fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Rampage gengur ekki upp: Kletturinn og eyðileggingarklámið

Tómas Valgeirsson
Fimmtudaginn 26. apríl 2018 14:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í BÍÓ

Rampage
Leikstjóri: Brad Peyton
Framleiðendur: Brad Peyton, Beau Flynn
Handrit: Ryan Engle, Carlton Cuse, Ryan J. Condal, Adam Sztykiel
Aðalhlutverk: Dwayne Johnson, Naomie Harris, Jeffrey Dean Morgan, Malin Åkerman

 

Í stuttu máli: Tómur hasar, takmarkað fjör. Bölvun svonefndra tölvuleikjamynda heldur áfram.

 

Það er varla hægt að biðja um meira heilalaust bíó heldur en Rampage. Við er auðvitað nákvæmlega engu öðru að búast. Myndin er byggð á tölvuleik þar sem spilarinn hefur það einfalda hlutverk að velja eitt af þremur ofurdýrum, brjóta niður byggingar og drepa hermenn – trekk í trekk og ekkert meir, nema það að valmöguleikar af fígúrum standa á milli górillu, stökkbreyttrar sæskepnu eða fljúgandi úlfs.

Aðeins í Hollywood þykir það sjálfsagður hlutur að grípa grunnhugmynd sem slíka og blása hana upp í fulla lengd. Þess vegna hefur ekkert komið annað til greina en frjáls „aðlögun”, og fyrir valinu varð burðarmynd fyrir stjörnuafl  Dwayne Johnson (áður nefndur – og alltaf þekktur – sem Kletturinn) til þess að spreyta sig sem nýr ókrýndur frasakonungur delluhasars.

Að þessu sinni leikur Johnson ofursjarmerandi prímatasérfræðing sem lendir í miðjum hasar á milli ofannefndra dýrategunda, sem gera auðvitað allt vitlaust eins og nafnið gefur til kynna. Inn í söguþráðinn flækist að sjálfsögðu myndarlegur erfðafræðingur af gagnstæðu kyni með öll svör, illmenni sem eru eins og stigin beint úr teiknimynd og kúrekalöggu sem reynir hreinlega að lykta af töffaratöktum.

Á blaði ætti þetta allt að smella saman á sinn ruglaða máta. Þetta þarf ekki að vera gott, bara stuð. Steypur af þessari týpu eru oft alveg hreint dásamlegt sorp, en í öllum hinum tilfellunum eru þær bara stuðandi sorp. Rampage tekur sig aldrei of alvarlega, sem er jákvætt, en handritið er hvorki fugl né fiskur og þurfa áhorfendur að þola ansi klaufaleg samtöl út í eitt á meðan beðið er eftir næstu eyðileggingu.

Það virðist líka vera vandamál að koma Johnson fyrir í þessa atburðarás, enda sáralítið fyrir manninn til þess að gera án þess að sé traðkað á honum á svipstundu. Handritshöfundarnir – allir fjórir – virðast vera eitthvað týndir þegar kemur að því að finna eitthvað fyrir hann til að gera í stóra bardaganum. Besta lausnin hefði vissulega verið sú að bjóða upp á tröllvaxinn Johnson til þess að slást í för og kýla kvikindin frá sér, í stíl við alvöru B-skrímslamynd, en aldrei verður það svo gott.

Rampage hefur tvennt sem vinnur með henni; hún er hressilega hröð og Johnson er óneitanlega í góðum gír; einbeittur að venju en léttur á því á sama tíma. Í sjálfu sér skipta þessir hlutir litlu máli ef framvindan er meira þreytandi en spennandi, sérstaklega þegar ofan á allt bætast við lélegar brellur annað slagið (sérstaklega í þeim tilfellum þar sem Johnson er áberandi staðsettur fyrir framan tjöld, græn eða blá).

Illmenni myndarinnar eru engan veginn að gera sig, en þau eru í höndum sænsku leikkonunnar Malin Åkerman og Jake Lacy úr The Office; bæði tvö eru háfleyg og með taktlausan ofleik, hvorki spennandi týpur né skemmtilega illkvittin. Ef eitthvað eru þau bara til uppfyllingar, eins og svosem flest annað sem kemur ekki Klettinum við og dýrunum sem ganga berserksgang.

Aðdáendur tölvuleikjanna fá vissulega það sem þeir greiða fyrir, en ef það er eitthvað sem Hollywood skortir ekki, þá er það betra úrval af taumlausu eyðileggingarklámi – og hefur meira að segja Johnson þegar áður leikið í nokkrum slíkum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“