fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

„Þetta er sú alstærsta gjöf sem ég hef fengið í lífinu“

Guðni Einarsson
Mánudaginn 8. október 2018 21:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Poppstjarnan og öðlingurinn Páll Óskar Hjálmtýsson er listamaður sem hefur snert mörg íslensk tónlistarhjörtu á löngum og glæstum ferli. Palli hefur ekki einungis látið sig tónlistina varða heldur hefur hann verið mikilvæg og öflug rödd í réttlætisbaráttu samkynhneigðra sem og annarra mikilvægra málefna en söngvarinn kemur fram á styrktartónleikum undir formerkinu Lof mér að lifa – Styrktartónleikar fyrir unga fíkla. Á tónleikunum, sem Ellen Kristjánsdóttir söngkona á veg og vanda að og haldnir verða í Háskólabíói þann 8. nóvember, mun rjóminn af íslensku tónlistarfólki koma fram.

Ferill Palla hefur ekki alltaf verið dans á rósum en tónlistarmaðurinn lenti í skuldavanda eftir mislukkaða plötu og tónleikahald um Evrópu, en með jákvæðnina að vopni og stífu aðhaldi tókst honum að rétta úr kútnum og hefur aldrei verið á betri stað að eigin sögn.

Ég heyrði í Palla og forvitnaðist um ferilinn og sitthvað fleira hjá þessum vinsælasta tónlistarmanni þjóðarinnar og líklega þeim lífsglaðasta.

Ljósmynd: DV/Hanna

Nú ertu búinn að vera í bransanum í yfir tvo áratugi, hvernig hófst þetta allt saman hjá þér?

„Lætin byrjuðu 1991 þegar ég var í Menntaskólanum við Hamrahlíð og útskriftarverkefnið mitt var Rocky Horror. Ég hins vegar byrjaði að syngja inn á barnaplötur sem krakki, söng og lék í auglýsingum og kom fram í Stundinni okkar. Það var bara upphitun fyrir það það sem koma skyldi.“

Hvernig er tilfinningin þegar þú horfir til baka yfir ferilinn, er eitthvað sem þú vildir hafa gert öðruvísi?

„Nei, alls ekki. Það sem ég er mest þakklátur fyrir er það að vera enn þann dag í dag baksviðs alveg eins og krakki að klappa saman lófunum af tilhlökkun að komast inn á svið, ennþá sami viljinn og orkan. Að fá að gera þennan gjörning, sem er að syngja, troða upp og koma fram fyrir fólk. Þetta er sú alstærsta gjöf sem ég hef fengið í lífinu. Ég er líka þakklátur fyrir að mér hefur aldrei leiðst og aldrei orðið einmana. Þetta eru tvær tilfinningar sem ég einfaldlega þekki ekki.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Þegar þú sérð þig fyrir tuttugu árum og svo eins og þú ert í dag, hverjar eru helstu breytingarnar, ef einhverjar eru, að þínu mati?

„Ég er fyrst og fremst miklu þolinmóðari og miklu reiðubúnari til þess að læra, einkum og sér í lagi af eigin mistökum. Ég held að þetta sé nákvæmlega tilgangur lífsins – þú lifir til þess að læra. Ég hef hitt fólk í lífinu sem að er einfaldlega alls ekki tilbúið til þess og rekur sig á sömu veggina og gerir stöðugt sömu mistökin aftur og aftur. Sem betur fer er ég tilbúinn til þess að skoða sjálfan mig í krók og kring, alltaf tilbúinn til þess að bæta mig. Til dæmis sú vinna sem við höfum unnið í Borgarleikhúsinu í Rocky Horror-söngleiknum. Þar hef ég gert mitt besta til þess að bæta mig milli sýninga. Núna erum við að sýna sýningu númer sextíu og ég held að þessi sýning hafi aldrei verið jafn sterk. Rocky Horror styrkist eftir því sem sýningarnar verða fleiri. Ég vil líka sjálfur vaxa og dafna, styrkja sjálfan mig og finna nýja liti í litaboxinu.“

Nú eru vinsældir þínar miklar hér heima. En erlendis?

„Nei, ég hef aldrei gert neitt alvarlegt til þess að koma mér út fyrir landsteinana.“

Er einhver ástæða fyrir því?

