Það tók aðeins ellefu ár en harðkjarna Spider-Man-unnendur hafa loksins fengið þann óbeislaða Venom sem þeir þráðu – án nokkurrar aðkomu frá aumingjalegum Topher Grace til þess að spilla fyrir fjörinu. Það verður reyndar að teljast nokkuð merkilegt að ofurhetjugeirinn, og stúdíó-kvikmyndagerð eins og hún leggur sig, sé kominn á þann stað þar sem hægt má búast við kvikmynd úr heimi Köngulóarmannsins án þess að Lóa bregði nokkurn tímann fyrir. Að vísu er það ekki af frumkvæði aðstandenda, heldur tengist þetta allt kómískum réttindadeilum.
Lóa-leysið er annars vegar fjarri því að vera lykilvandamálið við sjálfstæða kvikmynd um þorparaskrípið Venom. Það má svo sem ekki neita því að mynd um vinsælasta skúrkinn í heimi Lóa eigi síður möguleika á því að ganga upp þegar vantar réttu hetjuna til að mynda mótvægið. Á móti því er hér komin fínasta afsökun fyrir þungavigtarleikara eins og Tom Hardy til þess að leika lausum hala, innan barnvænna marka. Vissulega.
Til þess að njóta myndarinnar er eina vitið að láta það ekki þvælast fyrir hvað margar ákvarðanir persóna eru taktlausar og bjánalegar, hvað A og B söguþræðirnir eru báðir grautþunnir, hvað framvindan og atburðarásin er lengi að koma sér af stað og reynir að haka í ákveðin tékkbox af úldnum klisjum.
Á pappír er Venom brakandi fersk hugmynd að ofurhetjusögu með sveigjanlegri siðgæðisvita, en hvað úrvinnslu varðar er þessi mynd trúlega fimm eða tíu árum á eftir sinni samtíð. Deadpool-myndirnar ættu m.a. að hafa sýnt fram á að geirinn er farinn að leyfa svigrúm fyrir tilraunastarfsemi, meiri klær og meira pönk. Þess vegna veldur það talsverðum vonbrigðum hvað Venom í rauninni leikur mikið eftir eyranu án nokkurra sénsa. Það kemur hálfpartinn á óvart hvað hægt er að búa til krakkavæna mynd um furðuhetju sem ítrekað étur hausinn af óvinum sínum. Aðeins tenntari nálgun á hráefnið hefði ekki sakað.
Í stórmyndum þessa dagana er þó ekki í boði að framleiða kvikmynd um illmenni án þess að sé þá dregin upp þörf til þess að breyta henni í gallaða hetju, ekki þegar helsti markhópurinn er á grunnskólaaldri. Þá þarf að finna annan, enn verri skúrk fyrir andhetjuna til þess að slást við. Í tilfelli Venom lendir þetta þá í hinni margnotuðu gryfju – sem Marvel Studios myndirnar hafa nú mjólkað niður í tær – þar sem handritið kokkar upp skúrk sem er bein hliðstæða við (and)hetjuna, með nákvæmlega sömu krafta. Þetta skrifast væntanlega líka á efnivið myndasagnanna að einhverju leyti, en það gildir ekki alltaf sem afsökun.
Óneitanlega tekst Tom Hardy að rífa þetta ruslhandrit á betri stað, með dásamlegum ofleik sem slær upp í létta Nic Cage-takta á tíðum. Leikarinn hefur sjálfur gefið í skyn að myndin hafi verið skorin niður um góðar 40 mínútur (hvort sem hann sagði það í gríni eða ekki er enn óvitað). Ef áhorfandinn skoðar saumanna er alveg óhætt að segja að það sjáist merki um að myndin hafi lent í einhverri hakkavél hjá höfuðstöðvum Sony. Skýrasta dæmið um það liggur í stærstu persónuþróun myndarinnar, sem er hjá titlaða sníkjudýrinu. Á augabragði breytist Venom úr fjandsamlega illu kvikindi með heimsyfirráð í huga yfir í mýkra dýr með veikan blett fyrir Jörðu og vont sjálfsálit (algjör „lúser“, eins og hann sjálfur segir). Ekki er það mjög sexí og framleiðendur virðast ekki telja það neinu máli skipta að skilja eftir nokkuð kjöt á hvaða beinum sem hér eru í boði.
Þegar handritið finnur sér tíma til að einblína á hið eitraða samband og hressilegu félagasamskipti milli aðalpersónunnar og sníkjudýrsins, verður útkoman nokkuð skemmtileg. Verst er þó að myndin er ekkert sérstaklega fyndin, sama hve mörgum bröndurum hún hleður inn. Það laumast inn kaótískur hasar af og til, en trekkir sjaldan upp neinn púls. Síðan er einhver staðar rauður þráður að ástarsambandi en einungis til þess að haka við enn eitt boxið. Michelle Williams er t.a.m. frábær leikkona á góðum degi en er meiri uppfyllingarpersóna hér en annað. Riz Ahmed leikur helsta skúrk myndarinnar sem eins konar illa Elon Musk fígúru og kann augljóslega vel við sig, áður en hann leysist upp í þorpara af færibandi.
En ef við snúum okkur að köldu mati, þá er makalaust hægt að skemmta sér yfir þunnildunum, svo framarlega sem væntingar séu langt niðri í gólfi og heilastarfsemin í fríi. Það er pottþétt svigrúm til þess að halda áfram með þessa seríu og gera brenglaðri hluti en sem stökkpallur og fígúrukynning hefði margt mátt betur gera. Venom má þó eiga það að vera skömminni skárri og ögn villtari heldur en bæði síðasta mynd Köngulóarmannsins sem var eingöngu í meðferð Sony. Þá er ekki minnst á Spider-Man 3 þar sem úrvinnsla fígúrunnar jaðraði við tómt nördaslys. Þegar upp er staðið eru það slíkir litlir sigrar sem skipta mestu, ef einhverju.