fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Gítarleikari Manowar tekinn með barnaklám

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 18. nóvember 2018 19:00

Karl Logan Gítarleikari handtekinn fyrir vörslu barnakláms.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þungarokksheimurinn fékk mikið áfall fyrir tæpum mánuði þegar tilkynnt var að gítarleikari Manowar hefði verið handtekinn og ákærður fyrir vörslu barnakláms. Hljómsveitin á mjög alþjóðlegan aðdáendahóp og langa og stórmerkilega sögu að baki. Hafa þeir meðal annars skrifað undir plötusamning í eigin blóði og sett þrjú heimsmet fyrir háværustu tónleikana. Enginn hefur í raun komist til botns í því hvort að meðlimunum sé full alvara eða hvort Manowar sé fjörutíu ára gamall brandari.

 

Handtekinn með barnaklám

Þann 25. október síðastliðinn var tilkynnt að hinn 53 ára gamli Karl Logan, gítarleikari Manowar, hefði verið handtekinn vegna gruns um vörslu barnakláms. Handtakan átti sér stað 9. ágúst í borginni Charlotte í Norður-Karólínu. Logan var leystur úr haldi eftir að hafa greitt 35 þúsund dollara eða rúmar fjórar milljónir króna í tryggingu. Í kjölfarið var hann ákærður fyrir að taka óbeinan þátt í misnotkun á börnum.

Degi seinna gaf hljómsveitin út stutta yfirlýsingu um málið. Þar stóð:

„Varðandi handtöku Karls Logan og ákærurnar gegn honum:

Vegna þeirrar staðreyndar að Karl og lögfræðingar hans eru að fást við þetta mál, mun hann ekki spila með Manowar. Þetta mun hvorki hafa áhrif á væntanlega plötu eða tónleikaferðalag.“

Frekari tilkynningar eða upplýsingar um málið hafa ekki komið frá hljómsveitinni eða umboðsaðilum hennar. Þann 30. október birtust fréttir frá miðlum í Norður-Karólínu sem skýrðu málið nánar. Logan var kærður fyrir sex atvik sem tengdust öll barnaklámi. Áttu þau sér stað síðastliðið sumar, frá 18. júní til 2. ágúst. Í ákærunni segir að um sé að ræða myndbandsupptökur af stúlkum frá fjögurra ára aldri upp í tólf ára aldur í kynlífsathöfnum með fullorðnum karlmönnum. Voru upptökurnar sagðar mjög alvarlegar og stúlkunum augljóslega orðið mjög meint af.

Logan hafði verið eini gítarleikari hljómsveitarinnar frá árinu 1994 þegar hann tók við af David Shankle. Hefur hann verið fjarlægður af lista meðlima og mun væntanlega aldrei spila með þeim í framtíðinni, þótt hann verði sýknaður, enda hefur Manowar gefið það út að stutt sé í endalokin. Shankle hefur boðist til þess að taka við stöðunni á ný og klára tónleikaferðalagið sem hefur nú staðið yfir í tvö ár.

Aðdáendur eru augljóslega slegnir. Hafa margir lýst yfir miklum viðbjóði á Logan en aðrir sagst vilja bíða með sleggjudóma þangað til málið hefur verið leitt til lykta.

Plötusamningur
Undirritaður í blóði hljómsveitarmeðlima.

Stríðsmenn í lendaskýlum

Hljómsveitin Manowar á sér langa og merkilega sögu sem nær aftur til ársins 1980. Bassaleikarinn Joey DeMaio var þá rótari hjá Black Sabbath. Eftir að hafa kynnst Ross the Boss, gítarleikara upphitunarbandsins The Dictators, var Manowar stofnuð með blessun Ronnie James Dio, þáverandi söngvara Black Sabbath. DeMaio fékk æskufélaga sinn Eric Adams til að syngja og hafa þeir tveir verið hryggjarstykkið í bandinu allar götur síðan. Aðrir meðlimir hafa komið og farið.

Á þessum tíma var mikil gróska í þungarokkinu og bönd á borð við Iron Maiden, Judas Priest og Motörhead ruddu brautina og ljóst að Manowar varð að marka sér sérstöðu til að fá sitt rými og það gerði hljómsveitin svo sannarlega.

