Þórarinn Þórarinsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, er mikill aðdáandi bæði sjónvarpsþátta og bíómynda, enda skrifar hann reglulega kvikmyndadóma. Hann er einn helsti Star Wars-aðdáandi landsins, en á sjónvarpsskjánum velur hann næstum án undantekninga breska sakamálaþætti.
„Dauði línulegrar sjónvarpsdagskrár er stórkostlegt fagnaðarefni fyrir drykkfelldan blaðamann sem hefur tamið sér lífsstíl sem býður ekki upp á mikla áætlanagerð.
Netflix og álíka efnisveitur eru því mikill happafengur. Ekki síst vegna þess að eðlislæg óþolinmæði mín og áunninn athyglisbresturinn gera mér nánast ómögulegt að halda áhuganum á sjónvarpsþáttaröðum ef ég þarf að bíða viku á milli þátta.
Eina undantekningin eru þeir stórbrotnu glæpaþættir Law & Order: SVU sem ég mun aldrei telja eftir mér að bíða eftir. En nú eru elsku Mariska mín Hargitay og Ice-T í sumarfríi þannig að ég hef loksins tilfinningalegt svigrúm til þess að sinna öðrum þáttum.
Með örfáum undantekningum nenni ég ekki að horfa á neitt annað en sakamálaþætti og þá helst breska auðvitað. Lágmarkskrafan er í það minnsta eitt morð í hverjum þætti og því ofbeldisfyllri sem þættirnir eru þeim mun betra.
Er nýbúinn með Marcella 2 á Netflix. Framhald prýðilegrar seríu um þá eitursnjöllu en nett geðveiku löggukonu Marcellu. Ég á alltaf mjög auðvelt með að samsama mig með persónum sem glíma við geðræn vandamál og þetta er gott stöff en stendur fyrri seríunni talsvert að baki og þótt endirinn hafi verið galopinn vona ég eiginlega að þarna verði látið staðar numið.
Einhvern veginn hafði mér tekist að trassa að horfa á fjórðu seríu Peaky Blinders sem er með því allra besta sem hefur verið í boði á síðustu árum og afgreiddi málið í beit. Alveg magnað stöff löðrandi í töffaraskap, drama og ruddalegu ofbeldi.
Leikaraliðið í þessum þáttum er stórkostlegt með þann guðdómlega fagra Íra Cillian Murphy fremstan meðal jafningja í hlutverki leiðtoga glæpagengisins The Peaky Blinders. Maðurinn er svo svalur og þokkafullur að unun er á að horfa. Held ég hafi ekki séð jafn fallegan karlmann síðan Johnny Depp og Jude Law voru ungir og fagrir.
Honum hefur líka tekist að gera það sama fyrir Tom Shelby og James heitinn Gandolfini gerði fyrir Tony Soprano. Þessir menn bókstaflega renna saman við persónurnar í brjálæðislegum stórleik á heimsmælikvarða.
Marvel-myndasöguheimurinn er svo algert himnaríki í mínum huga og Netflix-þættirnir sem spunnir eru þaðan eru í algeru uppáhaldi. The Punisher og Daredevil eru auðvitað bestir en á meðan maður býður eftir meiri Punisher er í góðu lagi að dóla sér í gegnum aðra seríu af Luke Cage.
Fyrsta serían var geggjuð, magnað blaxploitation nýrrar aldar. Þessi heldur ekki alveg sama dampi en skemmtilegt er þetta. Og ofbeldisfullt sem betur fer.
Tvítugur sonur minn, sem fékk ákaflega vandað glápuppeldi hjá okkur foreldrunum, tók mig síðan á beinið nýlega og skipaði mér að taka upp þráðinn þar sem ég hætti í miðri fyrstu seríu Better Call Saul og klára þá snilld í snarhasti og vinda mér svo í að vinna upp smá slaka í Arrested Development.
Ég væri að gera átakanlega lítið úr vönduðu uppeldi foreldranna ef ég gerði ekki eins og sonur minn segir mér í þessum efnum.“