Hvert kvikmyndafyrirtækið á eftir öðru hefur slegist um söguna af fótboltastrákunum sem festust í helli í Taílandi – og mögnuðu björgunaraðgerðirnar sem í kjölfarið fylgdu.
Saga strákanna og þjálfara þeirra hélt heiminum í heljargreipum í sumar og að svo stöddu eru allt að sex útgáfur á forvinnslustigi. Á kvikmyndahátíðinni í Toronto var þó formlega tilkynnt framleiðsla á háskadramanu The Cave. Myndin verður framleidd í Taílandi og situr leikstjórinn Tom Waller við stjórnvölinn, en hann er sjálfur af taílenskum uppruna. Á kvikmyndahátíðinni fór fram uppboð á milli framleiðslufyrirtækja sem vildu tryggja sér dreifingarétt myndarinnar.
Tökur fara fram í nóvember og verður The Cave þá fyrst kvikmyndanna í mark um fótboltastrákanna.
Á meðan mikill spenningur ríkir fyrir The Cave stendur til hjá öðrum framleiðendum að útbúa eigin kvikmynd um söguna. Á samskiptamiðlum hafa margir hverjir lýst áhyggjum sínum yfir því hvort Hollywood-framleiðendur taki sér skáldaleyfi með söguna eða breyti kynþætti drengjanna og þjálfara þeirra í aðlöguninni.
Kvikmyndagerðarmaðurinn Jon M. Chu (Crazy Rich Asians, G.I. Joe 2) hefur verið á meðal þeirra sem krefst þess að framleiðendur eigi að segja söguna rétt. Chu hefur sjálfur verið að þróa sína kvikmynd um þessa sögu og vill koma í veg fyrir svokallaða „hvítþvætti“ bransans vestanhafs.
„Ég neita að leyfa Hollywood að hvítþvo þessa sögu. Ekki séns. Aldrei á okkar vakt. Það mun ekki gerast, því annars er okkur að mæta. Það er falleg saga þarna um mannfólk að bjarga öðru mannfólki. Ef einhver ætlar að segja þessa sögu [í kvikmyndaformi] er eins gott að það sé gert rétt og af virðingu,“ segir Chu á Twitter.
Aðstandendur The Cave virðast í það minnsta ekki þurfa að hafa þessar áhyggjur.
Sjá einnig: Svona var atburðarásin við björgun strákanna úr hellinum – Ótrúlegt björgunarafrek – Tímalína