Gamanleikarinn Eddie Murphy hefur verið ráðinn til þess að leika í endurgerð á kvikmyndinni Grumpy Old Men. Margir hverjir kannast við upprunalegu myndina frá 1993 þar sem þeir Jack Lemmon og Walter Matthau sýndu sínar betri hliðar. Myndin sló rakleiðis í gegn og voru félagarnir samankomnir aftur í framhaldsmynd tveimur árum síðar.
Myndin segir frá tveimur nágrönnum sem hafa eldað grátt silfur í marga áratugi. Á hverjum degi úthúða þeir hvor öðrum og reyna að gera óvininum einhverja skráveifuna, hvort sem er við heimavöll eða víðar. Ekki lagast ástandið þegar fögur ekkja (leikin af Ann-Margret í upprunalegu myndinni) flytur í hverfið. Þá berast þeir næstum á banaspjót við að vinna hylli konunnar og kemur í ljós að rosknu fjendurnir eru aldeilis ekki dauðir úr öllum æðum.
Eddie Murphy hefur verið fjarverandi í grínhlutverkum síðustu árin, eða réttar sagt síðan 2011 þegar gamanmyndin Tower Heist kom út. Líklegt þykir að Murphy verði einn framleiðandi þessarar endurgerðar og spreyti sig í hlutverki nágrannans sem Jack Lemmon lék á sínum tíma.
Leikstjórinn Tim Story (Fantastic Four, Ride Along) mun sitja við stjórnvölinn þó ekki sé enn vitað hver mun fara með hlutverk erkióvinarins í næsta húsi. Fréttavefurinn Deadline greinir hins vegar frá því að leikstjórinn sé að öllum líkindum í samningaviðræðum við Samuel L. Jackson til þess að fullkomna tvíeykið, en þeir unnu nýlega saman við framhald á spennumyndinni Shaft frá árinu 2000. Sú mynd er væntanleg á næsta ári.
Þess má geta að þeir Murphy og Jackson léku stutt saman í gamanmyndinni Coming to America.
Þeirra brot má sjá að neðan.