„Það var aðallega eftir Eurovision 1997 þá ferðast ég svolítið mikið um Evrópu 1997, 98 og 99. Tróð upp á Eurovision-ráðstefnum, Eurovision-aðdáendaklúbbum og á Gay Pride-hátíðum sem þá voru haldnar víðs vegar um Evrópu. Oftar en ekki endaði þetta þannig að ég sat uppi með allan kostnaðinn. Ég þurfti að borga sjálfur flug, hótel, upphald og fékk síðan lítið sem ekkert út úr því að troða þarna upp. Á þessum árum var ekki komin nein loftbrú og styrkveitingar til poppara voru af frekar skornum skammti. Ef aðstæðurnar hefðu verið öðruvísi hefði ég alveg þegið meiri hjálp. Í stuttu máli þá fékk ekkert út úr þessu. Mig vantaði fleiri lög og betri lög á ensku. Ensku þýðingarnar á íslensku lögunum voru oftar en ekki lélegar og hreinlega virkuðu ekki. Ég þurfti að taka ákvörðun um að koma heim og hreinlega byrja að borga reikningana og koma mér út úr skuldafeninu. Ég kaus frekar að koma heim inn í aðstæður sem ég þekkti þar sem auðveldara var fyrir mig að skaffa tekjur. Það tók mig sex ár að vinna mig upp úr skuldafjallinu sem myndaðist árið 1999.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Voru þetta helst ferðalögin úti sem komu þér í skuldasúpuna?

„Bæði það og plata sem ég gaf út 1999 sem átti að vera svona „meik-plata“ á ensku, en hún stóð engan veginn undir kostnaði sem var á mínum herðum. Ég tók sénsinn og ég tók ábyrgðina á þeim séns. Í júní 2006 náði ég að borga síðasta reikninginn af því skuldafeni. Þetta blessaða góðæri sem var í gangi á þeim tíma, það fór alveg gjörsamlega framhjá mér.“

Er það ekki svolítið þannig, að það er alltaf dyggur aðdáendahópur sem mætir á öll böll hjá þér?

„Jú, ég hef alveg tekið eftir því. Ég er samt alveg yndislega hissa á því á hvaða aldri fólkið er. Það eru stundum alveg þrjátíu ár á milli mín og þeirra sem eru á dansgólfinu.“

Er það ekki frekar góð tilfinning?

„Mér finnst það aðallega algjörlega magnað, að það geti yfirhöfuð gerst.“

Af hverju heldurðu að það sé?

„Ég hef ekki eitthvert eitt svar. Málið er það að ég elska að gera þetta og ég get ekki „feikað“ það. Ég treð upp skilyrðislaust, líka þegar ég er veikur, illa fyrirkallaður og „fokked“. Þá fer ég upp á svið og gef blóð. Ég held að liðið „fíli“ hvað ég elska þetta. Það skapar algerlega filterslausa tengingu milli mín og þeirra.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Ef við færum tónlistina aðeins til hliðar. Hvað gerir Páll Óskar í frítímanum?

„Akkurat núna þá er ég varla með neinn frítíma. Ég nýti lausa tímann í stúdíóvinnu. Ég er að vinna tvö lög í einu með tveimur mismunandi listamönnum, sem mér líst mjög vel á og koma út von bráðar, og munum vinna myndbönd með báðum lögunum. Ég er líka að vinna að styrktartónleikum sem haldnir verða 8. nóvember í Háskólabíói. Þetta eru tónleikar sem bera yfirskriftina Lof mér að lifa – Styrktartónleikar fyrir unga fíkla. Ég og restin af þjóðinni erum í áfalli yfir þeirri staðreynd að núna á þessu ári hafa rúmlega þrjátíu ungmenni dáið af völdum neyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum. Listinn er orðinn ansi langar af listamönnum sem vilja koma þarna fram. Ég er þarna, Baggalútur, Hjálmar, Svala Björgvins, Ellen Kristjáns, Sigríður Thorlacius, Elín Ey, Jói Pé og Króli, KK og fleiri listamenn að bætast við.

Ég er líka að undirbúa annað svona hliðarverkefni. Mig langar svo að taka upp djassplötu, ég er loksins búinn að detta niður á þema sem ég er að „fíla“ í botn.

Eins og þú heyrir þá er þetta vel þétt og þannig vil ég líka hafa það,“ segir Páll Óskar og skellir upp úr.

Ljósmynd: DV/Hanna
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024