Lagasmíðarnar gengu út á mikilfengleika og sóttu DeMaio og félagar ekki síður innblástur til klassískra tónskálda en annarra rokkara. Textarnir báru þess einnig merki og sagðar voru sögur af miklum stríðsmönnum, sjálfsfórn og dýrð. Á fyrstu plötunni, Battle Hymns frá árinu 1982, spilaði DeMaio forleikinn að Vilhjálmi Tell eftir Rossini og leikstjórinn Orson Welles var fenginn til að tala inn á plötuna. Á umslagi annarrar plötunnar var mynd af hljómsveitarmeðlimunum í lendaskýlum og með sverð, eins og unglingar sem höfðu spilað yfir sig af Dungeons & Dragons.

Enginn vissi hvað var í gangi eða hvaðan þessir menn komu. Var þeim alvara eða voru þeir að gera grín að þungarokkinu? Voru þeir heilir á geði?

Ýktir
Enginn veit hvort Manowar sé grín eða ekki.

Heimsmet langt yfir sársaukamörkum

Meðlimir Manowar héldu áfram að hamra járnið. Árið 1983 vakti það mikla athygli þegar þeir skrifuðu undir plötusamning við útgáfufyrirtækið Megaforce í sínu eigin blóði. Þeir voru komnir til að taka þungarokkið í nýjar hæðir og allir sem ekki sættu sig við það máttu lúta í gras.

Manowar er bandarískari en graskersbaka en fljótlega kom í ljós að vinsældir hljómsveitarinnar lágu ekki í heimalandinu. Þar voru þeir af mörgum taldir hálfgerð viðundrasýning, sérstaklega eftir að þrassbylgja Metallicu, Anthrax og Slayer hóf innreið sína. En í Evrópu og Suður-Ameríku var Manowar metin að verðleikum, einna helst í Þýskalandi sem verið hefur annað heimili hljómsveitarinnar í hartnær fjóra áratugi. Meðlimir Manowar hafa alla tíð verið þakklátir fyrir vinsældirnar utan heimalandsins. Til að sýna það í verki hafa þeir tekið upp lög á alls átján tungumálum.

Árið 1984 komu þeir sér í heimsmetabók Guinness fyrir háværustu tónleikana. Það met slógu þeir sjálfir árið 1994 í Hannover og fór desíbelmælirinn upp í 129,5. Það er svipaður hávaði og herþota gefur frá sér við flugtak og er langt yfir sársaukamörkum mannseyrans. Enn slógu þeir metið árið 2008 í hljóðprufum á Magic Circle-hátíðinni í Þýskalandi. Fór mælirinn þá upp í 139 desíbel, sem er aðeins 10 desíbelum frá því að rjúfa hljóðhimnuna.

 

Leður og stál
Manowar eru enn vinsælt tónleikaband.

Vinsældir og langur lokahnykkur

Vinsældir Manowar risu hæst undir lok níunda áratugarins og í upphafi þess tíunda. Platan Fighting the World markaði vatnaskil og var fyrsta gullplatan þeirra í Þýskalandi. Það sama gerðu næstu fjórar plötur, Kings of Metal, The Triumph of Steel, Louder Than Hell og Warriors of the World. Myndbönd Manowar fóru einnig að birtast á sjónvarpsstöðinni MTV.

Manowar glataði samt engum af sínum eiginleikum og komu meðlimir sveitarinnar keyrandi leðurklæddir á mótorfákum inn á hverja tónleika. Tóku þeir meðal annars upp Býfluguna eftir Korsakov, Nessun Dorma eftir Puccini og hálftíma langt lag byggt á Illionskviðu Hómers.

Síðustu fimmtán árin eða svo hafa vinsældir hljómsveitarinnar í plötuútgáfu dalað nokkuð. Þó hefur það haldið sér á stalli sem eitt vinsælasta tónleikabandið í senunni. Vorið 2016 sendu þeir frá sér yfirlýsingu um að komandi tónleikaferðalag yrði þeirra hinsta en þó gáfu þeir engan tímaramma um hvenær því lyki. Er talið að það vari að minnsta kosti út árið 2019 en þá án Logan. Endirinn virðist ætla að teygjast enn meir því í vor gaf DeMaio það út að ný stúdíóplata væri í vinnslu og er áætlað að hún komi út snemma á næsta ári.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram