Franck Ribery, sóknarmaður Bayern Munich segir að Cristiano Ronaldo hafi stolið Gullknettinum af sér árið 2013.
Frakkinn átti frábært ár með Bayern Munich og vann þýsku deildina sem og Meistaradeildina með Bæjurum árið 2013.
Þrátt fyrir það endaði Ronaldo á því að vinna Gullknöttinn, Lionel Messi hafnaði í öðru sæti og Ribery í því þriðja.
„Þetta var eins og Gullknettinum hefði verið stolið af mér,“ sagði Ribery.
„Ég get ekki sætt mig við þetta. Ég vann alla bikara sem í boði voru og hefði ekki getað gert meira. Þetta var algjört óréttlæti.“
„Samlandar mínir stóðu ekki með mér. Þeir sögðu að Ronaldo ætti að vinna. Vildu Portúgalar að Messi eða ég myndi vinna? Auðvitað ekki,“ sagði hann að lokum.