fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Avengers Infinity War er lifandi hasarblað: Fjör og alvara í ofurhetjuveislu

Tómas Valgeirsson
Föstudaginn 27. apríl 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

NÝTT Í BÍÓ

Leikstjórar: Anthony Russo, Joe Russo
Framleiðandi: Kevin Feige
Handrit: Christopher Markus, Stephen McFeely
Aðalhlutverk: Josh Brolin, Robert Downey Jr., Chris Hemsworth, Chris Evans, Benedict Cumberbatch, Tom Holland, Chris Pratt, Zoe Saldana, Scarlett Johansson, Chadwick Boseman

 

Í hnotskurn: Ofur-ofurhetjumynd í orðsins fyllstu merkingu og með betri myndum Marvel-færibandsins. Aðdáendur seríunnar geta fagnað dátt. 

Ofurhetjur eru alls staðar, en af öllu því ógrynni sem til er af slíkum bíómyndum og myndabálkum hefur aldrei neinu tekist til í líkingu við það sem þursarnir hjá Marvel kvikmyndaverinu hafa náð að dæla út síðustu tíu árin. Margt smátt hefur orðið að mjög stóru frá því að þetta hófst sumarið 2008 með Iron Man og The Incredible Hulk og hefur nú þróast í risastóra seríu sem samanstendur af nítján (bráðum tuttugu plús…) myndum sem saman tengjast í einn þéttpakkaðan kvikmyndaheim.

Í stuttu máli má segja að Avengers: Infinity War marki eins konar endastöð heilla átján bíómynda, þó í rauninni megi fullyrða að hún gangi upp sem sjálfstæð saga í þeim skilningi að það getur hver sem er notið hennar án þess að vinna alla heimavinnuna. Hins vegar er heildin til þess sniðin að verðlauna (og refsa, í sumum tilfellum) hörðustu aðdáendum, sem ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum.

Aðstandendur Marvel-heimsins leyfa sér að taka nokkra sénsa og beita dekkri skuggum en nokkru sinni fyrr. Allan tímann ríkir samt orka og fjör og ríkir sjálfsöryggi aðstandenda fyrir efninu í metnaðinum. Þetta er mynd sem veit hvað hún er, handa hverjum hún er og gengur upp sem lifandi hasarblað í orðsins fyllstu merkingu. Myndin er dökk, dramatísk, epísk, óútreiknanleg og hressilega yfirdrifin frá byrjun til enda.

Doctor Strange, Tony Stark, Bruce Banner og Wong stilla sér upp.

Frekar en að rekja söguþráðinn er betra að draga andann djúpt til að telja upp nöfn helstu hetja sem hér safnast saman í veisluna; Þór, Stark, Rogers, Banner, Romanoff, Doctor Strange, Spider-Man, Black Panther, Star-Lord ásamt sinni fjölskyldu. Þetta eru einungis þeir aðilar sem hafa fengið að spreyta sig í eigin bíómynd eða nokkrum. Bætist svo við heill her smærri hetja, ástvina og illmenna.

Að halda svona mörgum boltum á lofti er ekkert grín, sérstaklega þegar geirinn hefur sýnt ýmis fordæmi um það að meira þýði ekki alltaf betra.

Spider-Man lætur sig ekki vanta í hasarnum.

Má vera að erfitt sé að halda tölu á persónufjöldanum, en atburðarásin er sem betur fer sáraeinföld. Allar hetjur sem ein snúa bökum saman með sameiginlegt markmið í huga: að stöðva stóra, fjólubláa geimveru að nafni Thanos frá alheimsyfirráðum. Hver stórleikarinn á fætur öðrum keppist um skjátímann en samt virðast flestir fá sín móment til að skína og finna aðstandendur fínar leiðir til þess að þræða þessu öllu saman í hnitmiðaða heild.

Myndin er hundlöng en ekki leiðinleg í eina mínútu ef brellubíó, hressar fígúrur, óvæntir glaðningar og léttdramatískur heimsendafílingur er manni að skapi. Hnyttin orðaskipti persóna og uppákomur halda fjörinu gangandi og það meira. Víða verður deilt um það hver helsti senuþjófur myndarinnar er.

Oft fær maður á tilfinninguna að ekkert hafi almennilegar afleiðingar í þessari seríu, en Infinity War umturnar því öllu, enda öll myndin ekki um neitt nema fórnir og afleiðingar, líkamlegar og andlegar. Illmennum þessara mynda hefur áður verið ábótavant og þunn (þó Michael B. Jordan hafi verið undantekning í Black Panther) en yfirvegaði, tragíski og manneskjulegi Thanos hittir alveg í mark. Við höfum oft séð týpuna hans áður í bíómyndum, en Thanos er marglaga og gerður að meiru en stöðluðum teiknimyndaskúrk.

Ef eitthvað þá mætti vera meira af Thanos sem undirstrikar bæði hvað það eru margir boltar á lofti í handritinu og líka hvað Brolin er sterkur og eftirminnilegur undir öllu stafræna gervinu sem á tíðum minnir á Bruce Willis í Homer Simpson-gervi.

Vissulega smellur ekki allt hispurlaust saman, enda of mikið um að vera til að einhver aðili hverfi ekki í bakgrunninn eða einhver dramatík lendi ekki alveg. Myndin gæti ruglað suma verulega sem koma kaldir að henni og eru þeir líklegri til þess að geispa yfir fjórtándu hasarsenunni eða fyrr á meðan allir sem hafa myndað sér einhverja tengingu við karakterana fá orkusprautu beint í æð með magnandi látunum. Heimsendir hefur venjulega þau áhrif að tóna niður húmor hinna kaldhæðnustu karaktera, en stundum gengur Infinity War fulllangt í brandaramagninu. En við öðru var aldrei að búast.

Infinity War gerir þó nákvæmlega það sem hún á að gera fyrir sinn hóp: skemmtir, sjokkerar og mögulega grætir einhverja. Hún er drekkhlaðin hasar og skemmtilegu samspili á milli ólíkra leikara. Alvöru ofurhetjupartí með meiru.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“