceland Airwaves sem fór fram síðustu helgi.

Hljómsveitin hefur stimplað sig rækilega inn í hip hop-senu landsins með nýjum og tilraunakenndari hljóðheimi sem vakið hefur athygli. Hljómsveitin hefur farið lítt þekktari slóðir í flutningi tónlistarinnar en gengur og gerist innan senunnar með þema tengdum plötum sínum sem hafa endurspeglast í tónleikum sveitarinnar. DV ræddi við þær um tónlistina, stöðu kvenna í rappsenunni og fleira.

 

Þrassað diskópopp

Hljómsveitin Cyber varð til í Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 2012. Jóhanna og Salka stofnuðu hana sextán eða sautján ára gamlar.

„Salka átti varalit sem hét Cyber og hann fór okkur báðum geðveikt vel. Okkar fannst enginn annar varalitur jafn „fabúles“. Við hugsuðum með okkur að þetta væri geggjað hljómsveitarnafn. Við fórum í gegnum tímabil þar sem við vorum mikið í partíum og þá sögðum við fólki að við værum í hljómsveitinni Cyber og einnig þegar við vorum að reyna komast fram fyrir röð á skemmtistöðum og svona,“ segir Jóhanna og hlær.

Á þessum tíma var nafnið hins vegar það eina sem var tilbúið. Stefnan var ekki sett á rappið heldur höfðu þær hugmyndir um að spila bræðing af þrassþungarokki, poppi og diskó. Átti Jóhanna að orga og spila á hljómborð en Salka að berja húðir. Seinna urðu þær rapphljómsveit.

 

Sjónræni hlutinn mikilvægur

Cyber-liðar gáfu út plötuna Horror á síðasta ári. Eins og titillinn gefur til kynna var hryllingsþema á plötunni. Nú eru þær að vinna að plötu með skrifstofuþema. Jóhanna segir þetta hafa gerst óvart en fagurfræði og sjónræna hliðin leiki stórt hlutverk. Salka segir:

„Snemma kom hugmyndin að vera með skýra og sterka fagurfræði út frá sjónrænu hliðinni. Svo held ég að Jóhanna fái svo fljótt leið á hlutum. Svona fagurfræði er aldrei að fara lifa nema í mesta lagi í eitt ár hjá almenningi. Þegar við vorum að byrja að klæða okkur í latex, plast og vínyl var það ekki beint vinsælt á Íslandi. En í lok árs þegar við vorum að klára það, var það að byrja að vera heitt.“

Jóhanna bætir við:

„Fólk skrollar yfir þúsund myndir á Instagram á dag. Fólk fær leiða á því að sjá sömu hlutina of oft. Þess vegna erum við að alltaf endurskilgreina okkur. Bæði til þess að við fáum ekki leiða og einnig áhorfendur. Þegar þú kemur inn á Cyber-tónleika þá veistu ekkert hvað þú ert að fara að sjá.“

 

Strákarnir ráða

Stelpurnar í Cyber segja að það sé ekki hægt að starfa saman í hljómsveit án þess að vera góðar vinkonur. Einnig séu þær meðlimir í annarri hljómsveit, femínsku rappgrúppunni Reykjavíkurdætrum. Þar kynntust Jóhanna og Salka Þuru sem bættist við í Cyber.

Hvernig er staða kvenna í hip hop-senunni í dag?

„Mér finnst vera mjög sterkar konur innan senunnar,“ segir Salka. „Einnig finnst mér vera ótrúlega spennandi hlutir að gerast í hip hopi hjá konum og fjölbreyttari en mikið af þessu meginstraumsefni sem er í gangi. Hip hop er ein mest meginstraumstónlistarstefna á Íslandi og það eru aðeins nokkrir strákar sem ráða þar.“

Hvað finnst ykkur um það?

„Það er eiginlega ekki hægt að komast í meginstrauminn án þess að vera tekinn inn af ákveðnum aðilum. Það er auðvitað ákveðin veikburða staða fyrir konur að það séu aðeins menn sem ráði því. Þetta þýðir að þær þurfa að vera upp á þá komnar til að fá ákveðnar vinsældir.“

 

Konum haldið niðri ómeðvitað

Salka bendir einnig á að útvarpsstöðvarnar séu leiðandi afl og ráði vinsældunum að stórum hluta. Flestir af þeim sem velja tónlistina þar eru karlar sem sé hamlandi fyrir konur í rappi.

„Engin kona hefur náð sömu vinsældum og strákarnir. Það er karlaveldi sem stjórnar þessu. Þetta hefur verið mikið rætt innan Reykjavíkurdætra. Fyrst núna erum við komnar með þau tól og hljóðver til að geta gert eitthvað viðlíka og þeir.“

Salka bendir á að Reykjavíkurdætur hafi lent illa í því og verið hafnað af öllum innan senunnar. Þær hafi til að mynda aldrei fengið útvarpsspilun eða meðbyr hjá þjóðinni.

„Ég man til dæmis þegar við vorum að fara hita upp fyrir Migos. Um leið og Reykjavíkur dætur voru kynntar fyrir ungum hlustendahópi þá vorum við eiginlega bara grýttar.“

Myndu þið segja að hip hop-senan væri karllægt umhverfi?

„Alveg hundrað prósent karllægt umhverfi.“

Jóhanna telur að það sé ómeðvitað horft niður á konur í hip hopi. Enginn hafi það markmið að halda konum niðri.

„Ég held að þeir hugsi fyrst og fremst um að hampa hver öðrum áður en þeir taka okkur til greina. Ég held að það sé enginn að reyna að vera vondur.“

Þura bendir á að menningin á útvarpsstöðvunum sé að breytast og yngra fólk að að taka við stjórninni.

„Miðaldra hvítir karlmenn sáu um að velja tónlistina í mörg ár. Mér finnst vera rosalega jákvæðir hlutir vera gerast núna í útvarpi og ég vona að það haldist.“

Sem dæmi nefna þær að stöðin 101 hafi þá stefnu að halda kynjahlutföllunum jöfnum í spilun.

 

Fáir græða á tónlist

Allar tekjur sem Cyber hefur aflað sér hafa farið í framleiðslu á meiri tónlist, myndbönd og búninga. Hver plata kosti um milljón krónur. Salka segir að hljómsveitin sé á sléttu í dag.

„Við eigum alltaf eitthvað en við erum ekkert rúllandi í seðlum. Við höfum eiginlega aldrei fengið einhver laun. Þegar við höfum fengið eitthvað, kannski fimmtán þúsund kall, þá förum við oft út að borða.“

Jóhanna segir að fáir græði peninga á tónlist á Íslandi. Þetta er eitthvað sem fólk gerir með annarri vinnu.

Cyber-stelpurnar eru núna að taka upp myndband fyrir lagið Hold af nýju plötunni. Þær eru einnig að huga að efni í næstu plötu og tónleikum. Ekki aðeins hér á landi, því að á næstunni troða þær upp í Helsinki.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set