Gabriela Sif Ívarsdóttir Larota hefur unun af því að lesa bækur. Uppáhaldsbækurnar hefur hún lesið tíu og jafnvel fimmtán sinnum.
Gabriela Sif er í 6. bekk í Háteigsskóla í Reykjavík. Hún æfir handbolta með Val, spilar á píanó og er mikill lestrarhestur. „Mér finnst skemmtilegast að lesa spennusögur um ráðgátur,“ segir hún.
Hún er búin að sjá myndir eftir öllum Harry Potter-bókunum sem hún hefur lesið, en finnst bækur almennt skemmtilegri en bíómyndir. „Í bókum ímyndar maður sér söguna betur og veit ekki hvernig persónurnar líta út.“
Gabriela Sif les á hverjum degi og finnst þægilegast að lesa í herberginu sínu. „Mér finnst best að lesa í rauðum stól sem mamma hélt fyrst að væri hræðilega óþægilegur en er síðan bara mjög þægilegur,“ segir hún.
Hún á tvær yngri systur, Andreu Lind sem er átta ára nemandi við Ísaksskóla og Júlíu Líf sem fæddist 12. ágúst. Hún er mjög stolt af systrum sínum en segist ekki lesa mikið fyrir þær því henni finnist best að lesa í hljóði.
Flestar bækur sem Gabrielu Sif finnst skemmtilegar vill hún lesa aftur og aftur og segir að allar bækurnar sem hún nefnir hér sem uppáhaldsbækurnar sínar hafi hún lesið tíu og jafnvel fimmtán sinnum hverja. „Oft ef ég er nýbúin að lesa bók þá les ég sömu bókina aftur. Stundum er ég að lesa tvær bækur í einu.“
Harry Potter og fanginn frá Azkaban
eftir J.K. Rowling
Útgáfuár: 1999
Harry Potter er galdramaður sem elst upp hjá móðursystur sinni og eiginmanni hennar, en þau eru muggar, fólk sem getur ekki galdrað. Þegar hann var 11 ára gamall var honum boðið að hefja nám við galdraskólann, Hogwarts.
Þetta er þriðja bókin í einum vinsælasta bókaflokki í heimi. Hættulegasti fangi allra tíma, Sirius Black, gamall félagi Voldemorts, hefur sloppið úr hinu rammgerða fangelsi Azkaban. Sirius var sendur í fangelsi fyrir að svíkja foreldra Harrys til Voldemorts. Þegar Harry loksins hittir Sirius kemst hann að því að ekki er allt sem sýnist.
Umsögn Gabrielu Sifjar: Þetta er mjög skemmtileg bók. Hér hittir Harry Potter guðföður sinn og margt spennandi gerist.
Molly Moon og dáleiðslubókin
eftir Georgia Byng
Útgáfuár: 2002
Molly Moon er lítil stelpa sem býr á munðarleysingjahæli ásamt fleiri flækingum. Þar fylgist hin grimmilega ungfrú Andersen grannt með krökkunum en Molly eyðir mestum tíma sínum í draumaheimi. Þegar Molly finnur dularfulla bók um dáleiðslu á bæjarbókasafninu, og lærir að koma fólki í trans, þá fara ævintýrin að gerast. Fyrst dáleiðir hún alla sem koma á hæfileikakeppni, og þannig vinnur hún peningaverðlaunin sjálf. Þetta er fyrsta bókin í bókaseríu um Molly Moon.
Umsögn Gabrielu Sifjar: Þessi bók er um stelpu sem lærir að dáleiða og lendir í alls konar skemmtilegum vandræðum.
Olla og Pési
eftir Iðunni Steinsdóttur
Útgáfuár: 1987
Olla og Pési er saga með ævintýralegu ívafi. Hún gerist í Reykjavík. Olla elst upp hjá þremur sérvitringum sem búa á síðasta bændabýlinu innan borgarmarkanna. Vandamál kemur upp sem fullorðna fólkið á erfitt með að ráða við. Það stendur ekki eitt, því að Skáldi, Málfríður og hesturinn Rauður leggja sitt af mörkum.
Umsögn Gabrielu Sifjar: Olla og Pési þurfa að leysa ráðgátu þegar ýmsir hlutir fara skyndilega að hverfa úr sumum búðum og þau reyna að finna þessa hluti. Ollu og Pésa er síðan rænt!
Hungurleikarnir
eftir Suzanne Collins
Útgáfuár: 2008-2010
Hungurleikarnir er fyrsta bókin í þessum vinsæla þríleik, önnur bókin heitir Eldar kvikna og sú þriðja Hermiskaði. Sögumaður þríleiksins um Hungurleikana er hin sextán ára Katniss Everdeen. Hún býr í ríkinu Panem sem reis á rústum Norður-Ameríku. Kapítal, höfuðborg ríkisins, er umkringd tólf umdæmum og drottna valdhafar hennar yfir öllum í Panem.
Hungurleikarnir eru árlegur viðburður þar sem drengur og stúlka á aldrinum 12 – 18 ára frá öllum umdæmunum tólf eru tilnefnd í hlutaveltu, til að etja kappi í beinni útsendingu upp á líf og dauða. Reglurnar eru einfaldar: Sá sigrar sem heldur lífi
Umsögn Gabrielu Sifjar: Þetta eru þrjár bækur sem gerast í framtíðinni og fjalla um stelpu sem á hræðilegt líf. Hún fer að keppa á Hungurleikunum þar sem bara einn lifir af. Mjög spennandi bækur.
Ráðgáta um rauðanótt
eftir Ingibjörgu Möller
Útgáfuár: 1998
Ráðgáta um rauðanótt er verðlaunasaga eftir Ingibjörgu Möller. Þetta var önnur barnabók Ingibjargar. Sagan hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um barnabókarhandrit sem Bandalag kvenna í Reykjavík efndi til í tilefni 80 ára afmælis síns. Aðalsögupersónurnar eru fjórar, tvær stelpur og tveir strákar. Annar strákurinn er alvarlega veikur. Hann fær leyfi til að fara með vinum sínum þremur út í Engey þar sem margt ævintýralegt og óvænt ber við.
Umsögn Gabrielu Sifjar: Þessi bók gerist á Íslandi og úti í eyju sem heitir Engey. Hér er fjallað um týndan strák og bókin er mjög spennandi.
Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV 30. október.
Einfalt er að kaupa prent- og/eða vefáskrift hér: dv.is/skraning